03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í C-deild Alþingistíðinda. (1965)

136. mál, forstjórn póst- og símamála

Flm. (Páll Hermannsson):

Á síðasta þingi var í Nd. samþykt þingsályktun, svohljóðandi:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á stjórnina að láta rannsaka, að hve miklu leyti unt muni vera að sameina rekstur síma og pósts.“

Mjer er kunnugt um það, að ríkisstjórnin hefir leitað um þessa þingsályktun álits aðalpóstmeistarans í Reykjavík, svo og álits hins setta landssímastjóra. Jeg hefi sjeð svör þessara manna, og mjer er kunnugt um, að þau liggja nú hjá fjhn. Nd. til umsagnar. Að öðru leyti er mjer ekki kunnugt um, hvað stjórnin hefir fleira gert til rannsóknar þessum málum, og mjer er heldur ekki kunnugt um, hvað fjhn. Nd., sem nú hefir þessi mál til umsagnar hjá sjer, leggur til málanna. En með hliðsjón af því, að sú rannsókn, sem þegar hefir verið gerð, og með tilliti til þeirra athugana, sem þingnefndir, máske í báðum deildum, kunna að gera, fanst okkur flm., að vel gæti leitt til þess, að þinginu, sem nú situr, kynni að þykja rjett að setja lög um þessi efni. Því hefi jeg leyft mjer, ásamt hv. 1. þm. Eyf., að bera fram það lagafrv., sem hjer ræðir um.

Jeg vil geta þess hjer, að aðalpóstmeistari og landssímastjóri eru að sumu leyti sammála í þeim skjölum, sem þeir hafa sent stjórninni í sambandi við þá þingsályktun, sem jeg nefndi í byrjun. Þeir eru sammála um að sameina eigi að nokkru leyti nú þegar, og síðan smátt og smátt, síma og póst víðsvegar um land. En ósammála eru þeir að því leyti, að yfirpóstmeistari leggur til, að sameining síma og pósts fari fram alstaðar á landinu, en settur landssímastjóri vill þar undanskilja sex kaupstaði, Reykjavík, Akureyri, Ísafjörð, Seyðisfjörð, Vestmannaeyjar og Hafnarfjörð, og þá um leið yfirstjórn allra síma- og póstmála í landinu. Alstaðar annarsstaðar á landinu leggur landssímastjóri til, að sameining fari fram. Mjer virðist það ljóst, að þótt ekki yrði sameinað víðar en þar, sem þeir landssímastjóri og yfirpóstmeistari eru sammála um sameininguna, þá sje það nauðsynlegt, að yfirstjórn þessara mála verði og sameiginleg. Auðskilið er, að þegar velja þarf menn til að gegna störfum þessum, þá er það óhentugt, að ráðin liggi í höndum margra. Geta hagsmunir þar auðveldlega rekist á, og er vel skiljanlegt; að ef t. d. póstmeistari vildi einungis taka tillit til þess, sem póstmálunum væri fyrir bestu, í vali sínu á starfsmanni, að samkomulag fengist ekki, og erfitt yrði að velja manninn. Líka mundi eftirlit í sambandi við fjármálin reynast erfitt, ef yfirstjórn væri ekki sameiginleg. Við flm. lítum því svo á, að ef farið verður að sameina stjórn og starfrækslu þessara mála — og nú þegar hefir talsvert verið að þessu gert — þá verði nauðsynlegt að sameina það að öllu leyti.

Geta má þess, sem reyndar flestir hv. þdm. munu vita, að í allflestum löndum álfunnar munu póstmál og símar lúta sameiginlegri yfirstjórn. Munu önnur lönd ekki vera þar undantekin en Noregur, Svíþjóð og Sviss. Sumstaðar hefir sú sameining komist á að undanförnu af sparnaðarástæðum, en annarsstaðar hefir hún all-lengi átt sjer stað.

Jeg geri ekki ráð fyrir að fjölyrða um mál þetta nú við 1., umr.; vona, að hv. deild leyfi því til 2. umr. og nefndar. — Það mun álít margra, að nauðsynlegt sje að sameina störf þessi úti um land, meðal annars til þess að hægt sje að veita mönnum þeim, er að þessu starfa, lífvænlegri stöðu, ef báðar greinarnar eru í höndum sama manns. En margt af því, sem mælir með sameiningu þessari út um land, mælir og með sameiningu þessara mála í heild.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að leggja til, að máli þessu verði vísað til fjhn.