13.03.1928
Neðri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Jónsson:

Jeg ætla ekki að þreyta hv. þdm. á að tala fyrir öðrum brtt. en þeim, sem jeg er 1. flm. að. Flestar þessar brtt. eru hinar sömu og við 2. umr., aðeins lækkaðar. Jeg get því að mestu leyti leitt hjá mjer að fara um þær frekari orðum en jeg gerði þá.

Fyrst vil jeg minnast á eftirlaunaviðbót Þorleifs Jónssonar póstmeistara. Jeg legg til, að þau verði færð upp í 2000 kr. Mundi hann þá fá alls um 3000 kr. með því, sem honum ber úr lífeyrissjóði. Ætla jeg, að ekki sje ósanngjarnt að veita þessum aldraða heiðursmanni slíka viðurkenningu eftir langt starf.

Þá kem jeg að brtt. okkar hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) um styrkinn vegna orðabókar Sigfúsar Blöndals, þ. e. uppbótina til prentsmiðjunnar Gutenbergs og Jóns Ófeigssonar kennara, vegna tjóns af útgáfunni. Mjer kom ekki á óvart, þó að till, um þetta efni væri feld við 2. umr., því að þá tók jeg upp þá upphæð alla, sem farið var fram á af hlutaðeigendum. Nú hefi jeg fært styrkinn til prentsmiðjunnar niður í 2500 kr. og styrkinn til Jóns Ófeigssonar niður í 2000 kr. Vænti jeg nú, að hv. deild telji sjálfsagt að samþykkja þessa tillögu.

Þá á jeg 2 brtt. á þskj. 435 ásamt öðrum þingmönnum Reykv., um styrki til Íþróttasambands Íslands. Í frv. stj. voru því ætlaðar 2500 kr. En það starf, sem sambandið hefir með höndum, er svo mikið, að óhjákvæmilegt er, að eitthvað af því leggist niður, ef þessi upphæð verður ekki hækkuð. Af verkum þess skal jeg aðeins nefna, að það hefir gefið út glímubók og sundbók, sem geyma nauðsynlegar leiðbeiningar og reglur um þessar hollu og gagnlegu íþróttir. Veit jeg, að glímubókin a. m. k. er flestum kunn og hefir orðið til mikils gagns, og er nauðsynlegt og sjálfsagt að greiða fyrir því, að Í. S. Í. geti haldið áfram að gefa út slíkar bækur. Nú munu vera um 100 fjelög í sambandinu. Hvert þeirra greiðir 10 kr. árstillag, og sjá allir, að þær 1000 kr., sem fást með því móti, muni hrökkva skamt til nauðsynlegra útgjalda. Nú gefur Íþróttasambandið út blað, og má telja víst, að tillagið fari í þá útgáfu. Er þá ekkert eftir til annara útgjalda. Nú vil jeg minna á það, að ef hjer eiga að verða nokkur veruleg hátíðahöld 1930, þá er það alveg víst, að íþróttasýningar verða einn aðalliðurinn í þeim. Tvö meginatriðin á skemtiskránni munu verða og eiga að verða íþróttasýningar og sönglist, þ. e. söngur eða hljóðfæraleikur. En engin von er til þess, að Í. S. Í. geti undirbúið íþróttasýningarnar, svo að í nokkru lagi sje, ef það fær ekki hærri fjárupphæð til umráða en gert er ráð fyrir í frv. stj. Jeg veit ekki, hvort hrifningin af væntanlegum hátíðahöldum 1930 hefir ennþá náð til allra hv. þm. En eitt er víst, og þarf enginn að ganga þess dulinn, að það ár verðum við heimsóttir af mörgu stórmenni erlendu. Er ekki vansalaust fyrir þing og þjóð að hafa ekkert boðlegt þeim gestum til skemtunar. Ættu því þeir hv. þm., sem ant er um heiður landsins við þetta tækifæri, ekki að sjá í þessa upphæð. Í. S. Í. hefir sjálft farið fram á að fá 10 þús. kr., og er ekki frekt í farið af okkur flm. brtt., að taka upp helminginn af þeirri upphæð.

