21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (1936)

130. mál, Þingvallaprestakall

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta mál er í sjálfu sjer ekki nýtt hjer á Alþingi, því að það mun hafa verið 1919, sem þingið fyrst gerði ráðstafanir í þessum efnum, og ef þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar, hefði verið framfylgt, mundu umræður um þetta mál hafa sparast nú. Þá voru gerðar þær ráðstafanir, að brauðið yrði ekki veitt, ef það losnaði, nema með sjerstökum skilyrðum, og jarðirnar heldur ekki bygðar, nema með sjerstökum skilyrðum. En hvorugt þetta var gert. Jarðirnar voru bygðar til lífstíðar, og kirkjumálastjórnin auglýsti prestakallið skilyrðislaust.

Það varð mikil óánægja út af þessu máli. Margir þm. töldu vilja þingsins forsmáðan með þessum aðgerðum biskups, og ef hann hefir ekki gert þetta af misgáningi einum, þá hefir hann mjög brotið af sjer.

Jeg vona, að hv. 3. landsk. geti skilið það, að til eru menn hjer á þingi, sem ekki vilja þola það, að einstakir embættismenn landsins traðki vilja þingsins.

Jeg ætla ekki að fara að ámæla biskupi fyrir þetta verk; það er nóg, sem allir vita, að hann gerði þetta, veitti brauðið, þvert ofan í yfirlýstan vilja þingsins. Hvorttveggja getur verið, að hann hafi gert það af misgáningi, eða þá viljað neyta aðstöðu sinnar. En eitt er víst, og það er það, að eyðileggingin hjelt áfram; þúsundum fjár er beitt í skóginn og hann rifinn upp, og ekki nóg með það, heldur er nú farið að byggja sumarbútstaði til og frá um vellina, hús sem hljóta að særa fegurðartilfinningu hvers einasta sæmilegs smekkmanns, sem kemur til Þingvalla. Þá er og bygður þessi timburskúr, sem er bein móðgun við alla þjóðrækna menn, og sem mun kosta 4–5 þúsund krónur að rífa, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga. Það hús, ef hús skyldi kalla, var byg í tíð fyrverandi prests, og hefir verið haldið við af þeim núverandi, í trássi við alla góða siði og smekk.

Jeg vil minna hv. 3. landsk. á það, þótt jeg sje ekki að ásaka hann um það, að það var í tíð hans sem verkfræðings, að eyðilagður var á Vandala hátt einn hinn fegursti foss á Þingvöllum, með því, að bygð var af smekklausum verkfræðingi einhver ljótasta og ósmekklegasta brú, sem dæmi eru til, rjett fyrir ofan fossinn. Þessi brú er slíkt fádæma verk, að hún hlýtur að meiða auga hvers einasta manns með nokkrum fegurðarsmekk, sem hana sjer. Það er ekkert óeðlileg, þótt þeir, sem ekki hafa hærri smekk en sá maður hefir haft, sem hana gerði, skilji ekki tilgang þessa frv.

Í stuttu máli: það er ekkert gert fyrir Þingvelli, nema að niðurníða þá, fyr en sá straumur vaknar fyrst á Alþingi 1919, að hlúa að þeim og meta staðinn of mikils til þess að láta fáfengilegan hugsunarhátt og dutlungaómentaðra manna ráða um þá og gera þingi og þjóð til skammar.

Síðan þetta mál kom fyrst fram á Alþingi, hafa starfað fleiri en ein nefnd í því, og hafa þær sumar átt í hinu mesta stríði við prestinn á Þingvöllum. Jeg get getið þess, að einn maður, sem mjög er hátt settur í Íhaldsflokknum, hefir í allshn. Nd. fyrir nokkrum árum látið frá sjer fara skýrslu um það, hvað hann áleit þá um Þingvelli og meðferðina á þeim. En núverandi Þingvallanefnd hefir skorað á stjórnina að flytja á þessu þingi frv. til þess, að gera aðstöðuna til undirbúnings hátíðahaldanna 1930 betri á Þingvöllum. Stjórnin hefir nú flutt tvö frv. um Þingvelli. Fyrra frv., um friðun Þingvalla, er flutt heim eftir óskum Þingvallanefndar, og það frv., sem hjer liggur fyrir, er flutt að ýmsu leyti eftir óskum hennar.

