27.03.1928
Sameinað þing: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (2025)

119. mál, landsspítali

Fjmrh.(Magnús Kristjánsson):

Mjer þykir fara mjög vel að um þetta mál, þar sem hv. 2. landsk. (IHB) hefir nú rifað seglin. Eftir að jeg hafði gefið skýringar mínar fann hv. þm., að hjer var ekkert átöluvert frá minni hlið. Því að þótt ekki standi hærri upphæð í fjárlögum en þar er komin, sannar það ekkert um það, að ekki verði varið meiru til byggingarinnar á árinu. Í fjárlögin er sett sú upphæð, sem þau þola í hvert skifti, og svo verður að hafa önnur úrræði um það, sem á vantar. Og lántaka verður þá oft eina úrræðið, enda þótt hægt sje að hugsa sjer fleiri leiðir. Það gleður mig, að nú hefir dregið til samkomulags með mjer og hv. 2. landsk. (IHB). Það er altaf það blíða, sem dregur mig mest að kvenfólkinu, og það er það, sem það kemst lengst með við okkur karlmennina.

Hv. þm. Snæf. (HSteins) hefi jeg ekki heldur miklu að svara. Mjer fanst liggja nærri, að hann fullyrti, að stjórnin hefði ætlað að skjóta sjer undan að greiða það, sem henni bar skylda til á þessu ári. En þetta er mælt af ókunnugleika, því að stjórnin hefir nú nýlega komist að samkomulagi við landsspítalanefndina, og er hún nú fyllilega ánægð. — Annað, sem þessi hv. þm. lagði mikið upp úr, var það, að hann hugði mig hafa viðhaft einhver óviðurkvæmileg orð eða hótanir um að beita þrjósku og virða vilja Alþingis að vettugi. Nei, í orðum mínum lá ekkert slíkt. Stjórnin ætlar að fara sínu fram, því að hún álítur sig þegar búna að gera þær ráðstafanir, sem þarf til að standa við öll gefin loforð. En um það atriði, sem hv. þm. nefndi og hjelt, að jeg væri eitthvað veill í og vildi tryggja mjer útgöngudyr, þá voru það mín orð, að aðalbyggingunni skyldi lokið snemma á árinu 1930. Það er betra að lofa ekki of miklu, og jeg vænti að geta staðið við það, sem jeg hefi sagt.