13.03.1928
Neðri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Jeg á við þennan kafla frv. 3 brtt., og eru allar á þskj. 435.

Hin fyrsta er undir tölulið XXII, við 14. gr. B. II. b., og er hún um að veita Bjarna stúdent Sigurðssyni 1200 kr. til náms í húsgerðarlist. Í yfirstandandi fjárlögum er honum veitt sama upphæð til þessa náms. Eiginlega eru það upptök þessa máls, að árið 1926 varð þessi maður afskiftur, er deilt var utanfararstyrk stúdenta. Bar það að með nokkuð undarlegum hætti, svo sem jeg lýsti allítarlega í fyrra í hv. þd., og var það margra álit, að hann hefði ranglega verið afskiftur. M. a. leit minni hl. úthlutunarnefndarinnar svo á. Þegar svo var komið, þótti þessum manni ilt að geta ekki haldið áfram leiðina að því marki, er hann hafði sett sjer, þ. e. að nema húsgerðarlist. Fjekk hann stuðning nokkurra manna, er þektu hann, og komst utan. Hann dvelur nú í Svíþjóð og nemur þar húsgerðarlist. Að hann rjeðist í að fara þangað, var fyrir eindregin tilmæli húsameistara ríkisins og Guðmundar Hannessonar prófessors. Þeir litu svo á, að þar væri mest hægt að fá af hagnýtri þekkingu í þessum efnum. Hvort piltur þessi getur haldið áfram náminu úr þessu, fer alt eftir því, hvort hann fær þennan styrk eða ekki, því að hann á engan að, sem fær er um að veita honum fjárhagslegan stuðning. Hann verður því að hætta námi, ef Alþingi daufheyrist við beiðni hans.

Í sambandi við þetta vil jeg benda á, að einmitt þessi fræðigrein, húsgerðarlistin, er mjög mikilsvarðandi fyrir okkur, því að það er þjóðarnauðsyn að bæta húsakynnin í landinu, og hve vel tekst að leysa það mikla nauðsynjamál, veltur ekki hvað minst á því, hve miklum hagnýtum kröftum landsmenn hafa sjálfir á að skipa einmitt í þessum efnum. Og einmitt nú, þegar verið er að afgreiða lög frá þinginu, sem hafa það í för með sjer, að miklu meira fje verður varið til húsabygginga en verið hefir, þá liggur það í augum uppi, að það ríður ekki alllítið á því fyrir okkur að fylgjast vel með öllum nýungum á þessu sviði, til þess að geta hagnýtt okkur það í þeim, sem okkur má að gagni verða og er við okkar hæfi. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þessa till., en vænti þess, að hv. deildarmenn sjái, að hjer er um þjóðnauðsynjamál að ræða.

Þá er önnur brtt. mín, við 16. gr., að inn í greinina bætist nýr liður: Til þess að koma upp rafmagnsstöð í Reykholti til ljósa, með afli úr Skriflu, enda verði stöðin eign staðarins. Eins og kunnugt er, er kominn mikill rekspölur á það hjer á landi að nota vatnsafl til þess að framleiða rafmagn, og eru staðhættir til þess nokkuð víða. En hinsvegar hagar þó svo til mjög víða, að því verður ekki við komið. Aftur á móti er notkun hveraorku á þennan hátt óþekt hjer á landi, en kunnáttumenn á þessum sviðum fullyrða, að hægt sje að beisla hana og nota hana í þessum efnum á sama hátt og fossaflið.