Það má vera, að einhverjir úr nefndinni sjeu því mótfallnir að leggja niður brauðið, en nefndinni allri er það ljóst, að ekki er hægt að búa undir hátíðina 1930 á Þingvöllum; nema stjórnin fái alt öðruvísi ráð yfir Þingvöllum hjer eftir en hingað til.

Hv. 3. landsk. veit, að það hefir borið mjög mikið á kæruleysi hjá mörgum flokksbæðrum hans um alt, sem Þingvelli snertir. Margir þeirra hafa, lagst á móti friðun Þingvalla. Blöð flokksins hafa óspart alið á því, að friðun Þingvalla væri hneyksli og þings og þjóðar skömm, ef hún næði fram að ganga. Þingvallanefndin hefir gert ítrekaðar tilraunir til þess að komast eftir því hjá núverandi Þingvallapresti, hve mikla árlega borgun hann vildi fá, til þess að hætta að búa. Og ef hv. 3. landsk. vildi kynna sjer, hvað honum hefir verið boðið af nefndinni, þá hygg jeg, að það sæist, að þetta frv. er ekki ófyrirsynju fram borið. Því það mun hafa verið allveruleg upphæð, sem hann vildi fá. Og það er alveg út í hött hjá hv. 3. landsk., að hægt sje að taka jörðina eftir mati óvilhallra manna og leggja afgjaldið af jörðinni til grundvallar, því að það er fyrirfram vissa fyrir því, að presturinn mundi ekki gera sig ánægðan með það, sem svaraði afgjaldinu af jörðinni.

Það má geta þess í þessu sambandi, að bóndinn á Hrauntúni hefir nefnt miklu hærri upphæð en afgjaldinu af þeirri jörð svarar, til þess að standa upp af henni. Þessi maður er þó flokksbróðir hv. 3. landsk., og jeg geri ekki ráð fyrir, að hann væni hann um ósanngirni. Og presturinn metur ábúðarrjettinn, rjettinn til að halda kindur og kýr og selja tjaldstæði og skóg, eins og hv. 3. landsk. segir að hann geri, miklu meira en það, sem afgjaldinu nemur.

Það hefir komið til greina í nefndinni að reyna málamiðlun, t. d. hefir verið farið fram á að fá túnið þetta eina ár, eða part af því, til hagagöngu fyrir hesta þeirra manna, er gestir yrðu á Þingvöllum um hátíðina. En það hefir komið í ljós, að ekki er hægt að fá þetta litla stykki nema við svo háu verði, að ógerningur er að ganga að því. Alt þetta ætti að sýna, að farið hefir verið með fullri sanngirni að núverandi presti, og honum sýnd ólíku meiri tilhliðran en hann vill sjálfur sýna.

Hv. 3. landsk. veit sjálfur, að það hefir komið frá þessum manni reikningur í stjórnarráðið, þar sem hann fer fram á að fá 1200 kr. á ári fyrir grunn undir lítið timburhús í landi hans. Hvorki fyrv. forsrh. (JÞ) nje núverandi (TrÞ) hafa viljað greiða þennan reikning, vegna þess, hve lítt sanngjarn hann væri.

Þegar þessi maður telur eitt lítið hússtæði svo mikils virði, halda menn þá, að hann vilji hætta að búa fyrir það, sem svarar afgjaldinu af jörðinni.

Nei, engum, sem til þekkir, dettur það í hug. Öllum, sem til þekkja, er það ljóst, að ef á að vernda sögustaðinn, ef á að hindra það, að bygð verði rafmagnsstöð í Almannagjá, milli foss og brúar, þá verður að taka ábúðarrjettinn af þessum einstaka manni.

Nú geta menn ef til vill sagt, að ekki hafi verið reynt að ná samkomulagi við þennan mann. En Þingvallanefndin hefir einmitt reynt að ná samkomulagi við hann, en hefir gefist upp. Enda hefir nú þegar myndast óþolandi ástand á Þingvöllum, bæði fyrir prestinn og almenning, sem vill koma á þann fornhelga stað. Prestur getur sett gaddavirsgirðingar meðfram vegunum og bannað alla umferð um vellina og utan þeirra, og hann getur gefið leyfi til að setja þar upp hverskonar mannvirki, án þess að hægt sje við að gera. Og jeg verð að álíta það alveg ósamboðið dugandi mönnum, að vilja ekki stuðla til þess, að bundinn sje endi á þann vandalaskap, sem ríkt hefir á Þingvöllum til þessa.

