23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (1947)

130. mál, Þingvallaprestakall

Jóhannes Jóhannesson:

Á fundi h. 5. desember síðastl. ákvað undirbúningsnefnd alþingishátíðarinnar 1930, sem jeg á sæti í, að snúa sjer til hæstv. stjórnar um umráð yfir alþingisstaðnum forna, og þess nágrennis, sem nauðsynlegt þykir til afnota við væntanleg hátíðahöld þá. Hæstv. stjórn hefir nú orðið við þessari ósk og lagt fram frv. til l. um friðun Þingvalla, og í greinargerð þess frv. segir svo, að það sje borið fram til þess að gera kleifari undirbúning þúsundárahátíðarinnar.

Jeg álít alveg nauðsynlegt, að stjórnin og undirbúningsnefnd hátíðahaldanna 1930 hafi umráð yfir Þingvallalandi árið 1930 og næstu ár á undan, en jeg er ekki eins viss um, að þörf sje á því, að prestakallið verði lagt niður. En þar sem jeg hefi átt þátt í því óbeinlínis, að þetta frv., sem nú er til umræðu, er komið fram, en jeg er ekki sannfærður um, að sú ráðstöfun sje nauðsynleg til þess að fá nægileg umráð yfir Þingvallalandi, mun jeg ekki greiða atkvæði um þetta mál, en láta aðra hv. deildarmenn skera úr um úrslit þess.