Hin brtt., sem jeg mintist á og ætla að gera grein fyrir um leið og þessari, er um að veita Í. S. Í. 15000 kr. til að senda fimleikaflokk á alþjóðaíþróttamót í Calais. Í. S. Í. hefir nú tvisvar gengist fyrir því að senda menn til olympísku leikanna. Og þó að þar hafi verið saman komnir frægustu atgervismenn hvaðanæfa að úr heiminum, hafa Íslendingarnir getið sjer hinn besta orðstír. Er það einkum vegna þess, að þeir hafa getað sýnt þar íslenska glímu, því að henni er hvarvetna vel tekið erlendis. En á þessu ári er ekki hægt að koma íslensku glímunni að á leikunum. Svo er háttað, að þeirri reglu er fylgt að taka ekki upp meðal kapprauna íþróttir, sem færri þjóðir en 6 taka þátt í og er því íslensk glíma þar útilokuð. En auk hinna eiginlegu kapprauna eru venjulega sýndar 2 íþróttir, sem ekki er kept í, og þær valdar til skiftis. Nú hefir íslenska glíman komist tvisvar sinnum að, og því ekki von til þess, að hún komist enn að í þetta sinn, en þá er í raun og veru farið það, sem við Íslendingar getum lagt til olympíuleikanna. En í sumar á að halda alþjóðaíþróttamót í Calais á Frakklandi, og er það haldið til minningar um 50 ára afmæli alþjóðasambands íþróttamanna, og verður því vafalaust mikil þátttaka í því og valið lið. Nú er spurningin um það, hvort við höfum nokkurn íþróttaflokk, sem líklegur sje til að verða okkur þar til sóma. Jú. Jeg ætla, að svo sje, og á jeg þar við kvenfimleikaflokkinn, sem fer til Noregs og Svíþjóðar síðastliðið sumar. Sömuleiðis fór karlmannaflokkur til Norðurlanda og gat sjer góðan orðstír. En sjerstaklega hlaut kvenflokkurinn mikið lof. Jeg hefi sjeð mjög margar blaðaúrklippur, einkum norskar, og sýnast blöðin varla hafa þótst eiga nógu sterk orð til að hrósa þessum íslensku stúlkum. Þau segja, að þær hafi tekið Oslo með áhlaupi o. s. frv. Nú mætti e. t. v. segja, að þessi ummæli blaðanna væru skrum og hefði gestrisni og frændrækni nokkru ráðið um þau. Jeg held raunar, að svo sje ekki. En jeg tek þó miklu meira mark á fimleikasýningu, sem haldin var í Gautaborg, og ummælum sænsku blaðanna um frammistöðu fimleikaflokkanna þar. Þessi sýning var haldin til minningar um hið mikla skáld og íþróttafrömuð Ling. Í henni tóku þátt auk Finna, sem orðlagðir eru fyrir fimleika, bæði Svíar, Danir og Norðmenn. En við hliðina á finsku fimleikamönnunum vakti íslenski kvenflokkurinn langmesta athygli. Til þess að finna orðum mínum stað, langar mig til að lesa upp kafla úr grein í Göteborgs-Posten, sem fjallar um sýninguna. Jeg geri þetta ekki til að skemta hv. deild með upplestri, því að jeg kann ekki að lesa sænsku, en ummælin eru mikils verð vegna þess að greinin öll er skrifuð af fullri gagnrýni, að því, er sjeð verður. En það, sem jeg ætla að lesa, hljóðar svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Men aftonens sensation låg þá helt annat häll. Från den aristokratiska sagaön Island, det nordligaste broderlandet, hade kommit en dametrupp, som gav Lingveckans vid sidan av Finlandstruppens otvivelaktigt märkligaste uppvisning.

Truppen tågade in í ljusa vårliga dräkter och publiken hade med jubel hälsat Islands vackra flagga. Truppens ledare trädde fram och höll et litet anförande, genomandat av den mest anspråkslösa blygsamhet. Han talade bland annat om, att det avlägsna landet icke haft tillräcklig beröring med yttervärlden för att känna de moderna riktningarna inom gymnastiken och framhöll, att isländingarna kommit mera för att lära än att visa. Och sá började en fullt originell vidunderligt vacker uppvisning, som skulle lägga hela världen för dessa isländska damers fötter, om de utsträckte detta sit första framträdande utanför Island till en turné“.

Því næst kemur lýsing á framkomu flokksins, þar sem segir svo:

„Långa serier av de mest fulländade rytmiska rörelser, där varje detalj var utarbetad till ett skönhetsmoment och där varje del av kroppen efterhand togs í anspråk, följde med den mest absoluta precision. Armrörelserna í denna isländska gymnastik hade en helt underfull grace, allt flöt så lugnt, sá jämnt och sá vackert, som om en skaparvilja satt mjukaste liv í en samling konstens mästerverk. Och vi tala ibland om vacker balansgång. Man har ingen aning om, vart denna gymnastikgren kan ná, om man inte sett dessa isländingar! Publiken hölls í andlös beundran under hela uppvisningen, och entusiasmen nár denna härliga trupp med en strålande hälsningsattityd marscherade ut, kände inga gränser. Jämte finländarna hade inga sá mycket at lära oss som dessa underbara isländskor“.

Hv. þdm. geta sjeð, að fyrst svona er ritað um flokk frá Íslandi á stað, þar sem fjöldi ágætustu fimleikamanna er saman kominn, þá verður okkur áreiðanlega sómi að að senda þann flokk á hvaða íþróttamót sem er í heiminum. Í sambandi við þessa till. skal jeg geta þess, að í fjárlögum 1920 voru Í. S. Í. veittar 12 þús. kr. til að senda menn til olympíuleikanna. Þessi fjárveiting var ekki notuð af sjerstökum ástæðum. Þess var nefnilega óskað af stjórninni, að glímumennirnir færu ekki hjeðan á þeim tíma, sem leikarnir stóðu yfir, því að þeirra var þörf hjer heima. Þetta fje rann því til ríkissjóðs aftur. Þess vegna eru a. m. k. 12 þús. kr. af því, sem brtt. fer fram á, einungis endurveiting.

Skal jeg svo ekki lengja meir mál mitt, með því líka, að þm. eru óþolinmóðir að sitja undir fjárlagaumræðum. En jeg vænti, að hv. deild taki vel í þessar 2 brtt. frá okkur þingmönnum Reykv.