21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (1935)

130. mál, Þingvallaprestakall

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Minni hl. fjhn. hefir ekki getað fallist á frv. þetta, og telur engar rjettmætar ástæður fyrir því, að það er fram komið.

Þá var heldur ekki hægt að finna neinar frambærilegar ástæður í ræðu háttv. frsm. meiri hl., enda þótt jeg hlustaði eftir því með ítrustu athygli. Ástæður þær, sem hann taldi liggja til grundvallar fyrir frv. þessu, voru allar gripnar úr lausu lofti, og því einskis verðar sem rök í málinu. Eins og t. d. það, að niðurlagning þessa prestakalls rjettlættist af því, að ekki væri hægt að gera stórfeldar friðunarráðstafanir, nema með því móti að kaupa með okurverði af prestinum það af landi jarðarinnar, sem nauðsynlega þyrfti, vegna friðunarinnar.

Hvað frv. sjálft snertir, þá er það frámunalega illa samið, því að í því eru ákvæði, sem beinlínis sanna, hve alt er gripið úr lausu lofti. Jeg geri ráð fyrir, að hjer hefði átt að fylgja sömu reglum og fylgt er t. d. við landsspjöll vegna vegagerða, að skerðing þeirra hlunninda, sem látin eru af hendi, fari eftir mati óvilhallra manna. Og þar sem landið er ríkiseign, koma skaðabæturnar fram í niðurfærslu á eftirgjaldinu, því að leigutaki getur ekki fengið bætur fyrir landið sjálft. Hvað þessa jörð snertir, hefði því skerðing á hlunnindum jarðarinnar átt að koma fram í niðurfærslu á heimatekjum prestssetursins, sem mig minnir að sjeu metnar árlega 4–500 kr. Að annað eins og þetta skuli ekki hafa verið athugað, sýnir glögglega, hve alt er gripið úr lausu lofti.

Þá hefir það ekki við nein rök að styðjast, að hjer sjeu þau vandkvæði til fyrirstöðu, að engin skilyrði hafi verið sett um það, að láta land eða landsnytjar af hendi, ef til friðunar kæmi, þegar prestakall þetta var veitt síðast. Um þetta þurfti engin skilyrði að setja frekar gagnvart Þingvöllum en öðrum jörðum, því að hjer er ekki farið fram á annað en talið er, að almenningsþörf krefji. (JBald: Þá hefði það ekki þurft að kosta neitt!) Jú, alveg það sama og jeg hefi bent á, að það þurfi að kosta nú, sem sje hæfilega niðurfærslu á heimatekjum prestssetursins.

Söfnuðir þeir, sem hjer eiga hlut að máli, hafa mótmælt þessari ráðstöfun, og er það ekki nema eðlilegt, og það sjerstaklega þegar svo stendur á, að á þessu þingi á að sýna þessum stað alveg sjerstaka virðingu af hálfu hins opinbera, þar sem þar á að friðlýsa hinn eina helgistað á Íslandi. Væri því óneitanlega ekki illa viðeigandi, þó að kirkja landsins ætti þar sinn fulltrúa.

Þá vil jeg gjarnan, að það komi fram hjer, að núverandi prestur á Þingvöllum hefir stigið stærra spor til friðunar Þingvalla en stigið hefir verið nú um langt skeið. Hann hefir vanið ferðafólk af því að rífa upp hríslur úr skóginum og flytja burt með sjer, og þetta gerði hann með þeirri lagni og friðsemi, að það er hreinasta fyrirmynd. Eins og kunnugt er, er bannað að rífa þar upp skóg, en ferðafólk gerði það eigi að síður. Tók prestur því það ráð, að hann sagði fólkinu, að sjer væri ekkert mein gert með því, þó að það rifi upp skóginn, en hver smáhrísla, sem það rifi upp, kostaði 1 kr. og þær stærri 2 kr. Hafði þetta þau áhrif, að nú er aldrei rifin hrísla úr skóginum. Fólkinu varð það ljóst, að það var verðmæti, sent það var að eyðileggja. Þó að þetta sje aðeins lítið dæmi, þá sýnir það þó, hverja þýðingu það hefir, að á þessum stað sje maður, sem fólkið ber virðingu fyrir.

Annars er jeg sannfærður um, að frv. þetta er borið fram af þeirri einu ástæðu, að einhverjum í stjórnarflokknum er í nöp við núverandi prest á Þingvöllum og vill því koma honum í burtu þaðan. Og þó að svo verði í þetta sinn, þá er jeg viss um, að ekki líður á löngu, þangað til prestakallið verður endurreist aftur, því að sú mun raunin á verða, að þegar fer að nálgast 1000 ára minningarhátíð kristintökunnar á Íslandi, þá mun þykja óviðeigandi, að hafa ekki prest á þessum stað.

Jeg get svo látið hjer staðar numið og býst ekki við, að taka til, máls aftur í þessu máli, því að jeg veit, að skynsemi og rök verða ekki látin ráða úrslitum þess í þetta sinn.