23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (1950)

130. mál, Þingvallaprestakall

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hafði gaman af þeirri skilgreiningu hv. 3. landsk. á hlutverki prestastjettarinnar, sem kom fram í síðustu ræðu hans. Hann taldi það eigi nægilegt, að prestar fullnægðu trúarþörf safnaða sinna, heldur ættu þeir að hafa ýms önnur áhrif, og sjerstaklega væri þó uppbyggilegt, ef þeir væru vel efnum búnir og bústólpar í sinni sveit. Jeg þykist nú vita, að fleiri líti sömu augum á þetta og hv. 3. landsk. En þótt jeg sje ekki sterkur í guðfræðinni, minnist jeg aldrei að hafa heyrt höfundar kristninnar getið sem innstæðueiganda eða sauðaeiganda, og jeg held, að sú hugsun, sem kom fram hjá hv. 3. landsk. um það, hvernig prestarnir væru æskilegastir, sje harla fjarri skoðunum Krists um þessi efni. Hann eignaðist aldrei kind; hann lagði aldrei eyri í sparisjóð, og aldrei hefir þess heyrst getið, að hann hafi reynt að leggja eignarhald á báta þá, er hann hafði umráð yfir. Það er því fremur ljeleg þekking á höfundi kristninnar, sem liggur á bak við þankagang þeirra, sem mest hafa sig í frammi á móti frv. því, sem hjer er um að ræða. Kristur kærði sig ekki um neina prestastjett, og síst auðuga prestastjett.

Jeg er hv. 3. landsk. þakklátur fyrir, að hann gaf tilefni til að sýna fram á, að Kristur óskaði ekki eftir neinum prestum, en hefði víst getað sætt sig við, að ungum guðfræðingi af góðum ættum væri falið það starf, að þjóna í Þingvallaprestakalli.