30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í C-deild Alþingistíðinda. (1960)

130. mál, Þingvallaprestakall

Magnús Jónsson:

Það eru tvær hliðar á þessu máli. Önnur er að meta það frá almennu sjónarmiði, hvort fært sje að leggja niður prestakallið á Þingvöllum, en hin er sú, hvort sjerstök nauðsyn sje á þessu vegna Þingvalla og þjóðgarðshugmyndarinnar. Hygg jeg, að það sje þessi sjerstaka ástæða, sem hjer er aðalatriðið. Án hennar hefði ekkert frv. komið fram um þetta mál. Alment talað er hjer engin ástæða til breytingar á prestakallaskipun. Þegar þess er gætt, hvaða skipun er á þessum málum, sjá menn, að við mikla örðugleika er að etja. Önnur sóknin á að leggjast undir Arnarbæli, sem hefir Selvogssókn fyrir, svo að þetta verður mjög erfitt prestakall. Hin annexan er skilin frá Mosfelli með miklum fjallvegi, sem er álíka og Holtavörðuheiði, og er leitun á svo löngum fjallvegi á annexíuleið, en úr því bætir auðvitað góður vegur til Þingvalla. Sú ástæða verður því ekki færð fyrir þessu, að það sje hentugt vegna prestakallaskipunarinnar í heild sinni.

Hv. þm. Vestm. hefir að ýmsu leyti dregið fram mínar ástæður. Jeg er ekki einn af þeim, sem álíta, að tilfinningarnar eigi að ráða mestu á Alþingi. Jeg álít, að tölurnar — þurrar og leiðinlegar — eigi hjer mestu að ráða. En mjer finst, að þetta mál þurfi þó og hljóti að vera tilfinningamál fyrst og fremst. Við höfum ekki stefnt í rjetta átt í þessu efni, yfirleitt. Skálholt og Hólar, báðir fornu biskupsstólarnir, eru nú annexíur, og nú er þá röðin komin að Þingvöllum.

Eftir tvö ár á að halda hjer mikla hátíð, þar sem er þúsund ára afmæli Alþingis. Það er fáheyrt tækifæri fyrir litla þjóð til þess að láta heiminn horfa á sig. Og þá verður ömurlegt að eiga engar fornar minningar. Þær eru allar horfnar, nema hinir fornu götutroðningar. Þó eigum við eitt, sem altaf hefir verið á Þingvöllum, frá því að land varð kristið, og það er prestssetrið og kirkja. Það eru seinustu fornleifarnar — og nú á að fara að taka þær burtu, rjett fyrir hátíðina. Mjer finst, að þegar þjóðarvakningin hefir gengið yfir, sje það leiðinlegt, að fara einmitt nú að þurka út þetta síðasta, sem enn er til í veruleikanum af minningum Þingvalla. Í tíð barnabarna okkar á að halda hjer aðra mikla hátíð. Það er líka þúsund ára minningarhátíð. Þá verður minst kristnitökunnar árið 1000. Sá viðburður er ekki einungis merkilegur út frá trúarlegu sjónarmiði, heldur er hann alveg einstæður. Jeg hefi ekki rekið mig á, að kristnitaka færi nokkursstaðar fram á sama hátt og hjá okkur. Forráðamenn þjóðarinnar koma sjer saman um að taka upp nýjan sið og trú. Það eru til nákvæmar sögur um þetta, og yfir þeim öllum er undursamlegur blær spektar og mannvits. Þessa viðburðar verður minst árið 2000, eins og jeg áður sagði, og þá verður leiðinlegt, að við skyldum, einmitt þegar við erum að vakna til skilnings á þessum efnum, fara að leggja niður prestsembættið á Þingvöllum, sem hefir haldist þar frá fyrstu kristni. Jeg trúi því ekki, að hæstv. dómsmrh. fylgi þessu af alhug. Hann er sögumaður og hefir tilfinningu fyrir því, sem gerst hefir, og skilning á því, hvers virði það er fyrir þjóðina að geyma gamlar menjar. Í viðtali við hann bar það á góma, að önnur lausn væri til á þessu máli en að leggja niður prestakallið, og hún var sú, að við ættum heldur að sýna því sóma, og hafa þar ekki aðeins vanalegan prest, heldur heiðursklerk landsins, hvort sem væri vígslubiskup Suðurlands eða einhver annar klerkur, sem þjóðin vildi sýna þann sóma. Hann ætti að hafa svo rífleg laun, að hann þyrfti ekki að vafsast í búskap, því að það má enginn, sem á Þingvöllum er. Það ætti að vera stjórnarveiting á þessu embætti, og væri skemtilegt til að hugsa, að þessi hugmynd kæmist í framkvæmd og Alþingi til hins mesta sóma.

