23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (1945)

130. mál, Þingvallaprestakall

Frsm. minni h1. (Jón Þorláksson):

Hæstv. dómsmrh. endurtók nú ýmislegt, sem hann hefir áður sagt sem aðfinslur á því, sem gert hefir verið á Þingvöllum, en jeg vil leyfa mjer að taka það fram, að margt af því eru órjettmætar aðfinslur. Það er að vísu rjett, að kirkjan er ekki í því ástandi, sem æskilegt væri, en það er ekki annað en ein hliðin á hinni almennu fátækt, sem hjer ríkir, bæði þar og á öðrum sviðum. Það má ekki meta það sem niðurníðslu á Þingvöllum, þótt framkvæmdir þær, sem gerðar hafa verið, hafi borið keim af fátækt þjóðarinnar og getuleysi yfir höfuð. Hið sama má segja um allar þær framkvæmdir, sem hæstv. dómsmrh. hneykslaðist svo mjög á; þær hafa verið gerðar til þess að gera íbúum landsins fært að sækja heim þennan fræga stað og hafa þar nokkra viðdvöl. Tilgangurinn með framkvæmdunum hefir verið góður, enda hafa þær, svo sem hús þau; er reist hafa verið, vegagerðin og brúargerðin, gert það að verkum, að núlifandi Íslendingar sækja meira til staðarins en áður var, alt frá því að Alþingi var lagt niður á Þingvöllum. Þetta hefir orðið til þess að auka tilfinningu manna fyrir helgi staðarins, nú, þegar almeningur hefir fengið færi á því, að komast þangað og dvelja þar. Það er því ekki rjett af hæstv. dómsmrh. að ausa sjer út og kalla það niðurníðslu á staðnum, enda þótt margt megi finna að þeim mannvirkjum, sem þar voru gerð, eins og flestu öðru, sem gert var á sama tímabili. En ef það er að einhverju leyti rjettmætt, að láta óánægju sína í ljós yfir því, sent þar hefir verið gert, þá mun því vel tekið af öllum, að úr göllunum verði bætt, eftir því sem efni þjóðarinnar leyfa. En það er síður en svo, að þetta frv. stefni til þess, a. m. k. er það í augum allra kristinna manna álitin niðurníðsla á Þingvöllum, að leggja prestsþjónustu við kirkjuna niður. Og jeg veit ekki betur en að það sje í fyrsta skifti, að nokkuð kemur frá Alþingi, sem talist getur til niðurníðslu Þingvalla. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki mætti hlífa þeim seku. Hann er sá seki, sekur um þá niðurníðslu, sem hjer á að framkvæma. Það er nokkuð kátbrosleg niðurstaða, þegar þess er gætt, að á fyrri þingum hafa verið bornar fram og studdar tillögur um að flytja höfuðstað landsins til Þingvalla, eins og gert yrði með því að flytja þangað þing og stjórn, a. m. k. meðan Alþingi situr. Mjer finst ekkert samræmi í því, að vilja flytja höfuðstaðinn til Þingvalla, en nú á að leggja niður prestakallið, enda þótt þar hafi verið prestssetur frá því rjett eftir að kristni var lögtekin á Íslandi.