29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (2039)

94. mál, frystihús og bygging nýs kæliskips

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vil byrja á að víkja að því, sem hv. þm. V.-Húnv. (HJ) endaði á, að samþykt þessarar tillögu gæti orðið skaðleg. Jeg vil benda á, að ekki er farið fram á annað í 2. lið þáltill. okkar en að fela stjórninni að leita samninga við Eimskipafjelagið um byggingu þessa skips. Hitt má vera, að einhverjir líti svo á, að ekki sje þörf á skipi þessu, og tekjuhalli verði á rekstri þess. En þetta getur stjórn Eimskipafjelagsins reiknað eins vel út og hv. þm. (HJ) og gefið stjórninni bendingar um það, og ef svo skyldi reynast, verður auðvitað ekki af samningum. Svo að till. ætti aldrei að geta orðið skaðleg.

Hjer er ekki um það að ræða að veita ríkisstjórninni heimild til þess að byggja skip, heldur aðeins að leita samninga við Eimskipafjelagið og sjá, hvort hún gæti komist að sæmilegum samningum við það.

Það má ef til vill deila um það, hvort þörf er á slíku kæliskipi, en jeg geri ráð fyrir því, að hún fari eftir því, hve mikið geymslurúm frystihúsin hafa, því vitanlega geta frystihúsin ekki tekið meira en þau hafa rúm fyrir. Þegar því húsin eru orðið full á sláturtíðinni, þá er ekki nema um tvent að gera, annaðhvort að taka burt úr þeim, eða hætta að frysta. Hygg jeg, að ekki sje hægt að búast við, að frystihús sjeu yfirleitt svo stór, að nægilegt rúm sje fyrir jafnmikið kjöt og geyma þarf, ef farið yrði eftir till. hv. þm. V.-Húnv. (HJ).

Að því er snertir undirtektir hæstv. forsrh. (TrÞ) get jeg verið honum þakklátur fyrir þær, að svo miklu leyti, sem hann er fylgjandi þessu máli. Skildist mjer á honum, að hann væri ekki á móti því, ef þessi till. yrði samþ., að veita á þessu ári þau lán, er farið hefir verið fram á, en þau munu samtals nema tæpum 200 þús. kr.

Hv. þm. V.-Húnv. (HJ) var að tala um það, að varast yrði að frysta of mikið. Jeg get vel skilið það, að hann muni vera ánægður, þar sem hann hefir þegar fengið frystihús. (ÓTh: Nú, hefir hann það!). En jeg vona samt, að hann verði ekki til þess að spilla fyrir öðrum og hindra, að þeir geti notið sömu gæða og hans kjördæmi. Þykir mjer sennilegt, að bændur í ýmsum hjeruðum, þar sem ekki eru frystihús, hefðu fengið sama verð fyrir kjöt sitt og þeir, sem voru svo hepnir að hafa þau, hefði ekki vöntun á frystihúsi orðið til þess, að þeir urðu að salta kjötið, og fengu þess vegna lægra verð. Get jeg því ekki láð þeim, sem hjer eiga hlut að máli, þó þeir vilji fá þessi hús sem allra fyrst og sjeu fúsir að leggja nokkuð á sig í því skyni, því það er full ástæða til að ætla það, að fryst kjöt verði í töluvert hærra verði en saltað kjöt. Því hefir líka verið spáð, að saltkjöt mundi hækka, eftir því sem meira væri fryst og flutt þannig út. Þetta er nú að vísu ekki ótrúlegt, en þó var það svo í haust, að verð á saltkjöti hefir aldrei verið lakara í Noregi en þá, og var þó búist við því, að útflutt, fryst kjöt mundi verða með mesta móti. Þetta virðist því ekki styðja þá tilgátu, að verð á saltkjöti muni hækka, enda verður líka að taka tillit til þess, að notkun saltaðrar vöru er nú mjög að minka í heiminum. Þykir hún bæði óhollari og verri.

Bágt á jeg með að trúa því, að það muni spilla nokkru hvað verðið snertir, þó okkar kjöt komi ört á markaðinn í Englandi. Okkar kjötframleiðsla er ekki nema dropi í hafið handa þeim miljónum, er búa í London einni. Jeg man það, að þá er Coghill keypti hjer marga farma af sauðum, og landsmenn undruðust hvað hann keypti mikið, þá sagði hann, að þótt hann flytti út alt fje á landinu, væri það ekki munnbiti handa hverjum íbúa Lundúnaborgar. Hinsvegar er sjálfsagt að taka undir það með hv. þm. V.-Húnv. (HJ), að ekki er vert að hrapa að neinu í þessu efni. En þegar þau hjeruð, er ekki hafa frystihús, vilja leggja mikið á sig til þess að koma þeim upp, og geta á þann hátt framleitt betri vöru, sje jeg ekki, að hægt sje að spyrna á móti því, enda væri það algerlega rangt. Mun jeg því verða manna síðastur til þess. Virtist mjer líka, að hv. þm. V.-Húnv. (HJ) væri í raun og veru ekki á móti fyrri lið till. (HJ: Nei, en till. er óþörf). Hún var ekki óþörf, er við bárum hana fram, og jeg veit ekki til, að svo mikið hafi breyst síðan, að hún geti verið óþörf nú. Annars veit jeg ekki, hvað hæstv. fjmrh. (MK) vill leggja mikið fje til þessa, en hitt veit jeg, að hann er máli þessu hlyntur.

Annars finst mjer ekki laust við, að mótsagnar kenni hjá hv. þm. V.-Húnv. (HJ), miðað við það. hvernig hann talaði og greiddi atkv., þegar rætt var um strandferðaskip hjer á dögunum. Þá greiddi hann atkv. með því, að veitt yrði stórfje til Strandferðaskips, en nú er hann á móti því, að leitað verði samninga um nýtt skip. Nú mun þó enginn neita því, að nokkuð batni strandferðir, ef þetta skip kemur. (HJ: Ætli það verði nú heppilegt til strandferða ?). Það má vel vera, að það sje ekki sem heppilegast til þeirra hluta. En það hygg jeg að hv. þm. (HJ) sje ljóst, að t. d. skip Eimskipafjelagsins eru ekki sjerstaklega bygð fyrir strandferðir, og annast þau þó strandferðir að ekki svo litlu leyti. Munu þau jafnvel flytja fleira fólk með ströndum fram en Esja, og sýnir það best, hvort fólki þykir vont að ferðast með þeim eða óhentugt. Auk þess flytja þessi skip oft vörur beint til smærri hafna hjer á landi, frá útlöndum, og skipa þar strax upp vörunum, og má nærri geta, hvort það er ekki þægilegra og ódýrara heldur en að skipa þeim fyrst upp í stóru höfnunum og flytja þær síðan í smærri hafnirnar á strandferðaskipum. Þetta hlýtur hv. þm. að geta skilið. — Að öðru leyti er ekki ástæða til, frá mínu sjónarmiði, að svara hv. þm. V.-Húnv. (HJ).