Jeg er sammála hæstv. dómsmrh. um, að það var ekki rjett að veita þetta embætti svona skilyrðislaust. En það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut, og mjer er óskiljanlegt, að það þurfi endilega að fara þessa leið, til þess að ná tökum á Þingvallalandi. Mjer skildist á hæstv. dómsmrh., að hann kendi Þingvallanefnd um þetta frv. Hún hefir aðeins farið fram á, að landið væri tiltækilegt til afnota fyrir hátíðahöldin 1930, og ríkisvaldið hefir ærin tök á því. Jeg trúi því ekki fyrir mitt leyti, að ekki sje hægt að ná samningum við prestinn. Hæstv. ráðh. vitnaði í það, að þetta hefði verið reynt einu sinni áður fyrr, en þeir samningar tókust illa og engum til sóma. — Ef hæstv. dómsmrh. væri við, vildi jeg bjóða honum að taka að mjer samningastarfsemi í þessu efni. Jeg vil reyna að fá prestinn til að sleppa afnotum jarðarinnar, að túninu undanskildu, og þeim nytjum öðrum, sem ekki koma í bága við hátíðarhöldin. Jeg skal gera þetta ókeypis og aldrei minnast á þetta mál oftar, ef mjer tekst ekki. Þegar á það er litið, að Alþingi ætlar að verja allmikilli fjárupphæð til að koma prestinum burtu, er mjer óskiljanlegt, að presturinn fáist ekki fyrir hana og jafnvel minna, til þess að sleppa öðrum afnotum Þingvalla en þeim, sem óhætt er, að hann hafi. (Dómsmrh. JJ: Við getum athugað þetta í nefnd). Já, það er tilvalið.

Hæstv. dómsmrh. sagði ýmislegt, sem jeg er honum sammála um og sem mjer finst styðja það, að hann sje ekki nema hálfur í þessu máli. Hann talaði um að hafa kirkju á Þingvöllum og auk þess jörðina í ábúð. Jeg er þessu sammála. En því þá ekki að hafa prest? Mjer finst það útilokað, að hafa bónda á Þingvöllum, sem lifði þar á búskap. En það ætti einmitt að hafa þar embættismann, sem lifði á launum sínum og hefði þau afnot jarðarinnar, sem óhætt væri. Jeg skil ekki, að rök leiði til þess, að bægja prestinum burt. Annarsvegar er verndun Þingvalla sem sögustaðar, og mælir þar alt einmitt með því, að halda prestinum á staðnum, því að presturinn er einu fornleifarnar — ef svo mætti að orði kveða — sem enn eru við liði, og við eigum ekki að gera Þingvelli að annexíu og hornreku. Hinsvegar verða hátíðahöldin að geta farið fram óhindrað, og rekst það ekkert á. Það kostar ef til vill eitthvað, úr því að presturinn fjekk skilyrðislausa veitingu fyrir staðnum, en verður ekki dýrara en þessi ráðstöfun.

Málið fer til nefndar, og jeg get engu um það lofað, hvort jeg get int mitt starf af hendi undir þingmönnunum. Jeg vildi helst fá málinu frestað þar til eftir þing: Það er ekki hægt að stökkva þannig frá störfum hjer, og auk þess er það sjaldan vænlegast til samninga, að þurfa að keyra eitthvert mál fram í skyndi. Með málið verður að fara með lipurð, einkum ef stífni hefir áður verið hleypt í það, og til þess þarf svigrúm.

Loks finst mjer það óviðkunnanlegt, að þingið skuli ekki fá umsögn biskups, þegar verið er að tala um niðurlagningu prestakalls. Það er óviðkunnanlegt, úr því að biskup er yfir kirkjunni, að þá sje verið að afgreiða þetta mál frá þinginu, án þess að hann fái tækifæri til að segja sitt álit um það. Jeg bendi aðeins nefndinni á þetta, sem væntanlega fær þetta mál.