13.03.1928
Neðri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

1. mál, fjárlög 1929

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi ekki að þessu sinni komið fram með margar till. til útgjalda, því að mjer hefir virst fjárhagurinn svo, að ekki væri rjett að ýta mikið undir aukin útgjöld. Jeg ætla þess vegna að vona, að þær fáu brtt., sem jeg ber fram, mæti sem bestum undirtektum.

Brtt. 435,XXXIV flyt jeg ásamt hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Þessi till. fer í þá átt að auka allverulega styrkinn til Staðarfellsskólans. Það virðist vera nokkurnveginn samhljóða álit manna, að eitthvað af því besta, sem hægt sje að gera fyrir sveitirnar, sje það að koma þar upp slíkum húsmæðraskólum. Nú hefir tekist svo vel til á Staðarfelli, að þangað hefir valist forstöðukona, Sigurborg Kristjánsdóttir, sem hefir sýnt sjerstaklega mikinn dugnað í forstöðu skólans þann stutta tíma, sem hún hefir haft hana á hendi. Og aðsókn að skólanum hefir reynst svo mikil, að engin tök hafa verið á að veita móttöku eins mörgum nemendum og sótt hafa um skólavist. Nú sem stendur er ekki hægt að taka við fleiri en 14 nemendum. En sú krafa er gerð samkv. reglugerð skólans, að við hann starfi 2 kenslukonur auk forstöðukonu, og verður skólinn því tiltölulega dýr í rekstri. Það kemur niður á nemendum. Hver námsmær verður að borga í skólagjald 70 kr. á mánuði. Það er of há upphæð. Bændur, sem vilja senda dætur sínar í skóla, hafa ekki ráð á því að kosta svo miklu til, enda er mjer kunnugt um, að í mínu kjördæmi, sem hefir þó sjerstök skilyrði til þess að geta notfært sjer skólann umfram önnurhjeruð, þykir þetta of hátt gjald. Þess vegna er farið fram á þennan aukna styrk til skólans. Meiningin er sú, að hægt verði að veita fleiri námsmeyjum skólavist og láta þær borga minna með sjer. Till. fer fram á 5000 kr. rekstrarstyrk, eða 1000 kr. í viðbót við það, sem er, og auk þess er gert ráð fyrir alt að 1000 kr. með námsmeyjum, 65 kr. fyrir hverja. Er það í samræmi við Blönduósskólann, er auk þessa nýtur 14 þús. kr. styrks úr ríkissjóði. Þegar þess er gætt, sjá allir, hve kröfum þeim, er í þessari till. okkar felast, er í hóf stilt.

Þá er enn til húsabóta beðið um 2500 kr. Sá styrkur er ætlast til, að gangi til þess að koma upp útihúsum, þar sem kaupafólk og vinnufólk geti búið. Við það mundu 4–5 námsmeyjar í viðbót geta sótt skólann.

Hinn merki heiðursmaður Magnús Friðriksson, sem gaf landinu eignarjörð sína, Staðarfell, setti það sem skilyrði með gjöfinni, að þar kæmist skóli á stofn. Það var og er hans áhugamál, að sá skóli megi verða sem fullkomnastur. Jörðin Staðarfell er hlunnindajörð. Það hefir tekist svo vel til, að bróðir forstöðukonu skólans hefir tekið að sjer að standa þar fyrir búi. Hann hefir reynst afbragðs duglegur bústjóri, sýnt mikinn áhuga fyrir ræktun jarðarinnar og hafið framkvæmdir í þá átt, enda er hann orðlagður dugnaðarmaður. Þannig er ekki aðeins skólinn sjálfur, heldur og jörðin, sem er eign ríkissjéðs, í svo góðum höndum sem frekast verður kosið, svo að búast má við, að verðgildi þessarar eignar aukist stórkostlega á skömmum tíma. Til þess að þeir starfskraftar, sem þar eru að verki, geti notið sín, vona jeg, að háttv. Alþingi sjái sóma sinn í að skera ekki við neglur sjer styrk til þessa skóla. Veit jeg, að mikill áhugi var fyrir skóla á Staðarfelli áður en upp komst, og vona jeg, að sá áhugi hafi ekki dofnað við það, hve vel tókst valið á forstöðukonu skólans, hve vel byrjunin hefir tekist í hennar höndum og ennfremur það, að svo mikilvirkur maður skyldi ráðast til bústjóra á skólabúinu.

Því ætla jeg að treysta því, að hv. deild verði við þessum kröfum, sem svo mjög er í hóf stilt, svo að brtt. okkar hv. þm. N-Ísf. verði samþykt. Afleiðingin af því mundi verða sú, að, lægri skólagjöld yrðu krafin af nemendum, og veit jeg það, að hv. deild leggur ekki svo litla áherslu á það.