Nú nýlega hefir verið gerð rannsókn á hvernum Skriflu í Reykholti og áætlun um að nota hann á þennan hátt, og hefir kostnaðurinn við virkjunina og leiðslur verið áætlaður 3000 kr. Er því hjer farið fram á, að ríkissjóður greiði 2/3 þeirrar upphæðar, en presturinn ætlar að leggja fram 1/3, og þá á virkjunin með leiðslum og öllu tilheyrandi að verða eign staðarins. Í áætluninni er gengið út frá því, að stöðin þurfi að framleiða 3/4 kw. orku, og það er miðað við það, sem þarf til ljósa, því að til eldunar og upphitunar er hverahitinn notaður. Þó að maður sá, sem gert hefir áætlun þessa, sje ekki sjerfræðingur, þá mun mega treysta því, að þetta takist, því að áætlunin er gerð í samráði við „Bræðurna Ormssyni“, sem eru alþektir kunnáttumenn á þessum sviðum. Þetta er fyrsta tilraunin til þess að nota hverahita á þennan hátt, og því í fyrsta sinn, sem farið er fram á styrk í þessu skyni, en kröfunum mjög í hóf stilt, þar sem ekki er farið fram á að fá meira úr ríkissjóði en 2/3 kostnaðarins, þótt stöðin eigi að verða eign staðarins, sem eins og kunnugt er, er eign ríkisins.

Þá er þriðja brtt. mín á sama þskj. Hún er við 22. gr. Síðustu málsgr., þar sem stjórninni er heimilað í fjárlagafrv. að gefa Árnessýslu eftir svokallað Flóavegarlán, sem talið er vera kr. 40868,98. Það var nokkuð rætt við 2. umr. fjárlagafrv. um þessa eftirgjöf og aðrar tillögur um eftirgjafir og endurgreiðslur, sem þá komu fram, því að þessi till. um eftirgjöf á Flóavegarláninu, sem stjórnin hafði tekið upp í fjárlagafrv., hafði það eðlilega í för með sjer, að fram komu till. um hliðstæðar endurgreiðslur. En þær náðu ekki fram að ganga, og varð ekki annað sjeð af þeim atkvgr., sem þá fóru fram, en að þdm. sjeu yfirleitt andvígir slíkum eftirgjöfum. Af hálfu þeirra manna, sem báru þessar brtt. fram við 2. umr., voru færð skýr rök fyrir því, að þar væri ekki um neinn eðlismun að ræða, samanborið við Flóavegarlánstillögu stjórnarinnar, og ekki væri hægt, ef gera ætti hjeruðum landsins nokkurnveginn jafnhátt undir höfði, að samþ. eftirgjöfina á Flóavegarláninu, en neita öðrum hjeruðum um hliðstæðar eftirgjafir eða endurgreiðslur. Þannig horfði þá málið við eftir 2. umr. Jeg hefi nú borið fram till. um, að gefinn skuli aðeins eftir helmingur af þessu Flóavegarláni. Upphæð þess er nú orðin 50667 kr. með vöxtum, í stað þess, sem það var talið 40860 kr. í frv. Jeg veit nú ekki, hvort meint er með till. í stjfrv. að gefa eftir alt lánið eins og það raunverulega er orðið, eða skilja eftir 10 þús. kr., þ. e. vextina, sem safnast hafa, og láta sýsluna standa skil á þeirri upphæð. Um það væri gott að fá upplýsingar.

Hvað þessa till. mína snertir, þá býst jeg nú raunar við, að það hefði verið meira í samræmi við vilja háttv. deildar, að hún hefði gengið í þá átt að fella eftirgjöfina niður með öllu. Að jeg ekki bar fram slíka till., var af þeirri ástæðu, að í till., sem vegamálastjóri hefir gert til fjvn., leggur hann til, eða telur ekki ósanngjarnt, að helmingur lánsins eins og það er tilfært í stjfrv. sje eftir gefinn. Miða jeg því till. mína við þessa till. vegamálastjórans og fer fram á, að ekki sje eftir gefinn nema helmingur lánsins, eða kr. 20434,49. Skal jeg svo ekki að svo vöxnu máli fjölyrða frekar um þennan lið till., en vel má vera, að tilefni gefist til þess síðar að tala frekar um hann.

