06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (1919)

111. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Erlingur Friðjónsson:

Hv. frsm. minni hl. var aftur að tala um það, hve tilfinnanlega hækkun á tolli af síldarlýsi og síldarmjöli lenti á framleiðendum þeirrar vöru. En jeg vil þá benda hv. þm. á það, sem hann virðist ekki hafa áttað sig á, að lækkun á útflutningsgjaldi á saltaðri síld er beinlínis til að hækka verðið á hráefninu til verksmiðjanna, og þegar lítið berst að verksmiðjunum, þá verða þær að taka tillit til framboðs á hráefninu. Þær hafa reyndar stundum, eins og hv. frsm. minni hl. benti á, ekki fengið eins mikið og þær þurfa, til þess að framleiðslan beri sig, en þá er það verðið á saltsíldinni, sem skapar verðið á síld til bræðslunnar. Þegar verðið er hátt, þurfa verksmiðjurnar að miða sitt verð við verðið á saltsíldinni. Venjan er að gefa ekki hærra verð fyrir málið til bræðslu, heldur en fyrir eina tunnu til söltunar, og ef við getum lækkað tollinn á síld til útflutnings, þá er það sama og að hækka verðið á síldinni til bræðslnanna að sama skapi, þar sem lækkaður kostnaður við saltsíldina hækkar verðið á hráefninu.

Jeg vona þá, að jeg hafi með þessu bent hv. þm. á það, að það er alls ekki rjett ályktun hjá honum, að framleiðendur greiði toll af hráefninu inn í bræðslurnar, og þrátt fyrir það, þótt þeir gerðu það, þá er það rjettmætt. Það er ekki einasta svo, að útlendingar hafi 3/4 hluta af allri bræðslu hjer, heldur veiða þeir líka ¾ hluta af því, sem bræðslurnar ráða nú yfir, og ef það er rjett, að hafa tollinn háan, eins og verið hefi að undanförnu á síldinni, af því að útlendingar bæði salta og flytja síldina út, þá er það nákvæmlega sama „princip“, sem haldið er fram hjá mjer, að vegna þess að útlendingar eigi síldina, sem í bræðslurnar fer, þá eigi útflutningsgjaldið að vera dálítið hátt, og er það sumpart af þessu, að jeg er enganveginn ánægður með tillögur meiri hl. nefndarinnar í þessu máli. Þær tillögur eru á þá lund, að nefndin hefir fært niður útflutningsgjaldið af síldarmjöli og síldarlýsi, frá því sem jeg hefi lagt til, að haft væri.

Hv. frsm. minni hl. talaði um, að það væri ekki ástæða til að samþykkja 2. gr. frv. á þskj. 206, af því að þingið hefði þá viðurkent rjettmæti á eftirgjöf á útflutningsgjaldi af síld til Rússlands, og mundi þá halda þeirri reglu, að gefa eftir tolla á þeim vörum, sem sendar væri á nýja markaði. Mjer þykir vænt um, ef það skyldi liggja fyrir okkur, hv. 1. þm. G.-K. og mjer, að sitja hjer saman á þingi, og slíkt mál kæmi fyrir sem þetta, að jeg þykist þá eiga vísa liðveislu þess hv. þm. (BK: Ef rjettmætt væri að veita það). Já, hv. þm. hefir nú viðurkent það rjettmætt, eftir því sem ástæðurnar voru með eftirgjöfina nú.

Þá vil jeg víkja því að hv. sessunaut mínum (JBald), að það er ekki rjett hjá honum, að það sje líkt ástatt um skoðun mína að því er kryddsíld snertir, eins og skoðun þeirra manna, sem vilja gefa eftir af tekju- og eignarskatti, að jeg vildi gefa eftir af tolli á henni. Því verður ekki neitað, að hjer er um óbeinan skatt að ræða, sem hvílir á síldinni, og fyrst hann er að nokkru leyti lagður á efni, sem notað er til þess að gera hana að verslunarvöru, og að nokkru leyti á hráefnið, þá verður að taka tillit til þess, hvort tollurinn er hár eða ekki, sem á hana legst. Að vísu tel jeg það eðlilegast, að taka aðeins tillit til verðs vörunnar, þegar um útflutningsgjaldið er að ræða, og því ætti sú vara að vera hærra tolluð, sem meiri hagnaður er að selja. En þessi skoðun hefir alls ekki gilt gagnvart síldinni að undanförnu; sú skoðun hefir alment gilt, að það væri rjett að láta síldina bera mjög hátt útflutningsgjald, án tillits til þess, hvort þeir, sem flytja hana út, gætu verslað með hana sjer að skaðlausu eða ekki, og það er í raun og veru ekki nema tilviljun, að ekki hefir farið eins með kryddsíldina eins og saltsíldina, að markaðurinn sje orðinn offyltur. Hjer innanlands er alls enginn hagnaður að því að veiða síld til þess að krydda; verslun með kryddsíld er öll utanlands, sem við höfum ekkert með að gera, og hagnaðurinn af kryddsíldinni lendir hjá þeim útlendu síldarseljendum.