20.02.1928
Efri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (1910)

111. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Frv. þetta, á þskj. 206, er flutt, hvað aðalefni snertir, að ósk kjósenda minna nyrðra. Aðalefni þess er lækkun á útflutningsgjaldi á síld, að útflutningsgjaldið, sem nú er kr. 1,50 af síldartunnunni, verði lækkað niður í 75 aura af tunnu.

Ástæðan til þess, að farið er fram á lækkun útflutningsgjaldsins, er sú, að eins og nú er, er þetta gjald margfalt hærra en af nokkurri annari útfluttri vöru. Miðað við verðgildi síldarinnar má telja, að þetta gjald, kr. 1,50 af tunnu, sje nálægt því fimmfalt hærra en af öllum öðrum afurðum, sem seldar eru út, sje útflutningsgjaldið miðað við verð vörunnar. Að öðru leyti fer frv. fram á breyting á gjaldi á fóðurmjöli o. s. frv., sumpart til þess að samræma það við útflutningsgjaldið af síld, ef það verður fært niður sem fyr segir, og sumpart eru þessar breytingar til þess að koma inn nýjum liðum, sem vantað hefir í lög um útflutningsgjald af íslenskum afurðum. Má því til sönnunar benda á, að ekkert af síld óunninni, fiskúrgangur, hausar og bein, hefir til þessa heyrt undir lög um útflutningsgjald, og nemur þó sá útflutningur talsverðu.

Í grg. með frv. er bent á, hvernig eigi að reikna út útflutningsgjaldið af síldarmjöli. Jeg tel rjett, að miðað sje við sama gjald og af síldinni hrárri, hvort sem hún er send úr landi krydduð og söltuð, eða henni er breytt í mjöl og lýsi, þannig, að hráefnið sje lagt til grundvallar og af jöfnu magni þess greitt jafnt gjald. En eins og nú standa sakir, vantar mikið á, að hlutfallslega jafnhátt gjald greiðist í ríkissjóðinn af síldarmjöli, sem unnið er úr einni tunnu síldar, eins og síldartunnu, sem seld er söltuð eða krydduð til útlanda.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál fleiri orðum. Jeg vonast fastlega til, að háttv. Alþingi taki vel í það, að samræma útflutningsgjald af síld við útflutningsgjald af öðrum útfluttum vörutegundum og gangi inn á till. mínar um það. Að svo mæltu leyfi jeg mjer að leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og til fjhn., þar sem hjer er um fjárhagsmál að ræða.