27.03.1928
Sameinað þing: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (2023)

119. mál, landsspítali

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg hlýt að svara að einhverju leyti ræðu hæstv. fjmrh. (MK), sem aðallega snerist um bað eitt, að bera mjer á brýn, að jeg hefði haft hótanir í frammi, og að jeg væri að sýna það greinilega, „að kvennaríkið vildi hafa endaskifti á hlutunum“. Þetta átti víst að vera fyndni hjá hæstv. ráðh. En jeg bjóst satt að segja ekki við, að hann færi að fara út í svona útúrdúra, þegar jafn-alvarlegt mál sem þetta er til umræðu.

Þá var hæstv. ráðherra að víta það, að jeg hefði talað um samningsrof. Slíkt var algerður óþarfi hjá hæstv. ráðh., því að jeg talaði ekki um, að samningarnir hefðu verið rofnir, heldur var jeg að vara við að rjúfa þá, og ekki veldur sá, er varar, þótt ver fari. Jeg fann ástæðu til slíkra aðvarana vegna þess, að í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, eru ekki ætlaðar nema 100 þús. kr. til landsspítalans, í stað þess að það ættu að vera minst 200 þús. samkvæmt samningnum. Og af þeirri upphæð mun síst veita, til þess fyrst og fremst, að byggingunni miði eitthvað áfram, og jafnframt til þess, að hægt sje að vinna það, sem hentugast er á hverjum tíma. Jeg bið því engrar fyrirgefningar, þó að jeg benti á það í síðustu ræðu minni, að um samningsrof mætti tala í þessu sambandi.

Um það skal jeg ekki þrátta, hvort ríkissjóður hefir hingað til lagt meira fje fram til spítalabyggingarinnar en honum hefir borið, en hitt veit jeg, að landsspítalasjóður hefir lagt fram það fje, sem samningar hafa staðið til, svo að nú eru ekki eftir af þeirri upphæð nema síðustu 25 þúsundin, og þau eru handbær hvenær sem vill.

Jeg vil leiðrjetta dálítinn misskilning, sem mjer virðist vera í huga hæstv. fjmrh. (MK), og einnig hefir komið fram í ræðu hjá honum í öðru máli hjer í hinu háa Alþingi. Það er sá misskilningur, að um miklar viðbótarbyggingar við landsspítalann sje að ræða. En skv. samningnum eru það ekki nema tvær byggingar, sem eiga að vera komnar upp fyrir 1930, spítalabyggingin og starfsmannahúsið. Það hús á jafnframt að vera partur af spítalanum sjálfum, og verða þar unnin ýms störf, sem nauðsynleg eru til þess, að spítalinn geti starfað. Það mun litið misjafnlega á, hvort æskilegt sje, að aðalbyggingin sje komin upp 1930, en jeg lít svo á, að ekki sje aðeins æskilegt, að aðalbyggingin sje þá komin upp, heldur og hin byggingin, sem samningurinn talar um. Eins og jeg sagði, getur spítalinn ekki tekið til starfa fyr en báðar byggingarnar eru komnar upp. Um þetta get jeg vitnað til nefndarinnar og formanns hennar, próf. Guðmundar Hannessonar.

Hæstv. fjmrh. (MK) mótmælti því, að stjórnin hefði rofið samninginn við landsspítalanefndina. Jeg segi ekki, að hún hafi rofið samninginn beinlínis, en hún hefir gert eitthvað í áttina, þar sem það stóð í fjárlagafrv., að leggja ætti fram 100 þús. kr., í stað 200 þús. kr. samkv. samningnum. Þarf því að taka lán til þess, að samningurinn sje haldinn. Þess vegna er till. hv. 2. þm. Reykv. (HjV) og hv. 5. landsk. (JBald) orð í tíma talað.

Hæstv. ráðh. talaði um, að konur ætluðu að fara að „gerast breiðar í sessi“. Jeg skil þetta sem það eigi að vera fyndni og ætla ekki að fara að svara því. En jeg skil ekki, að vera mín á Alþingi gefi tilefni til að álíta, að þessi samkoma sje nokkuð ver skipuð, þótt konur eigi þar sæti.

Að stjórnin fari sínu fram hvað sem konur segja, það má vel vera. En konur eru meira en helmingur þjóðarinnar og kjósendanna, — geta orðið helmingur Alþingis, þegar stundir líða, hver veit. Og þá kann að vera, að hæstv. landsstjórn færi að taka tillit til þess, sem konur segja.

Það, að heillavænlegt sje að draga á langinn byggingu, sem byrjað er á, hefir hv. 2. þm. Reykv. hrakið svo rækilega og vel, að jeg þarf engu við að bæta. Enginn einstaklingur mundi láta dragast lengi að ljúka við svona dýra byggingu. Það er að láta fje sitt standa ónotað. Jafnlengi og það dregst að ljúka þessari byggingu, jafnlengi dregst það að bæta úr hinni brýnu þörf, sem öllum landsmönnum er á spítalanum.

Innan þingsins hafa komið fram raddir, sem vilja draga upp þá grýlu, að spítalinn muni verða dýrari en gert hefir verið ráð fyrir. Reynslan bendir í þveröfuga átt. Öll útboð hafa orðið lægri en áætlað hafði verið. Get jeg lagt fram og ljeð hæstv. stjórn skrá, þar sem þetta er sýnt með tölum.

Hv. 5. landsk. mun hafa vikið til mín fáeinum orðum. En jeg var þá svo önnum kafin við að brjóta til mergjar það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að jeg veitti orðum hv. þm. ekki fulla eftirtekt. Það er siður minn að taka það verulega fram yfir það óverulega, og því hlýddi jeg fremur á hæstv. fjmrh. en hv. 5. landsk. Hann mun hafa verið með smáhnippingar til mín, en jeg vænti, að við sjeum jafngóðir vinir eftir sem áður.

En þar sem hæstv. ráðh. sagði, að við konur hefðum unnið fyrir landsspítalann af eintómum látalátum, þá er það ómaklega sagt. (Fjmrh. MK: Hefi jeg nokkurn tíma sagt það?). Máske ekki með þeim orðum, en jeg skrifaði hjá mjer orð hæstv. ráðh. Hann sagði: Hv. 2. landsk. og aðrar konur, sem virðast sýna röggsemi í þessu máli. Þetta eru hans óbreytt orð. Jeg skammast mín ekkert fyrir að „virðast“ sýna röggsemi, en mjer er annað lagnara en að látast. Jeg vona, að jeg þurfi aldrei að skammast mín fyrir það, sem jeg hefi gert í þágu landsspítalamálsins.

Jeg ætla ekki að segja meira og vona, að það, sem jeg kann að hafa misgert með orðum mínum, verði ekki látið bitna á þessu máli málanna.