20.02.1928
Efri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (1911)

111. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Í raun og veru er ekki hægt að segja annað en að full ástæða sje til þess að breyta þeim lögum, sem þetta frv. stefnir að. En hitt er annað mál, hvort það hefir tekist að hitta hið rjetta meðalhóf, hvað snertir einstakar tegundir útfluttra afurða. Það tel jeg vafamál. En þess er að vænta, að það atriði verði nákvæmlega athugað í nefnd.

Annars verð jeg að segja það um ákvæðin um útflutningsgjald af síld, að þau hafa verið frá upphafi vega hörð í garð innlendra framleiðenda á þessu sviði. Hið háa útflutningsgjald af þessari vörutegund var upphaflega sett og því síðan við haldið með hliðsjón af því, að útflutningurinn gengi að langmestu leyti í gegnum hendur útlendinga. En nú horfir talsvert öðruvísi við, þar sem hjer er nú á ferðinni frv. um einkasölu á síld. Það er vitanlega ekki hægt að segja um afdrif þess fyrirfram. En verði það samþykt, þá gengur útflutningurinn úr höndum útlendinga á hendur innlendum mönnum. Og þá virðist ekki ósanngjarnt að lækka útflutningsgjald á saltsíld, svo sem farið er fram á í frv. þessu. En jeg get búist við, að hækkun gjaldsins af öðrum tegundum, sem tilgreindar eru í frv., þyki aftur á móti fullmikil. Það má gera ráð fyrir, að áður en langur tími liður, færist og sá útflutningur yfir á innlendra manna hendur.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fjölyrða mjög um þessa hlið málsins við þessa umr., en vænti þess, að þetta verði vandlega skoðað í nefnd.

Jeg hefi undanfarið talsvert verið við riðinn slík málefni sem frv. fjallar um. Og mjer hefir ætíð virst sem tollurinn á þessari vörutegund, þ. e. útfluttri síld, næði engri átt. Það eina, sem í mínum augum hefir getað rjettlætt hann, var það, að hann væri til þess að ná sjer niðri á útlendingum.

Jeg man eftir því á þingi 1907, er fram fór fyrsta tollhækkun á þessari vörutegund. Þá voru vitanlega alt aðrar tölur lagðar til grundvallar, því að verðlag var þá með alt öðrum hætti en nú. Mig minnir, að tollurinn væri 25 aurar af tunnu og hækkaður upp í 50 aura. Jeg áleit þá, að þetta væri óhæfilega hár tollur og bar fram brtt. þess efnis, að þennan toll mætti að nokkru leyti endurgreiða innlendum framleiðendum eftir á. Þetta var í alla staði mjög svo eðlilegt fyrirkomulag. Stóð svo í nokkur ár, en var aftur breytt, sem aldrei skyldi verið hafa, því að með þeirri breytingu var ranglátt spor stigið.

Svo var það á þingi árið 1917, að nokkrir þingmenn litu svo á, að nauðsyn bæri til að haga þessu útflutningsgjaldi svo, að innlendir framleiðendur yrði ekki eins illa úti, hvað það snerti, og útlendingar. Gerðu þeir tilraun í þá átt, en tókst eigi að fá því framgengt. Hið háa útflutningsgjald, kr. 1.50 af hverri síldartunnu, var þá lögleitt, og við það stóð, þangað til 1921. Þá bárust Alþingi kvartanir yfir hinum óhæfilega háa tolli. Bar jeg fram till. þess efnis, að innlendum útflytjendum mætti endurgreiða toll af þeirri vöru, sem seldist undir kostnaðarverði. Þessi till. mætti mótspyrnu, en var þó samþykt. Með henni var stigið spor í rjetta átt. En því miður hefir hið háa Alþingi ekki haft næga þekkingu á þessu sviði atvinnumálanna, til þess að það bæri gæfu til að halda þeirri rjettu stefnu. Því að þetta ákvæði var aftur felt úr gildi. Þannig hefir verið hringlað fram og aftur með þetta. Og mjer er þó nær að halda, að allir hafi litið svo á, að útflutningsgjaldið af síld væri óhæfilega hátt, saman borið við gjald af öðrum vörum. Jeg tel því vel farið, að komin er fram till. um að breyta til og sjálfsagt, að frv. gangi til 2. umr. og verði vel og vandlega athugað.

Það er því meiri nauðsyn á að breyta lögunum um útflutningsgjald, að það hefir komið upp ágreiningur um það, hvernig skilja bæri sum ákvæði þeirra. Og það er um útflutningsgjald af síldarmjöli. Jeg verð nú að segja það, að ákvæðið þar að lútandi er ekki svo skýrt sem æskilegt hefði verið, enda hefir það líka verið notað til þess að skjóta sjer undan rjettmætum gjöldum.

Í þessu frv. er reynt að kveða skýrar á. Er og sjálfsagt, að lög sje svo skýr, að ekki verði skilin á marga vegu. En hjer munaði ekki minnu en því, að framleiðendur litu svo á, að þeir þyrfti ekki að greiða nema ¼ af því gjaldi, sem þeim bar samkvæmt rjettum skilningi á ákvæðum laganna. Þannig hefir nokkurt fje farið forgörðum fyrir ríkissjóði. Er því engin vanþörf á að gera ákvæðin svo skýr, að ekki verði um þau deilt.