29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (2040)

94. mál, frystihús og bygging nýs kæliskips

Ólafur Thors:

Fyrri flm. þessarar till., er hjer er til umr., (MG) hefir þegar svarað mörgu af því, sem jeg mundi annars hafa svarað, og þar með tekið af mjer ómakið. Vil jeg taka undir það með honum, að jeg er þakklátur hæstv. forsrh. (TrÞ) fyrir undirteknir hans í þessu máli. Sjerstaklega er jeg þakklátur honum fyrir þau ummæli hans, að honum sje ljúft að tala við mig um þá hlið þessa máls, er að sjávarútveginum veit. Vænti jeg mjer nokkurs árangurs af því, ef hann vill fara að mínum ráðum í þeim efnum.

Hv. þm. V.-Húnv. (HJ) flutti deildinni þær mikilsverðu upplýsingar, að það væri rangt hjá mjer, en rjett hjá sjer, sem við höfðum sagt um tölu útfluttra skrokka s. 1. ár. Hafði jeg sagt, að þeir hefðu verið 25 þús., en hann sagði, að það hefði ekki verið nema 23½ þús. Tek jeg þessari leiðrjettingu þakksamlega, en held þó, að hún sje röng. Gæti formaður S. Í. S. gefið upplýsingar um þetta, ef hv. þm. telur, að það hafi svo afskaplega mikla þýðingu fyrir þetta mál, hvort rjettara er. Annars var það bert af ummælum hv. þm. að hann hafði ekki hugsað þetta mál, og auk þess misskilið mig. Það, sem jeg sagði, var það, hvort hagkvæmara væri að auka farkostinn eða stækka geymslurúm á landi, því annaðhvort væri óhjákvæmilegt að gera.

Hv. þm. V.-Húnv. (HJ) sagði, að slátrað væri hjer 120 þús. fjár árlega, er hæft væri til frystingar, og skal jeg ganga út frá því, að það sje rjett. Ef nú er miðað við það, að Brúarfoss geti aðeins farið eina ferð á sláturtíðinni, verður niðurstaðan sú, að geymslurúm frystihúsanna verður að vera svo mikið, að það rúmi alt, sem frysta þarf, að undanteknum 35 þús. skrokkum. Nú munu stærri frystihús frysta 1 þús. skrokka á dag, en geymslurúm þeirra er aðeins fyrir 10 þús. kroppa. Ef við gerum nú ráð fyrir því, að sláturtíðin standi í 24 daga, ættu slík frystihús að geta fryst mest 24 þús. skrokka, en geymslurúm þeirra er aðeins fyrir 10 þús. Hlutfallið milli geymslurúms frystihúsanna og þess, er þau geta fryst, yrði þá 5:12. Nú þarf geymslan að rúma það, sem hægt er að frysta, að frádregnu því, er flutt er burt í sláturtíðinni, eða g (geymslan) er = f (mesta frystimagn) =a (því, sem afljett er í sláturtíðinni). Hjer er auðleyst líking, er sýnir, hve mikið frystimagnið má vera, svo að hvorki þurfi að stækka geymslurúm nje auka farkostinn. g = 5/12 f ; g = f ÷ a; a = 35 þús.; (ein ferð Brúarfoss); g = f = 35 þús., 5/12 f = f = 35 þús.; 35 þús. = f ÷ 5/12 f = 7/12 f; 7 f — 12 X 35 þús. = 420 þús; f = 60 þús., eða með öðrum orðum, frystimagnið má vera 60 þús., en ekki 120 þús., sem hv. þm. þó gerir ráð fyrir að vel geti orðið, án þess að auka þurfi farkost eða stækka geymslu. Það er því ljóst, að annaðhvort verður bráðlega að auka farkostinn eða stækka geymslurúm frystihúsanna. Því fullvíst er, að innan skamms verða frystihúsin orðin það mörg hjer á landi, að frystimagn þeirra verður talsvert yfir 120 þús. skrokkar.

