13.03.1928
Neðri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

1. mál, fjárlög 1929

Hákon Kristófersson:

* (* Ræðuhandr. óyfirlesið.) Jeg á að þessu sinni nokkrar brtt. við þennan kafla fjárlagafrv., og þó að reynslan hafi raunar kent mjer, að lítið þýði að tala fyrir slíkum brtt., ætla jeg að fara um þær nokkrum orðum.

Fyrst nefni jeg þá brtt. á þskj. 435, undir tölulið LXXIII, um að hækka eftirlaun Sigurðar Magnússonar læknis, svo að þau verði 600 kr. Hann hefir verið embættismaður í full 30 ár og mikið af þeim tíma búið við hin lægri launalög. Eftir að hækkunin kom í gildi, naut hann hennar aðeins skamma stund. Jeg vonast eftir, að hv. þdm. sjeu svo hjartagóðir, að þeir líti á það, að maðurinn er gamall, embættislaus og efnalaus, og að hann munar um þessa upphæð, þó að lítil sje. Yfirleitt er svo litið á nú, að þjóðfjelagið eigi að sjá um, að starfsmenn þess geti lifað sæmilegu lífi á elliárunum. Með núgildandi löggjöf er betur fyrir þessu sjeð en áður. Og ef borinn er saman meginhluti af embættisárum þessa manns við þann tíma, sem nú er, sjest, hve miklu verri kjara hann hefir notið en þeir, sem nú eru í embættum.

Það er fróðlegt að taka eftir því, um leið og litið er á það, að brtt. ætlar þessum gamla embættismanni ekki nema 600 kr., að kenslukona við barnaskólann hjer í Reykjavík mun hafa hátt á 3. þús. kr. árlega. Jeg er ekki að telja það eftir, en bendi aðeins á það til að sýna, að einstökum stofnunum ferst oft betur en ríkinu.

Tel jeg mig svo ekki þurfa að fjölyrða meir um þessa sjálfsögðu brtt. mína, en þykist vita, að hv. deildarmenn muni heldur kjósa að standa í rúmi með sanngirninni og rjettlætinu en að híma í skutnum, þar sem ósanngirnin og nirfilshátturinn situr.

Þá á jeg aðra brtt., sem jeg verð að fara um nokkrum orðum. Hún er um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni handa Suðurfjarðahreppi. Þegar verið var að stofna til þessa framfarafyrirtækis, lágu fyrir áætlanir um, að það mundi kosta 50 þús. kr. Skömmu síðar gaus stríðið upp og olli það svo miklum truflunum, að engar áætlanir stóðust, hve skynsamlegar sem þær voru. Hvert óhappið rak annað og kostnaðurinn komst að lokum upp í 115 þús. kr. Það segir sig sjálft, að fámennu sveitarfjelagi er ofvaxið að rísa undir slíkum bagga. Enda reyndist það svo, að hreppurinn var að sligast undir þessu; fleiri óhappaöldur steðjuðu að; hreppurinn tapaði miklu fje og varð að fá lán úr bjargráðasjóði, til þess meðal annars að greiða nauðsynleg útgjöld, svo sem sýslusjóðsgjald o. fl. Af því láni hefir hreppurinn ekki getað borgað vexti undanfarið; það, sem hann hefir getað látið af höndum, hefir farið upp í víxillán og veðdeild Landbankans. Jeg verð að segja það, þó að mjer þyki það leitt, að það lá næst að láta ríkissjóð sitja á hakanum. Auðvitað veit jeg, að þeir þm., sem á móti eru þessari brtt. minni, munu kalla þetta eftirgjafafargan, en það er varla frambærilegt; þessu er í hóf stilt og sjálfsagt í raun og veru að hlaupa undir bagga með hreppnum, með því að hann var á sínum tíma brautryðjandi og rjeðist í fyrirtæki, sem fyrir ófyrirsjáanlegar orsakir fór fram úr áætlun. Og hingað til hefir það verið skoðað sem sjálfsögð sanngirni að gefa eftir af slíkum lánum, þegar hreppsfjelög hafa bundið sjer svo þunga bagga, að þau hafa ekki getað undir risið fyrir viðburðanna rás. Hreppsnefndin hefir skrifað hv. fjvn. rækilegt erindi um málið, sem jeg býst við, að allir nefndarmennirnir hafi kynt sjer til hlítar, og fer því ekki út í það. En jeg vil slá því föstu, að það er sjálfsagt að verða við því að veita þessa eftirgjöf, og vona jeg, að deildin bregðist því drengilega við.