Önnur brtt. mín er á sama þskj. XLIII. Hún fer fram á, að Stefáni frá Hvítadal sje veittur 2000 kr. skáldastyrkur. Jeg geri ráð fyrir, að spurt verði, hvort sjerstakar ástæður sjeu fyrir hendi til þess að veita þennan styrk eða aðra slíka styrki yfirleitt, er svo oft hafa hlotið hið óvirðulega nafn — bitlingar. Spurningin er þá þessi: Er sá maður, sem hjer um ræðir, slíkt skáld, að ástæða sje til þess að styrkja hann þess vegna? Ef hann væri það ekki, þá væri það ekki verjandi að koma með slíka till. En til þess að sýna, að maðurinn er skáld, vil jeg minna á nokkur þau skáldrit, sem hann hefir til þessa gefið út. Þau eru Söngvar förumannsins, Óður einyrkjans og nú síðast Helsingjar. Hver þessara bóka um sig er nóg skilríki til þess að slá því föstu, að hjer er skáld á ferð. Seinasta bókin hans hjet Helsingjar. Og þegar hún kom út, skeði það merkilega, að blöðin okkar, sem mjer er óhætt að segja, að eru ekki altaf sammála um alt, voru öll á einu máli um það, að þessi bók væri skáldverk. Jeg man ekki betur en allir ritdómar í öllum blöðum færu í sömu átt. Og sannleikurinn var líka sá, að það var ómögulegt annað en viðurkenna bókina. Það var ómögulegt annað en slá því föstu, að höfundurinn væri ekki aðeins skáld, heldur stórskáld. Jeg vildi jeg mætti lesa upp nokkur kvæði úr þessari bók, en jeg má það ekki, því að ekki er vert að tefja fundinn meira en þörf gerist. Jeg get samt ekki stilt mig um að lesa seinustu vísuna úr kvæðinu „Þjer skáld“. Það er langt frá því, að það sje það besta, sem í þessari bók stendur. En það er út af ummælum, sem jeg kem að síðar. Þetta erindi hljóðar svo:

Í frama lifðuð þjer fæstir

og fjelluð móðir úr seti.

Þjer ættuð að rísa og sjá yður sjálfa

í sóldýrð á Hofmannafleti.

— Þjer eruð dýrlingar dagsins,

nú dá yður menn og víf. —

Með andlátsfregninni orðstírinn hófst

— með útfararsálminum jarðneskt líf.

Þessar tvær síðustu ljóðlínur „með andlátsfregninni orðstírinn hófst — með útfararsálminum jarðneskt líf“ það eru línur, sem ætti að veita eftirtekt, því að þegar jeg lít yfir okkar sögu, þá dylst mjer ekki, hve oft líf okkar ágætismanna hefir eiginlega ekki byrjað fyr en eftir dauðann. Allir þekkja æfi Bólu-Hjálmars. Hver voru laun hans í lifanda lífi? Sultur og seyra. Eða Jónas Hallgrímsson. Hvernig var líf hans hjer? Nú er hann frægur. Nú skilja menn, hver hann var. Ef Jónas Hallgrímsson væri nú uppi og talað væri um að veita honum skáldastyrk, mundu allar hendur vera á lofti til þess að greiða atkv. með slíkri styrkveiting.