Jeg held, að jeg hafi skilið það rjett, að hv. þm. taldi, að rjettara væri að auka geymslurúm frystihúsanna, því hann sagði, að nauðsynlegt væri að geta geymt kjötið, svo það kæmi ekki alt á neyslustaðinn á sama tíma og orsakaði verðfall á kjötmarkaðinum. En jeg held, að það skifti engu máli, þó alt íslenska kjötið kæmi á breska markaðinn í einu. Það mundi engin áhrif hafa á verðið, og þarf því ekki að varast það þess vegna. Hitt gæti aftur á móti verið aðgætandi, hvort verðið Englandi er lægra þennan mánuð en aðra. Hv. þm. V.-Húnv. (HJ) sagði, að ekkert vit væri í því að senda alt kjötið til Englands meðan sláturtíðin stæði yfir, vegna þess, að verðið væri þá lægra. Jeg er nú ekki svo fróður, að jeg geti sagt um það, hvort markaðurinn er í raun og veru verri þann tíma. En ef svo er, þá vil jeg biðja hv. þm. að gefa mjer upplýsingar um það, hvers vegna það hefir verið gert undanfarið, því til þess hefir enginn nauður rekið. En að það hefir verið gert bendir til þess, að markaðurinn sje ekkert verri um það leyti árs, enda hafa fróðir menn sagt mjer, að svo sje.

Þá virtist mjer koma fram mjög undarlegur misskilningur hjá hv. þm., er hann var að tala um það, að meiri rekstrarhalli mundi verða á nýju kæliskipi en strandferðaskipunum, En sá halli, er verður á strandferðaskipunum, á að greiðast úr ríkissjóði, en Eimskipafjelag Íslands yrði að greiða halla af kæliskipinu. En hjer er tæplega um slíkt að ræða, því þetta verður því aðeins framkvæmt, að hægt sje að komast að heppilegum samningum við Eimskipafjelagið og það sjái sjer fært að reka þetta án verulegs halla.

Hv. þm. endaði ræðu sína með því að benda á, að þessi till. væri alveg þýðingarlaus og jafnvel skaðleg. Þetta finst mjer heldur barnaleg staðhæfing. Till. okkar fer fram á tvent: 1) Að leita samninga við Eimskipafjelag Íslands um nýtt kæliskip. Slíkt getur aldrei verið skaðlegt, og jeg hefi sannað, að það er nauðsynlegt, ef geymsluklefar frystihúsanna verða ekki stækkaðir, og jafnvel þótt svo verði. 2) Að hækka framlag til frystihúsa. Síðan till. okkar kom fram hafa flokksmenn hv. þm. V.-Húnv. (HJ) í Ed. borið hið sama fram í fjárlögum, svo varla er það skaðleg, og nauðsynlegt, ef till. Ed.-manna verður feld.

Hv. þm. gat þess, að ef það væri rjett, sem jeg hafði sagt, að komið hefðu umsóknir um lán til að byggja frystihús, er tækju 90 þús. skrokka, þá væri á þann hátt að mestu leyst úr þessu máli. En hv. þm. verður að gæta að því, að það er ekki hægt að frysta kjötframleiðslu bænda á Suðurlandsundirlendinu í frystihúsi norður í Þingeyjarsýslu. Hitt get jeg fallist á, enda hafði jeg sagt það áður, að nauðsynlegt væri að gæta hófs í þessum efnum. Því þó nauðsynlegt sje að frysta kjötið meðan aðeins lítill hluti þess er frystur, þá er það ekki sönnun þess, að rjett sje að frysta það alt. Það getur vel verið, að heppilegra væri, að frystihúsin væru víðar, en ekki svo mjög stór. Aftur á móti mætti ef til vill komast hjá því að tryggja sjer kæliskip, ef undið væri að því að hafa geymslurúm húsanna stærra. En tilgangur till. okkar er einmitt sá, að ýta undir, að þetta verði rannsakað gaumgæfilega. Það vakir líka fyrir okkur að finna leið til þess að koma kjötinu á nýjan markað, svo við verðum ekki eins háðir Norðmönnum hvað fiskiveiðalöggjöfina snertir, og að hægt verði að losa landbúnaðinn við þá hættu, sem stafar af því, að hafa aðeins einn kaupanda að aðalframleiðslu sinni.