27.03.1928
Sameinað þing: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (2021)

119. mál, landsspítali

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Sökum þess, að sá ráðherra, sem mál þetta heyrir undir, er ekki hjer viðstaddur, verð jeg að segja nokkur orð.

Þeir hv. þm., sem talað hafa í máli þessu, hafa farið með tölur, sem ekki hafa verið fjarri sanni. En mig furðar á, að hjer skuli vera farið að tala um samningsrof í þessu sambandi, því að jeg veit ekki betur en að ríkisstj. hafi þegar lagt fram meira fje í þessa í byggingu en samningar standa til. Jeg fæ þess vegna ekki skilið, hvers vegna hv. 2. landsk. (IHB) tekur svona djúpt í árinni, því að hjer hefir ekkert skeð frá stjórnarinnar hálfu, sem átöluvert er. Mjer virðist því, að fyllilega megi vænta þess, að málið sje rætt með stillingu og kurteisi.

Það var upphaflega gert ráð fyrir því, að bygging þessi myndi kosta 1,4 milj. kr., en nú er farið að halda því fram, að hún muni verða eitthvað ódýrari, en jeg fyrir mitt leyti held, að ekki sje vert að gera ráð fyrir, að svo verði, því að reynslan hefir oftar orðið sú, að slíkar byggingar sem þessi hafa farið fram úr áætlun, heldur en að kostnaður hafi verið of hátt áætlaður. Fjelag það, sem mest hefir beitt sjer fyrir þessu máli, hefir lagt fram 275 þús. til fyrirtækisins, en ríkið er búið að veita til þess ½ milj., og ennfremur hefir komið til orða, vegna tilmæla landsspítalanefndarinnar, að á þessu ári yrði lagt fram meira fje til byggingarinnar en veitt er í fjárlögum.

Annars fæ jeg ekki betur sjeð en að stjórnin hafi verið í samræmi við vilja þingsins, þegar hún tók ekki upp í fjárlagafrv. í þessu skyni nema 100 þús., þar sem engin till. kemur fram um hækkun á fjárveitingunni, heldur aðeins um það að taka lán til byggingarinnar. Hvað lagt er fram af þingsins hálfu á hverjum tíma, verður að sjálfsögðu í þessu sem öðru að takmarkast við getu ríkissjóðs. Annars býst jeg ekki við, að það verði til þess að flýta fyrir málinu, þó að farið sje að hefja ádeilur á stjórnina svona alveg að ástæðulausu. Hv. 2. landsk. hjelt því fram, að nú þegar hafi verið rofið annað aðalatriði samningsins. Þessu mótmæli jeg algerlega, og jeg veit ekki, hvernig hægt er með rökum að finna slíkum orðum stað. Því að jeg veit ekki betur en að þær upphæðir, sem í fjárlögunum hafa staðið, hafi verið í fullu samræmi við samning þennan. Að fara því þegar við byrjun umræðunnar að tala um að hefja málsókn á hendur stjórninni fyrir samningsbrot, áður en nokkur átylla er fyrir slíku, tel jeg nokkuð fljótfærnislega af stað farið. Annars verð jeg að segja fyrir mitt leyti, að jeg legg ekki svo mjög mikið upp úr samningi þessum. Jeg get alls ekki láð hv. 2. landsk. (IHB), þó að hún vilji gera sitt til þess að flýta þessu máli. En hingað til hefir það ekki þótt heillavænlegt að hafa svo mikið kvennaríki, að við karlmennirnir værum öllum ráðum sviftir. Svona alment skoðað held jeg, að það væri að hafa endaskifti á hlutunum, og það til hins lakara.

Jeg get nú vel búist við, að hv. þm. hafi með sinni hjartnæmu ræðu hrært einhverja hv. þm. til þess að vera með þessari till., og hún verði því samþykt, en jeg hygg, að stjórnin muni, hvað sem henni líður, fara sínu fram í þessu máli, því að þó að þörfin sje mikil á því að fá þessa byggingu fullgerða, þá verður jafnan að gæta þess að reisa sjer ekki hurðarás um öxl, hvorki með því að íþyngja skattþegnum um of, nje með því að taka lán á lán ofan, ef ekki er vissa fyrir, að þau verði greidd á gjalddaga. Annars má jeg fullyrða það, og það hefi jeg tekið fram áður í þinginu, að það er ætlun stjórnarinnar, að sú bygging, sem nú er komin upp, verði fullgerð til notkunar snemma á árinu 1930. Hvort aðrar byggingar, eins og t. d. geymsluhús og starfsmannabústaður, verða fullbúnar þá, þori jeg ekki að fullyrða. Þá vil jeg bæta því við, að það er mikil hvöt fyrir stjórnina að haga þessu þannig, til þess að bygging þessi geti komið til nota við hátíðahöldin 1930. Og geti það orðið, að aukabyggingarnar verði fullbúnar í árslok 1930, sem jeg frekar geri ráð fyrir, þá finst mjer, að konur þær, sem mest beita sjer fyrir þessu máli, megi láta sjer vel líka. Það er því alveg óþarfi fyrir hv. 2. landsk. (IHB) að láta sjer mjög óðslega í þessu efni. Stjórnin mun gera sitt besta í því, meðan henni endist aldur, en fari svo, að aðrir verðugri, að áliti þessa hv. þm., taki við stjórnartaumunum, þá hygg jeg, að öll tortrygni þessa hv. þm. hverfi eins og dögg fyrir sólu.