Það munu koma þeir tímar, að það fje, sem fer til hugsjónamanna þjóðfjelagsins, skálda, listamanna o. s. frv., verður ekki lengur nefnt hinu lítilsvirðandi nafni: bitlingar. Það verður talið þarfasta fjeð, sem veitt er í fjárlögum. Það eru svo margir, sem því ver og miður tala til hins lægsta í þjóðareðlinu, að ekki veitir af, þótt eitthvað sje gert fyrir þá, sem geta göfgað hugsunarhátt heillar þjóðar. Það eru skáldin og listamennirnir, sem hafa það háleita hlutverk að vekja hið besta og göfugasta í fari þjóðarinnar. Þótt einn slíkur maður sje settur á 2000 kr. styrk, þá er það smáræði og smánarupphæð. Það hefir ætíð verið svo, þrátt fyrir alt bitlingatal, þá eigum við sem þjóð mest upp að unna skáldum og listamönnum. Það eru þeir, sem halda uppi heiðri þjóðarinnar út á við, svo að heimurinn veit, að hjer á hjara veraldar býr sjerstök þjóð með sína sjerstöku menning og sína sjerkennilegu list. Það er sá djúpi sannleikur, sem við neyðumst til að viðurkenna. Jeg held jeg þurfi ekki að halda uppi orðstír Stefáns frá Hvítadal hjer í þessari háttv. deild. Jeg held við vitum allir, að hann er skáld, mikið skáld. Um það þarf engan að sannfæra. Heyrir hann þá til þeirra skálda, sem ekki er ástæða til að styrkja? Því fer mjög fjarri. Jeg get ekki komist hjá að segja það, að Stefán frá Hvítadal er mjög fátækur maður. Þótt hann sje kendur við Hvítadal — en Hvítidalur er sem kunnugt er höfuðból —, þá á hann þar ekki heima. Hann býr í litlu koti í Svínadal við sára fátækt. Það fer ekki framhjá þeim, er þangað kemur, að fátæktin ræður þar húsum. Jeg heimsótti Stefán eitt sinn og sá það með mínum eigin augum. Meðal annars kom jeg inn í litla kompu, er hann situr í, þá er hann sinnir ritstörfum eða annari andlegri iðju. Mjer var það ljóst, að fátæktin rjeði einnig í þessari litlu kompu. En það var annað, sem mjög vakti undrun mína og aðdáun. Þrátt fyrir það, hve fátæklegt þar var um að litast, duldist ekki, að þar var listamannssmekkurinn ráðandi. Þó að jeg hefði ekki vitað, að þar bjó skáld, þá hefði verið ómögulegt annað en sjá, að hjer bjó hinn sanni listamaður, með hinn næma smekk, sem hafði gripið inn í hvert smáatriði, jafnvel það, hvernig stólunum var raðað á gólfinu og hvernig myndirnar hjengu á veggjunum. En það er ekki nóg með það, að hann sje fátækur og verði að búa við sömu kjör og ýmsir stórir listamenn á undan honum, en hann á einnig að sjá fyrir mikilli fjölskyldu, og það sem verst er, heilsa hans er ekki góð. Það er því ástæða til að samþykkja þessar litlu 2000 kr. Jeg er viss um, að hverjum einasta þm. er óhætt að greiða óhræddur atkv. með því. Enginn einasti maður hjer á landi, sem ann skáldskap og list, mun sjá eftir þessari litlu upphæð nje átelja þingmenn fyrir að veita hana. Tímarnir breytast, en gamla sagan helst, að listamennirnir verða að berjast við sult og fátækt, einkum þeir, sem mest gagn gera. Jeg vona nú, að hv. þm. mótmæli þessari gömlu sögu fyrir sitt leyti með því að greiða atkvæði með þessum litla styrk. Að jeg tók ekki til hærri upphæð, stafar sennilega af því, að jeg er sjálfur svo bundinn af þröngsýninni, er viðurkenna á andans menn, að jeg kemst ekki lengra fram úr samtíðinni en þetta. Eitt verð jeg að segja að lokum, að jeg veit, að jeg baka mjer reiði skáldsins frá Hvítadal með því að skýra hjer frá öllum hinum miklu erfiðleikum hans. Hann barmar sjer ekki sjálfur og má ekki heyra talað um fátækt sína. En jeg hefi skoðað það skyldu mína að láta Alþingi vita um þetta, svo að það í nútíðinni gæti bætt fyrir syndir sínar úr fortíðinni. Vona jeg, að hv. deild viðurkenni í einu hljóði, hvað þetta er sanngjarnt mál, með því að samþykkja þennan litla styrk.

Þá á jeg hjer eina till. á sama þskj. LXVII. lið, til Jóns Klemenssonar í Hundadal í viðurkenningarskyni 300 kr. Þessi maður er orðinn háaldraður og heilsulítill, fjekk slag síðastl. ár, en hann hefir gegnt ýmsum opinberum störfum með sóma, þar á meðal verið sáttanefndarmaður í 40 ár. Það ætti sannarlega vel við að veita þessum manni viðurkenningu, þótt lítil sje.

Þá vil jeg ennfremur gera grein fyrir atkv. mínu um till. frá hv. 1. þm. Skagf. (MG) um að veita Jóhannesi L. L. Jóhannssyni 6300 kr. til þess að safna til ísl. orðabókar. Jeg ætla að greiða atkv. með þessari till. Það er nú stundum talað um, að menn geri þetta eða hitt af „pólitískum ástæðum“. Ef jeg gerði það í þessu tilfelli, þá ætti jeg að greiða atkv. móti þessari till., því pólitískt sjeð hefir Jóhannes gert mjer alt til bölvunar, og jeg vildi gjarnan skamma hann, ef það ætti við hjer í hv. deild. En mjer finst illa með hann farið af stjórnarinnar hálfu. Jeg skal ekki dæma um vísindamensku hans. Ber ekki skynbragð á slíkt, en síst ætti hann nú að vera ver til starfans fallinn en þegar hann var í fyrstu tekinn til hans. En það er rangt, að þessi maður var tekinn frá embætti og settur í þetta starf, og það að ráði þingsins og þeirrar stjórnar, er veitti þetta. Nú er Jóhannes orðinn sjötugur og ekki að búast við, að hann geti tekið við prestsstarfi aftur nje byrjað nýtt starf. Mjer finst því kaldranalegt að setja hann þannig út á kaldan klaka og get ekki greitt atkv. með því. Það verður að taka tillit til vilja undanfarinna þinga, og því kemur ekki til mála að varpa þannig sjötugum manni út á þann kalda klaka, sem stj. hefir búið honum með hinum smáu eftirlaunum, er honum eru ætluð í stjfrv. Þetta er þá greinargerð fyrir mínu atkv. í þessu máli.