Þá er það brtt. 458, undir 2. tölulið. Þar er ekki farið lengra en svo, að við till. bætist, að eftirgjöf verði veitt á vöxtum og greiðslufrestur á afborgunum árin 1925–1929. Vona jeg, að þessi varatillaga verði samþykt, ef hin nær ekki fram að ganga, því að það er hreppnum algerlega um megn að standa straum af þessu láni án allra ívilnana. Samt er jeg svo bjartsýnn að gera ráð fyrir, að deildin sýni þá sanngirni í þessu máli að samþ. að- altill. Þó að fjvn. hafi brugðist trausti mínu í því efni, þori jeg óhræddur að bíða dóms deildarinnar og fjölyrði því ekki frekar um þetta.

Þá er það brtt. 435, undir XC. tölulið. Hún er um það að gefa stj. heimild til að kaupa húseign Einars M. Jónassonar á Patreksfirði, ef svo þykir henta. Það er kunnugt, að Einari var vikið frá embætti og að hann flytur að öllum líkindum úr plássinu, og þar sem ríkissjóður á töluvert fje hjá honum, er það í alla staði sanngjarnt, að ríkið kaupi húsið, ef það fæst fyrir sanngjarnt verð. Þetta er ekki annað en sjálfsagður greiði og hefir engin útgjöld í för með sjer fyrir ríkissjóð. En með þessu er eigandanum gert hægra fyrir með að losna við eignina, því að jeg býst ekki við, að nokkur íbúi Patreksfjarðar geti keypt hana.

Það er gert ráð fyrir, að húsið verði selt eftir mati, sem viðkomandi mun fúslega ganga inn á að selja það eftir. Það eru fordæmi fyrir því, að ríkissjóður kaupi hús handa sýslumönnum, og þó að jeg viðurkenni, að ekki sje heppilegt að ganga inn á þá braut, sje jeg ekki, að neitt hættulegt sje við það að veita þessa heimild, þar sem þetta er ríkissjóði algerlega að skaðlausu.

Þá á jeg ekki fleiri brtt., sem jeg þarf að drepa á. Að minnast á brtt. einstakra þm. sje jeg enga ástæðu til. Það er hlutverk frsm. fjvn. og hlutaðeigandi þm., enda býst jeg ekki við, að það hafi mikið að segja, þótt jeg færi að leggja orð í belg. Þó get jeg ekki stilt mig um að lýsa samúð minni með brtt. þeirri, sem hv. 1. þm. Reykv. (MJ) flytur um viðbótarstyrk til Íþróttasambands Íslands. Jeg hefi verið svo heppinn að vera viðstaddur íþróttasýningu þessara ungu og efnilegu Íslendinga, og jeg verð að segja það, að sú skemtun átti vel við mitt skap. Þessir ungu menn, sem stunda fagrar og heilsusamlegar íþróttir, eru boðberar út um sveitir landsins, og því er sjálfsagt, að ríkið styrki þá í starfsemi sinni. Jeg vil mæla hið besta með þessu og vona, að deildin samþ. það.

Jeg held, að jeg hafi þessa ræðu ekki lengri, en ef einhver hv. þm. vill ósanna það, sem jeg hefi sagt í sambandi við þessar brtt. mínar, þá mun ekki standa á mjer til að rökstyðja mál mitt enn betur. Samt geri jeg ekki ráð fyrir þeim möguleika, síst hjá sæmilega sanngjörnum mönnum.