12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1929

Hjeðinn Valdimarsson:

Mínar brtt. við fjárlögin eru bæði fáar og lágar. Sú fyrsta er XXVII. á þskj. 435, um styrk handa Oddi Guðjónssyni stúdent, sem tekið hefir fyrir að stunda hagfræðinám við háskólann í Kiel. Þessi ungi maður er hjeðan úr bænum og lauk stúdentsprófi hjeðan úr mentaskólanum síðastl. vor með hárri einkunn. Hann er talinn efnilegur námsmaður og hefir fengið meðmæli frá prófessorum við háskólann í Kiel, sem hann stundar nám við. Hafa þau legið fyrir hv. fjvn., þótt ekki hafi hún tekið tillit til þeirra frekar en annara námsmanna.

Nú má teljast fulláskipað í öllum fræðigreinum bæði af mönnum, sem þegar hafa lokið námi, og stúdentum, sem eru á leiðinni að ljúka námi. Það sama er hægt að segja um hagfræðina, ef miðað er við ríkisembættin, því að það er í raun og veru ekki nema eitt, hagstofustjóraembættið, er krefst hagfræðimentunar að lögum. En nauðsynlegt er einnig, að aðstoðarmaður hagstofustjóra sje hagfræðingur, svo að þá eru 2 embætti í þessari grein í hagstofunni. Það er þó nauðsynlegt að hafa fleiri menn í hverri fræðigrein en þarf til þess að fylla embættin, og á þetta við hagfræði umfram allar aðrar fræðigreinar. Nóg er til að gera. Það hefir sýnt sig, að þeir, sem hafa lokið prófi í hagfræði, hafa fengið nóg að gera hingað til, og jeg hygg, að frá þjóðfjelagsins sjónarmiði sje það síður en svo þarflaust, þótt þessi ungi efnilegi hagfræðingur væri styrktur til náms. En hann hefir litla von um að fá klofið námskostnaðinn styrklaust.

Þá er brtt. XLVII. Þar er jeg flm. ásamt hv. þm. Mýr. (BÁ). Sú brtt. er um það, að Birni K. Þórólfssyni meistara verði veittur 1500 kr. styrkur til þess að skrá skjöl um íslensk mál í söfnum í Kaupmannahöfn.

Meðal þeirra, sem íslensk fræði stunda, er Björn meistari Þórólfsson kunnur orðinn fyrir áreiðanleik og samviskusemi. Hann hefir reynst hjálplegur þeim, sem fengust við að rannsaka, hvaða skjöl skyldi flytja til Íslands og hver eftir verða. Hefir hann aflað sjer mikillar þekkingar á skjölum, er íslensk mál varða og í söfnum liggja í Kaupmannahöfn. — Meðmæli með þessari styrkveiting fylgja frá Hannesi Þorsteinssyni, Finni Jónssyni, Boga Melsted og Sigfúsi Blöndal. Ljúka þeir allir lofsorði á vísindamannshæfileika hans og hafi hann getið sjer orð sem efnilegur fræðimaður. Þess skal getið, að í ráðhússafninu í Kaupmannahöfn, sem ekki hefir verið rannsakað af íslenskum mönnum, mun vera ýmislegt í skjölum og skrám, er snertir verslunarsögu Íslands. Eins mun vera í ríkisskjalasafninu. Þar mun ýmislegt fólgið, sem enn hefir ekki verið fram dregið í ljós sögunnar. Það er tvímælalaust bráðnauðsynlegt verk að skrá fyllilega íslensk skjöl í söfnum í Kaupmannahöfn, bæði þau, sem þegar eru kunn, og þau, sem enn kunna að felast þar. Minni greiðsla til þess verks en 1500 kr., eða til vara 1000 kr., er ekki frambærileg. En það er of lítið.

Brtt. 435,LXXXV er um eftirgjöf á námslánum. Árið 1924 var samþyktur liður í fjárlögum um 20 þús. kr. til þess að veita íslenskum stúdentum námslán úr viðlagasjóði. Nokkuð margir námsmenn hafa fengið lán af þessu fje. Tveir af þessum mönnum fara þess á leit, að þeir fái eftirgefna kröfu um endurgreiðslu á lánum, sem þeim hafa verið veitt. Annar þessara tveggja, Brynjólfur Bjarnason, varð veikur á námsárum sínum og gat því ekki lokið námi, og hefir verið og er heilsuveill síðan. Hinn, Finnur Jónsson málari, er að vísu ekki veikur, en mjer er kunnugt um, að hans högum er svo háttað, að ekki er við því að búast, að hann geti greitt lánið.

Þegar þessi lánveitingaheimild til íslenskra stúdenta var samþykt, var ekki búist við því, að lánsfjeð fengist alt aftur. Það var gert ráð fyrir, að talsvert af því mundi tapast. Jeg hygg því rjettara að strika þessar upphæðir út, þar sem ganga má út frá, að lánþegum reynist ekki kleift að standa skil á þeim.

