21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

130. mál, Þingvallaprestakall

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Fjhn. hefir ekki orðið á eitt sátt um þetta mál. Minni hl. er algerlega á móti því að leggja Þingvallaprestakall niður, en meiri hl. felst á að samþ. frv. óbreytt.

Ástæður þær, sem bornar eru fram fyrir frv. þessu, felast í friðun Þingvalla. Það er nefnilega óhugsandi, að stórfeldar friðunarráðstafanir geti farið þar fram meðan prestur er þar og rekur þar búskap á jörðinni, nema þá með því móti að kaupa af honum með ránverði öll þau hlunnindi, sem hann kann að þurfa að láta af hendi.

Þetta stafar meðal annars af því, að sá ljóður varð á, þegar presti þeim, sem nú er á Þingvöllum, var veitt brauðið, voru engin skilyrði sett um það, að skerða mætti afnot hans af landareigninni, vegna nauðsynlegrar friðunar.

Eins og kunnugt er, er frv. um friðun Þingvalla komið í gegnum þessa háttv. deild, og má búast við, að það verði að lögum. Er því nauðsyn, að frv. þetta komist líka gegnum þingið, því að það er óumflýjanlegur fylgifiskur hins.

Það hafa þegar komið fram mótmæli gegn niðurlagningu prestakallsins frá söfnuðinurn. En slíkt er ekkert nýmæli undir þessum kringumstæðum, og má því til sönnunar minna á, að þegar framkvæma hefir átt samsteypu brauða eftir prestakallalögunum frá 1907, hefir rignt mótmælum gegn því frá þeim söfnuðum, er hlut áttu að máli. Þessi mótmæli, sem hjer er um að ræða, eru því engin nýmæli. Þau eru ekkert annað en það, sem fram hefir komið í hvert sinn, sem breytt er prestakallaskipuninni. En þó hefir það orðið svo, að breytingarnar hafa altaf frá 1907 gengið sinn gang, þrátt fyrir mótmælin. Það má vera, að það sje erfitt fyrir Mosfellsprest að þjóna á Þingvöllum, en það er síst lengra eða erfiðara en víða annarsstaðar.

Þá er það atriðið, að prestinum eru ætluð 2000 kr. biðlaun næstu 5 árin. Hann er óánægður með þau og söfnuður hans er svo brjóstgóður, að honum finst þau líka of lítil fyrir hann. Hvað biðlaun þessi snertir, þá er jeg ekki persónulega neitt á móti því, þó að þau yrðu eitthvað hækkuð. En þar sem meiri hl. nefndarinnar vildi ganga inn á frv. óbreytt, þá gat jeg ekki farið að gera þetta að neinu ágreiningsatriði, því að mjer er það ekkert kappsmál.

Annars álít jeg þetta mál ekkert stórmál, og mjer finst aðalumræðan um það um garð gengin, þar sem búið er að afgreiða hjeðan friðunarfrumvarpið. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um málið að svo stöddu, en bíð átekta, hvort eitthvað nýtt kemur fram, sem svara er vert. En komi ekkert slíkt fram, læt jeg úttalað um málið frá minni hálfu.