Þá er b-liður þessarar till.; þar er farið fram á að hnýta aftan við málsgreinina nýrri málsgrein, svo hljóðandi:

„Eftirgjöfin er bundin því skilyrði, að samkomulag verði milli ríkisstjórnarinnar og sýslunefndar Árnessýslu um lagningu og viðhald fyrirhugaðra vega um Flóaáveitusvæðið.“ — Eins og menn eflaust muna, voru samþykt lög á þinginu 1926 sem nokkurskonar viðauki við lög frá 1917 um Flóaáveituna. Í lögum þessum var ákveðið að leggja vegi um Flóaáveitusvæðið, og jafnframt, að ríkissjóður legði fram helming í þá vegi, sem væru sýsluvegir, en ¼ í aðrar framkvæmdir. Nú hefir, eins og kunnugt er, starfað nefnd, skipuð af stjórninni til þess að gera tillögur um þessi Flóaáveitumál, og hún hefir fyrir nokkru skilað áliti sínu, sem aðallega fjallar um það að koma á stofn nýtísku mjólkurbúi á þessu svæði. Og samkv. þeim till., sem hún ber fram til stjórnarinnar í þessu máli, er gert ráð fyrir, að vegagerðarkostnaðurinn á þessu svæði nemi alls 236 þús. kr. Af því ber ríkissjóði samkvæmt lögum frá 1926 að leggja fram helming, eða 118 þús. kr. Hinn helmingurinn skiftist þannig, að áveitufjelagið á að leggja fram helming hans, eða 59 þús., sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður láni því, en sýslan og hreppar hinn hlutann, sem skiftist þannig á milli þeirra, að sýslan leggur fram 15 þús. kr., en hrepparnir 44 þús. kr. Þannig er þetta þá fyrirhugað í till. Flóanefndarinnar.

Nú hefir þetta mál verið tekið fyrir á sýslufundi í Árnessýslu, og hefir hann samþykt, að sýslan skuli leggja fram þessar 15 þús. kr. á móti hreppunum og að upphæðin greiðist á þremur árum. En hún setur skilyrði um það, hvað af vegaköflunum skuli teljast aðallínur og hvað aukalínur, og eru till. hennar í því efni alveg í samræmi við till. Flóanefndarinnar. En svo setur sýslunefndin annað skilyrði.

Það hljóðar svo: „— — að vegir þessir sjeu afhentir sýslunni vel „púkkaðir“, nægilega háir og yfirleitt í fullkomnu standi sem bifreiðavegir“. — Það er því skilyrði frá hennar hendi fyrir því að sýslan taki að sjer viðhald þessara vega, að þeir sjeu vel „púkkaðir“. En að „púkka“ vegi er ný aðferð og dýr, sem aðeins er höfð við fjölförnustu þjóðvegakafla. Verði því að gera Flóavegina á þennan hátt, verður kostnaðurinn við byggingu þeirra miklu hærri en gert er ráð fyrir í áætlun þessari, og sú hækkun kemur eðlilega mest fram á ríkissjóði bæði hvað framlag og lán snertir. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, mun vegamálastjóri hafa gert ráð fyrir að „púkk“-leggja aðalálmuna, eða 12,8 km., en byggja aðrar álmur vegarins með venjulegu móti.

Það er nú augljóst, að með þessu skilyrði, sem sýslunefnd Árnessýslu setur, er gerð tilraun til þess að leggja á ríkissjóð miklu þyngri bagga en gert er undir öðrum kringumstæðum. Mjer hefði því fundist vel við eiga, ef það verður ofan á, að eitthvað verði gefið eftir af þessu Flóavegarláni, þá verði jafnframt reynt að ná samkomulagi um þetta atriði hvað viðhaldið snertir.

Jeg minnist svo ekki að hafa fleira um þetta að segja nú, en jeg vænti, að hv. deildarmenn geti verið mjer sammála um það, að þessi samþykt þarna austur frá bendi í þá átt, að full þörf sje á fyrir stjórnina að hafa vaðið fyrir neðan sig í viðskiftunum við Árnesinga.

Hvað snertir eina till. enn, sem nafn mitt er bundið við, þá mun jeg geta lýst því yfir fyrir hönd okkar flm., að við munum taka hana aftur, vegna þess að komið hefir fram till. frá hv. þm. V.-Ísf., sem við getum sætt okkur við.