Það má vera, að hv. 3. landsk., og þeir, sem honum eru fylgifastir, segi sem svo: Látum það nú vera, þótt ábúðin sje tekin af Þingvallaprestinum, en því má ekki vera þar prestur áfram, svo sem verið hefir? En þar til er því að svara, að það er alveg víst, að núverandi Þingvallaprestur metur sjer ábúðarrjettinn til svo mikilla tekna, að það mundi verða verulega dýrt fyrir landið, ef það ætti að bæta honum það upp, svo sem hann mundi heimta, ef ábúðin væri af honum tekin.

Í fyrra komst í gegnum þingið frv. um að bæta við einu prestakalli hjer nærlendis, milli Þingvalla og Rvíkur.

Það frv. komst í gegn, vegna þess, að látið var í veðri vaka, að með því mætti spara annað prestakall. Því var sem sje bætt við frv., að presturinn á Mosfelli væri skyldur að þjóna einnig Þingvöllum, ef svo yrði ákveðið með lögum.

Það, sem hjer er verið að gera, er því aðeins endurtekning á vilja þingsins 1919 og í fyrra. Og mönnum var það vel ljóst í fyrra, að sú ráðstöfun var einn liður í þeim ráðstöfunum um fyrirkomulagið á Þingvöllum, sem nauðsynlegar væru, vegna undirbúnings undir 1930.

Það er ekki til neins fyrir hv. 3. landsk. og aðra, að halda því fram, að prestinum á Þingvöllum sje ekki sýnd full sanngirni, því að með frv. er honum gerður kostur á því, að fara á 2000 kr. árleg biðlaun. En annars á hann ekki heimting á meiru en 300–400 kr. í eftirlaun. Honum er því sýnd full sanngirni, og er það gert með tilliti til þess, að það eru alls engar sannanir fyrir því, að honum hafi verið kunnugt um það, að aðgerðir kirkjustjórnar, er hún veitti honum brauðið, voru þvert ofan í yfirlýstan vilja þingsins. Og núverandi Þingvallaprestur er svo skynsamur maður, að hann sjer, að það er ómögulegt fyrir þessa tvo aðila, prest og almenning, að halda áfram að heyja stríð um staðinn, eins og hingað til. Og enginn veit betur en hann, að það er ekkert spaug að vera prestur á Þingvöllum.

Það er rjett hjá hv. 3. landsk., að vegna þeirrar sanngirni, sem prestinum er sýnd, verður enginn sparnaður að þessari ráðstöfun á næstu 5 árum. En eftir þann tíma verður sparað heilt prestakall, og gæti það vegið móti því prestakalli, sem stofnað var í fyrra og ekki ætti að vera til.

Það kunna enn að koma fram nýjar tillögur viðvíkjandi Þingvöllum; ekki vegna þeirra, sem álíta það æðstu fullkomnun, að þar sje prestur, heldur vegna þeirra, sem vilja gera alt til þess að prýða staðinn, í stað þess að lýta hann á allan hátt, eins og hingað til hefir verið gert. Og þá mundi ef til vill geta komið að því, að þar yrði reistur heiðursbústaður handa einhverjum ágætum andans manni, svo að hann gæti dvalið þar að minsta kosti á sumrin. Yrði það þá svipaður heiður eins og það er í Danmörku að búa í húsi Jacobsens bruggara, þar sem prófessor Höffding býr nú.

Það er svo langt frá því, að við, sem þetta frv. styðjum, viljum niðurlægingu Þingvalla, að við mundum fúsir til þess að styðja það, að þær væri, að minsta kosti á sumrum, heiðursbústaður þess manns, sem Þingvöllum væri verulegur sómi að.

Hingað til hefir alt verið gert til þess að niðurníða Þingvelli. Vellirnir eru stórskemdir, fallegur foss hefir verið eyðilagður, bæjarhúsin eru komin að hruni og kirkjan getur fokið á hverri stundu. Í stuttu máli: alt ástand Þingvalla er landinu til stórskammar. Samt vilja þeir, sem aðeins vilja friða vellina en ekki skóginn, bæta því við, að fórnfæra skóginum líka.

Hjer er því um tvær stefnur að ræða. Önnur vill friða Þingvelli, en hin vill gera þá að einskonar Grímsstaðaholti fyrir Reykjavík.

Málið er því alveg ljóst. Annarsvegar er verndun Þingvalla, en hinsvegar er eyðing þeirra. Og þingið mun skera úr, hvort það vill heldur.