Þá er till. frá mjer og háttv. 1. þm. Reykv. (MJ) um skólagjöld, XXX. liður á sama þskj. Við 2. umr. var feld till. frá okkur jafnaðarmönnum um að fella niður skólagjöld við ríkisskólana. Nú viljum við hv. samþm. minn (MJ) fara fram á að gera þau nokkru sanngjarnari, þannig að í stað 150 kr. komi 10 kr. á mánuði hjá þeim, sem ekki er eftirgefið skólagjaldið; sjeu fleiri nemendur á framfæri sama manns, greiðist 5 kr. fyrir annan, en fyrir þá, sem þar eru fram yfir, greiðist ekkert skólagjald. Með þessu móti lækkar skólagjaldið úr 150 kr. niður í 90 kr. á ári, ef gert er ráð fyrir 9 mánaða kenslu árlega. Við sjáum ekki ástæðu til að færa niður þann tekjulið, sem byggist á skólagjöldunum, fyrir því. Eftir upplýsingum fást yfir 15 þús. kr. jafnvel með þeirri lækkun, sem við förum fram á. En það er sú upphæð, sem fjárlagafrv. reiknar með.

Auk þessarar lækkunar, sem nemur ekki alllitlu, er annað hagræði fólgið í till. okkar, sem sje það, að skólagjöld skuli greidd mánaðarlega, í stað þess, sem nú er, í byrjun hvers skólaárs. Þótt ekki sje hærri upphæð en þetta, eiga margir erfitt með að snara henni út í einu, en geta hinsvegar frekar staðið sig við að greiða 10 kr. mánaðarlega. Það er að vísu nokkru meiri fyrirhöfn við innheimtu skólagjaldanna, sem stafar af mánaðarlegri greiðslu. En ekki munar það svo miklu, að setjandi sje fyrir sig.

Þar sem svo litlu munaði, að nægilegur atkvæðafjöldi fengist með till. um niðurfelling skólagjalda — hún var feld með 15:13 atkv. —, vona jeg, að betur fari fyrir þessari, og þykist jeg vita, að margir hv. þm. muni vilja greiða atkv. með þessari miðlunartillögu, þótt þeir hinsvegar vildu ekki með öllu missa þann tekjulið, er skólagjöldin skapa, þótt lítill sje.

Síðasta brtt. mín, sem jeg þarf að gera grein fyrir, er LXX. á þskj. 435. Hana flytja allir þm. Reykjavíkur. Þar er farið fram á 2000 kr. styrk til Sjúkrasamlags Reykjavíkur til þess að koma á sambandi milli allra Sjúkrasamlaga á landinu og til að stofna ný sjúkrasamlög. Þessi till. kom fram á þingi í fyrra og var samþ. í Nd., en feld niður aftur í hv. Ed. Sjúkrasamlag Reykjavíkur ætlar sjer að koma á stofn landssamlagi fyrir öll sjúkrasamlög, sem nú starfa. En þau eru 8, önnur en sjúkrasamlag Reykjavíkur, sem er þeirra öflugast og hefir um 2000 meðlimi. Það er mjög lítið í samanburði við það, sem gerist erlendis, þar sem sjúkrasamlög eru orðin útbreidd. Það er nauðsynlegt, að eitthvað sje gert til útbreiðslu þessarar fjelagsstarfsemi, og það er tilætlunin, að gert sje fyrir þennan styrk. Þeir, sem álíta, að sjúkratryggingar eigi að komast á með venjulegum hætti, frjálsum samtökum án íhlutunar ríkis, eru þess hvetjandi, að gerður verði út einskonar regluboði til þess að vekja áhuga manna í þessu efni og stofna ný sjúkrasamlög. Þessi till. er ekki á neinn hátt kjördæmismál fyrir Reykjavík sjerstaklega, því að einmitt þau hjeruð, sem ekki hafa nú sjúkrasamlag, geta helst á henni grætt. Jeg vil geta þess, að það er einn stór agnúi á því að hafa ekki samband milli samlaganna. Menn, sem eru í sjúkrasamlagi einhversstaðar, flytjast úr einum stað í annan. En þeir geta ekki gengið í það samlag, sem fyrir er á staðnum, nema þeir bíði svo og svo langan tíma til þess að öðlast rjettindi þar. Ef landssamband væri milli allra sjúkrasamlaga, gætu meðlimir þeirra tafarlaust fengið öll sömu rjettindi og í sínu eigin samlagi, hvar svo sem þeir eru staddir, ef þar er sjúkrasamlag fyrir. Tilgangur sjúkrasamlags Reykjavíkur er að koma á slíku landssambandi, samskonar og tíðkast erlendis. En samskonar sambandi yrði síðar komið á milli íslenska landssambandsins og landssambanda Norðurlandaþjóðanna hinna, sem nú hafa slíkt samband sín á milli.

Jeg vona, að háttv. þm. vaxi ekki þessi litla upphæð, 2000 kr., í augum, þegar um svo þarft og sjálfsagt mál er að ræða.