17.02.1928
Neðri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2013)

90. mál, endurskoðun siglingalöggjafar

Jón Ólafsson:

Jeg vildi aðeins nota tækifærið til þess að benda á, eins og hv. flm. (SÁÓ) að nokkru leyti tók fram, að það nær engri átt, að sömu ákvæði gildi um siglingamenn og fiskimenn, þótt hvorirtveggja sjeu sjómenn. Auk þess, og ekki síður, vildi jeg vekja athygli á því, að sjóveðrjettarákvæðið í 36. gr. siglingalaganna, 2. og 3. lið, er orðið alveg ófært fyrir útveginn í heild sinni, og er því bráðnauðsynlegt að reyna að koma þessu öðruvísi fyrir. Jeg vil beina því til hæstv. stjórnar að athuga, hvort ekki sje hægt að finna aðra tryggingu fyrir kaupi háseta en þessa, sem jeg hefi nú nefnt. Lánsstofnanirnar eru mjög óánægðar með þetta fyrirkomulag, og það verður ekki aðeins útgerðarmönnum til örðugleika, heldur verður það einnig oft og tíðum til atvinnuspillis fyrir sjómenn og verkamenn, því að eigendur báta og skipa láta þau oft liggja aðgerðalaus af þeim ástæðum, að ætíð getur hlaðist á þá sjóveð, sem, eins og kunnugt er, er forgangsveð. Það má vera, að nokkur vandi sje að ráða fram úr þessu, en jeg vildi þó skjóta því fram til athugunar fyrir hæstv. stjórn, hvort ekki væri hægt að finna annað hentara fyrirkomulag á þessu.