29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2042)

94. mál, frystihús og bygging nýs kæliskips

Ólafur Thors:

Mjer þykir heldur vera farið að togna úr þessum hv. þm. (HJ) hjer í deildinni, þegar hann getur ekki talað við mig vegna þekkingarskorts. Heyr á endemi!! (HJ: Á þessu máli). Skárri er það nú spámaðurinn, ekki fyrirferðarmeiri en hann er. Það var nú svei mjer hroki, þetta. Jeg hefði ekki trúað, að annar eins gorgeir kæmist fyrir í honum.

Jeg skal segja þessum hv. þm., að þar sem hann talaði um, að orð mín um meðferð kjötsins lýstu mest vanþekkingu minni, þá hafði jeg þetta frá fróðasta manni í þessum efnum, aðalmanni samvinnufjelaganna á þessu sviði. Jeg var í London, þegar „Brúarfoss“ var þar með kjötið, og jeg hafði þann áhuga fyrir þessu máli, að jeg skoðaði kjötið oft og heyrði á tal manna um það, svo þótt mín þekking að vísu sje ekki fullkomin, er hún þó fullkomlega samboðin hv. þm. V.-Húnv. (H.J). Hann verður því, þessi háttvirti hrokafulli þingmaður, að beina sínum óskapa-vísdómi til annara en mín.

Annars vil jeg benda á örfá atriði í hans ræðu, sem sýna, að honum væri full þörf að fræðast meira. Og það skal jeg segja hv. þm., að þó að jeg hafi í dag lýst yfir því hjer í deildinni, að jeg væri betur að mjer í öðrum efnum en þessu, þá leiðir ekki af því, að jeg komi einungis með staf í hendi móti þessum kappa.

Hv. þm. hafði staðhæft í fyrri ræðu sinni, að það væri fásinna að flytja út alt fryst kjöt á haustmánuðum, af því að þá væri verðið miklu lægra á Bretlandi heldur en aðra mánuði ársins. Þetta er náttúrlega út af fyrir sig rangt. Það er engin föst regla um þetta. Jeg beindi til hans þeirri fyrirspurn, hvers vegna þetta hefði þó verið gert. Hann svarar því nú og þykist hafa fundið almenna lausn á málinu: af því að flutningskostnaður er minni, ef mikið er flutt í einu. Jeg benti honum á, að í hvorugri ferðinni fór „Brúarfoss“ með hálffermi. Hvers vegna? Og í öðru lagi hygg jeg, að ef um verulegan verðmun væri að ræða, þá væri betra að borga lítið eitt hærra flutningsgjald heldur en að afsala sjer miklu hærra verði en hægt er að fá á öðrum tímum.

Hv. þm. vildi leiða rök að því, að tap Eimskipafjelagsins á væntanlegu kæliskipi væri tap ríkissjóðs. Hann meinar þetta ekki; en hann er að reyna að breiða yfir vanþekkingu þá, sem kom fram í fyrri ræðu hans, þar sem hann ruglaði saman strandferðaskipinu, sem er rekið fyrir ríkissjóðsreikning, og væntanlegu kæliskipi, sem verður rekið fyrir reikning Eimskipafjelagsins. Jeg vil benda honum á, að í fyrsta lagi er ekkert sannað um það, að tap Eimskipafjelagsins á einstökum skipum sje tap ríkissjóðs, því að sú var tíðin, að Eimskipafjelagið gat bjargað sjer sjálft, og svo getur enn orðið. Hv. þm. ætti ekki að vera með neinar hrakspár eða að stimpla þjóðþrifafyrirtæki sem betlara, þó að ríkissjóður hafi talið sjer skýlt í erfiðu árferði að hlaupa undir bagga. Auk þess ræður það að líkum, að ef Eimskipafjelagið getur ekki rekið slíkt skip taplaust, þá er það ekki tilleiðanlegt til þeirra samninga, sem gert er ráð fyrir.

Hv. þm. (HJ) sagði, að margfalda mætti útflutninginn án þess að meiri flutningstæki þyrfti eða stærri geymslu, og talaði þó jafnframt um, að útflutningur mundi geta numið 120 þús. kroppum. Jeg skal reikna þetta dálítið gleggra en jeg hefi áður gert, með því að sleppa líkingunni, er jeg áður reiknaði og hv. þm. sýnilega ekki skilur, en stafa mig áfram við hæfi skarpskygni og skilnings þessa hv. þm. Það er rjett, sem jeg sagði, að þau frystihús, sem frysta nær því þúsund kroppa á dag, geta geymt sem næst 10 þús. kroppa. Og ef gert er ráð fyrir 24 daga sláturtíma, er mesta frystimagn húsanna 24 þús. kroppar, en mest geymslumagn 10 þús. kroppar. Hlutföllin milli geymslumagns og mesta frystimagns eru því sem 5 á móti 12. Nú ætlast hv. þm. til, að „Brúarfoss“ fari eina för á sláturtímanum — fleiri farir getur hann ekki farið — og þá flytur hann, að jeg ætla, mest 35 þús. kroppa. Nú er það svo, að geymslumagn, að viðbættu því, sem flutt er burt meðan á sláturtíð stendur, ætti — ef öllu væri sem rjettast stefnt um arðvænlegustu hagnýting húsanna, að jafngilda mesta frystimagni. Nú er geymslumagn sama og 5/12 af mesta frystimagni. Það, sem burt er flutt, 35 þús. skrokkarnir, eru þá 7/12 af mesta frystimagni, en af því leiðir þá, að mesta frystimagn verður 60 þús. kroppar. En hv. þm. (HJ) gerir ráð fyrir, að hjer geti verið um að ræða, ekki 60 þús. kroppa, heldur 120 þús., svo að honum hefir skotist þarna — þessum skýra og vel mentaða þingmanni — um rjettan helming. Jeg er ekki viss um, að hann hefði verið alveg svona bólginn eins og hann var. hefði hann verið búinn að athuga þetta.

Jeg skal svo ljúka minni stuttu athugasemd með því að óska honum þess, að hann sýni betri gaumgæfni í þessu máli áður en hann fæst við að menta. mig eða aðra hv. þm. í deildinni, og að honum megi skiljast, að slíkir sveinstaular sem hann eru hjer á Alþingi lærisveinar en ekki lærifeður.