29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2041)

94. mál, frystihús og bygging nýs kæliskips

Hannes Jónsson*):

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) talaði um, að neysla á söltuðum vörum færi altaf minkandi í heiminum. Jeg vil í sambandi við þetta benda honum á, að saltkjöt er oft eins dýrt í Noregi og nýtt kjöt, og jafnvel dýrara. Enda vilja Norðmenn ógjarnan missa af íslenska saltkjötinu. Jeg teldi það óheppilegt og óhagkvæmt fyrir Íslendinga, ef hætt væri að selja saltkjöt til Noregs, því að þangað er hægt að selja kjöt, sem hvergi annarsstaðar mundi verslunarvara, hvorki saltað nje fryst. — Hv. þm. sagði, að alt okkar útflutta kjöt væri ekki nema munnbiti í Englendinga. Þetta mun vera rjett, en það er síður en svo, að það sanni, að við eigum að hafa það alt á boðstólum í einu. Allra síst væri hyggilegt að gera það á þeim tíma, sem erfiðast er að selja kjöt, meðan slátrunin stendur yfir og mestur er innflutningur annarsstaðar að á frystu kjöti. Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) spurði, hví þetta hefði verið gert undanfarin ár. Þar er því til að svara, að okkar högum er svo háttað, að við getum ekki slátrað fjenu á öðrum tíma en í september og október. En það hefir ekki getað komið til mála að skifta sendingunum niður, þannig að senda sumt á þessum tíma og sumt ekki fyr en eftir nýár, með því að svo litlu hefir verið slátrað í hvert sinn, að það hefir ekki einu sinni verið nóg í skip, hvað þá til skiftanna. En sendingarkostnaðurinn verður því minni, sem nær kemst því, að heilir farmar sjeu sendir í einu. Þótt hv. þm. sje þetta ekki ljóst, þá hefir það verið mjög ljóst fyrir framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins. — Jeg þykist nú hafa svarað fyllilega því, er hv. 2. þm. G.-K. sló hjer fram, hvers vegna ekki hefði verið fylgt þeirri reglu, sem jeg tel heppilegri um útflutninginn á hinu frysta kjöti, að dreifa því yfir sem lengstan tíma. Það verður að flytja út eins mikið og hægt er í hverri ferð, til þess að draga úr kostnaðinum við flutninginn. — Annars hefi jeg fáu að svara. Það var held jeg hv. 2. þm. G.-K., fremur en hv. 1. þm. Skagf., sem gat þess, að þótt Eimskipafjelag Íslands tapaði eitthvað á að koma upp þessu skipi og starfrækja það, þá væri það ekki tap ríkissjóðs. En þetta er ekki annað en orðaleikur. Jeg hygg, að landið verði að hlaupa undir bagga, ef svo fer, að Eimskipafjelagið getur ekki borið sig. Þó að tapið á þessu skipi yrði ekki meira en svo, að það yrði borið uppi af öðrum skipum fjelagsins, þá leiddi það þó til þess, að fjelagið gæti ekki greitt neinn arð. — Jeg vil nota tækifærið til að spyrja hv. 1. þm. Skagf., hvort hann hafi ekki talað um þetta við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, og hvaða svör hann hefir fengið, ef hann hefir spurt. Jeg gæti hugsað mjer, að hann hefði fengið þau svör hjá fjelaginu, að ekki kæmi til mála, að það rjeðist í kaup á nýju frystiskipi. Og ef hv. þm. hefði fengið slíkt svar, sýnist mjer einkennilegt að vera að koma með svona tillögur inn á Alþingi. Jeg hefi vissu fyrir því, að Eimskipafjelagið á fult í fangi með að fá flutning í núverandi skipakost sinn, og að það hefir að jafnaði ekki nægar vörur í frystirúmin. — Máske geta aðrir hv. þm. gefið einhverjar upplýsingar, og væri þá gott að heyra þær. — Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það gæti ekkert gert til, þótt stjórninni væri falið að leita samninga við Eimskipafjelagið. Ef engir samningar næðust, þá yrði ekki neitt úr neinu. En ef það má teljast fyrirfram víst, að ekkert verði af samningum, þá veit jeg ekki, til hvers er verið að tefja tíma þingsins með svona tali. Það er til þess að draga fólk á tálar úti um landið, þar sem menn hafa ekki eins góðan skilning á þessum efnum og ætlast mætti til af alþingismönnum. Það gæti jafnvel orðið til að koma af stað hjá fólki heimskulegum kröfum í þessu efni. — Hv. 2. þm. G.-K. var að skopast að leiðrjettingu minni á tölum hans. Jeg býst við, að þessi leiðrjetting mín sje nokkuð rjett, og jeg get gjarnan leiðrjett fleira hjá honum, t. d. um stærð húsanna. Jeg hygg það sje ekki nema ef til vill eitt hús, sem hefir þessa stærð, sem hann talaði um, að geymi rjett 10 þús. skrokka. Húsið á Akureyri er stærra; það tekur að minsta kosti 13 þús. skrokka.

Annars fanst mjer ræða þessa þm. bera þess þó nokkrar menjar, að hann sje lítið kunnugur þessum málum yfirleitt, og það er ekki nema vorkunn, þó að ýmislegt kæmi fram hjá honum, sem leiðrjettingar þyrfti. Hann talaði um, að nauðsyn bæri til að hafa húsin stór, ef ekki væri aukið við skipakostinn. Jeg hefi nú bent á það, að það má að minsta kosti altaf þrefalda útflutninginn, án þess að bæta við skipum. Jeg hefi talað við Nielsen framkvæmdarstjóra og fengið enn nánari upplýsingar um það, hvað skipið taki, og hann fullyrðir, að það taki 40 þús. skrokka. Jeg býst við, að altaf verði eitthvað af rúmi ónotað, en hygg þó, að þrefalda megi þann útflutning, sem verður með „Brúarfossi“ í tveimur ferðum. Það er því enn nokkuð langt þangað til þörf er á því að hafa húsin stærri en helming þess rúms, sem þarf til þess að taka á móti öllu fje, sem berst að yfir haustið. Þó vil jeg segja það, að jeg tel ekki tryggilegt að hafa húsin ekki stærri en fyrir helming allra útfluttra skrokka á svæðinu yfir haustið, því að altaf getur komið fyrir — að minsta kosti fyrir norðan land — að skipi seinki af ýmsum ástæðum, og verða þá húsin að vera það rífleg, að aldrei rekist á.

Jeg held jeg hafi ekkert frekar að segja um þetta, en óska að fá svarað þeim fyrirspurnum, sem jeg bar fram fyrir hv. 1. þm. Skagf. (MG). Jeg geri ráð fyrir, að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sætti sig við það, sem jeg hefi sagt um hans ræðu; jeg fer ekki út í einstaka liði hennar, af því að jeg finn, að það er tiltölulega erfitt að rökræða við hann um þessa hluti, af því að hann þekkir alt of lítið til þessa máls til þess að geta tekið þátt í þessum umræðum, sem kom berlegast í ljós, þegar hann talaði um meðferð kjötsins.

(* Ræðuhandr. óyfirlesið.)