23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (1948)

130. mál, Þingvallaprestakall

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er alveg rjett hjá hv. þm. Seyðf., að þótt Þingvallanefndin hafi óskað eftir friðun. Þingvalla, þá er í brjefi nefndarinnar ekki tekin fram öll þau atriði, sem eru í þessu frv. En þótt hv. þm. vilji ganga dálítið skemra, skiljum við hvor annars aðstöðu.

Jeg skal svara fyrirspurn hv. 2. landsk. Um þetta frv. var ekki leitað álits biskupsins, vegna þess að hann var með í ráðum, þegar Mosfellsprestakall var endurreist, og sem þetta frv. er bygt á. Jeg efast um, að það hefði náð fram að ganga í fyrra, að bæta því prestakalli við, ef margir hefðu ekki þóst sjá hilla undir það, að þá mætti afnema prestakallið á Þingvöllum. Hvaða skoðun sem biskupinn kann annars að hafa á þessu frv., þá getur honum ekki komið það á óvart, að Mosfellspresturinn þurfi að bæta þessu starfi við sig.

Í öðru lagi vil jeg geta þess, í öllu bróðerni við biskupinn, að jeg hefi ekki álitið þess þurfa, að senda honum þetta frv., þar sent honum hefir orðið það á, viljandi eða óviljandi, að veita Þingvallaprestakall í trássi við vilja þingsins. Jeg er ekki að átelja hann fyrir þetta. En það verður að taka tillit til þess, að Þingvellir eru ekki fyrst og fremst kirkjulegur helgistaður, heldur pólitískur.

Það mætti engu síður tala um hina kirkjulegu helgi Skálholts og Hóla. (IHB: En kristnitakan á Þingvöllum!). Jeg vil benda hv. 2. landsk. á það, að það er ekki vansalaust, að láta það viðgangast, að Skálholt sje einkaeign og í því ástandi, sem staðurinn er nú. Þingvellir aftur á móti eru helgir sem alþingisstaður, og því vill þjóðin láta halda þar minningu um þetta þúsund ára ríki. Kistnitakan var aðeins eitt af hinum pólitísku málum, sem þar voru afgreidd, sökum þess, að þar var þá höfuðstaður landsins. Vona jeg, að Alþingi geri sitt til þess að vernda þennan stað og prýða, með því að friða skóginn og hindra, að ósmekkleg hús verði reist í hrauninu eða nágrenni vallanna. Um hitt eru allir sammála, að hvenær sem listamaðurinn og þingið álíta, að hægt sje að reisa nýja kirkju, sem er nógu smekkleg og ekki of dýr, muni það verða gert. En þótt sóknarmenn Þingvallasóknar fái prestinn á Mosfelli, þá sje jeg ekki, að nein ástæða sje til þess að kvarta fyrir þeirra hönd.

Að síðustu vil jeg geta þess, að þeir eru til, sem halda, að það eigi að leggja jarðirnar í Þingvallasveit í eyði vegna friðunarinnar. Kom t. d. til mín ungur prestur, sem spurði mig um þetta atriði. Jeg spurði þennan unga mann, hvort hann hefði komið í Hallormsstaðaskóg eða í Fnjóskadal, og hvort honum sýndist ekki skógurinn miklu fallegri, síðan hætt var að beita kindum og geitum í skóginn.

— Jeg ætla þá að beina nokkrum orðum til hv. 3. landsk., en skal vera stuttorður. Jeg var ekki að lasta veginn til Þingvalla, en það er mjög mikið álitamál, hvort ekki hefði verið rjettara að leggja hann eftir gamla veginum frá Kárastöðum, meðfram vatninu og hafa brúna niður við ósa, en láta Almannagjá halda sjer. Hitt var hreinasti vandalaskapur, að byggja brúna yfir fossinn og sömuleiðis sprengingin í Drekkingarhyl. Eins er Valhöll og konungshúsið mjög mikil lýti, og þá ekki síst timburskúrinn í Fögrubrekku, sem tveir prestar hafa leyfi að halda þar við.

Jeg vil benda á það, að það, sem fyrir mjer er aðalröksemdin í þessu máli, er, að prestarnir á Þingvöllum hafa ekki megnað að hindra eyðileggingu á staðnum, og með því að beita sauðfje í skóginn, hafa þeir mjög orðið til þess að eyðileggja hann. Þetta eru þau mistök, sem — Þingvallanefnd og Alþingi ættu að vera samhuga um að reyna að laga. En hitt er furðuleg fjarstæða, að með þessu frv. sje verið að vinna að niðurníðslu Þingvalla. Og jeg vil leyfa mjer að halda því fram, að það sje alveg ósannað, að biskupssonurinn á Mosfelli sje ekki fær til þess að fullnægja trúarþörf sóknarmanna og gesta á Þingvöllum.

Ef þetta frv. verður samþykt, leyfir þingið sjer að segja, að það sje sjálft húsbóndi á Þingvöllum, en ekki kirkjan, og kirkjan hefir heldur ekki staðið vel í stöðu sinni sem verndari Þingvalla. En það er auðvitað ekki kirkjunnar sök, heldur prestanna, sem þarna hafa verið. Það á heldur ekki að leggja niður kirkjuna, því að hana á að endurbyggja; því einu á að útrýmta, sem staðnum er til tjóns eða óvirðingar.