12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög 1929

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það mun fara fyrir mjer eins og fleirum, sem tala yfir nær tómum þingbekkjum, að það verða aðeins orð fyrir áheyrendurna og Alþingistíðindin.

Jeg á við þennan kafla fjárlaganna fjórar brtt. Sú fyrsta er XXIV. brtt. á þskj. 435, um námsstyrk til Hólmfreðs Franzsonar. Hjer er um ungan, efnalausan námssvein að ræða, sem hefir ráðist í það, að loknu stúdentsprófi, að komast til annara landa og fullnuma sig í þeirri fræðigrein, sem hann mun ekki hafa átt kost á að læra hjer, eðlisfræði. Það er sagt um þennan pilt af kennurum hans, sem hafa gefið honum vottorð, að hann sje mjög góður námsmaður og sjerlega reglusamur. En svo vildi til, þegar hann ætlaði að sækja um styrk til þessarar utanfarar, að hann átti keppinauta, og það munaði örlitlu, að hann gæti náð í styrk. Samt rjeðist hann í að ferðast að heiman fjármunalaus í annað land, og það er að minsta kosti fullkomið álit þeirra manna, sem hafa gefið honum vottorð, að ef hann fái ekki styrk, þá verði hann að hætta námi á komanda vori. Vandamenn hans eru mjög fátækir. Hann stundar þetta nám sitt við skóla í Hamborg, og mun njóta einhvers lítilfjörlegs styrks hjá frænda sínum þar, sem kemur fram sem húsaleigustyrkur. Þessi piltur er af útlendum ættum, en stjúpi hans, sem er útlendingur, á þarna frænda, sem reynir að styrkja hann að einhverju leyti.

Maður veit, að sú regla hefir oft verið hjer, að Alþingi styrki unga og efnilega pilta til náms, og jeg vænti, að svo fari að þessu sinni, þar sem um ekki stærri upphæð er að ræða en 1200 kr. Þetta nám er þannig vaxið, að það er ekki hægt að taka próf í því hjer heima, og í öðru lagi er bent á það, að hjer sje aðeins einn maður til á landinu með því háskólaprófi, en þetta bendir alt til, að öll þörf sje á, að hjer komi nýr maður, sem verði fær í þeim fræðum, og virðist því hjer vera tilefni til að styrkja þennan unga og efnilega mann, svo að hann geti haldið áfram á námsbraut sinni.

Næsta brtt. mín er nr. LIII á sama þskj. Jeg mælti nokkuð fyrir henni við 2. umr., og skal jeg þess vegna vera miklu stuttorðari um hana nú. Hún fjell þá með jöfnum atkvæðum, en er hjer borin fram 500 kr. lægri. Jeg álít þess vegna ekki þörf að fara mörgum orðum um hana nú; vil aðeins geta þess, að ef hún kynni að hafa þótt fullhá þá, þá vona jeg, að hún finni nú náð fyrir augum hv. þm., þegar hún er þessu lægri.

Þriðju brtt. á jeg hjer á sama þskj.; það er LXVIII. brtt., og verð jeg að vera nokkru fjölorðari um hana. Það er til Odds Valentínussonar, beiðni um 1000 kr. styrk til að kaupa vjelbát. Þessi maður er orðinn nokkuð við aldur og mun mörgum þeirra kunnur, sem ferðast hafa vestur um land, því að hann hefir gegnt og gegnir hafnsögumannsstörfum á sunnanverðum Breiðafirði, en þar er um mjög mikið hættusvæði að ræða, og skiftir ekki litlu, að til þess starfa veljist virkilega kunnugir og djarfir menn. Nú er það svo, að alt fram á þennan dag hafa opnir bátar verið notaðir við hafnsögu þar vestra, og oft hefir þessi maður orðið að leggja út í hann „svartan“ með sín segl og árar, þegar skip hefir borið þar að.

Nú bendir hann á í umsókn sinni, að hentara muni að nota vjelbát til hafnsöguferðanna. Yrði það til þess, að hægt væri að verða fljótari til og að síður þyrfti að byggja á mannafla við hafnsöguna. Með þeim hætti yrði og hafnsögumanni gert kleift að hafa önnur störf sjer til uppeldis. Nú er hann bundinn við hafnsögustarfið alt árið og skyldur að vera til taks hvenær sem er. Hafnsögugjöldin eru lág, og engin hafnsöguskylda hvílir á skipum á þessum leiðum.

Þetta á við hafnsögumannsstarfið í Stykkishólmi. En ennfremur hefir maður þessi haft á hendi leiðsögu um Breiðafjörð, að Króksfjarðarnesi og víðar. Segja mjer svo fróðir menn, að þetta sje ekki á færi annara en hinna kunnugustu manna.

Hreppsnefnd Stykkishólmshrepps refir samþykt að veita manni þessum 500 kr. styrk til mótorkaupa, að því tilskildu, að ríkissjóður leggi fram helmingi hærri upphæð. Báturinn mun kosta um 3 þús. kr. með vjel.

Jeg lít svo á, að sú hlið þessa máls sje ekki síst mikilsverð, að á þennan hátt er líf manna betur trygt en áður, með því að hafnsögubáturinn sje fleyta, sem fær er í flestan sjó. Jeg vænti því þess, að deildin vilji kynna sjer þessa umsókn. Hún mælir með sjer sjálf.

Síðari brtt. er um styrk til Slysavarnafjelags Íslands. Jeg sje, að nú liggur fyrir brtt. frá hæstv. atvmrh. um sömu upphæð, stíluð til slysavarna. Get jeg fallist á, að aðalatriðið sje, að upphæð þessi sje veitt til slysavarna, og það því minna atriði, hvort hún er veitt Slysavarnafjelaginu. Býst jeg þó við, að fjelag þetta hafi aðalstarfsemina í þessum efnum með höndum eftirleiðis, og geri því ráð fyrir, að það njóti þessa styrks að mestu eða öllu leyti. En þar sem jeg hefi gert grein fyrir fyrirætlunum og starfssviði fjelagsins við 2. umr., get jeg sparað mjer það hjer.

Með stofnun þessa fjelags er í rauninni fyrsta sporið stigið til slysavarna hjer á landi. Vænti jeg þess, að menn skilji betur og betur með ári hverju, hvílík nauðsyn er á að styrkja þessa starfsemi í ríkum mæli.