02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2069)

93. mál, niðurfelling útflutningsgjalds af síld

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Jeg get verið stuttorður, þar sem skoðun nefndarinnar er sett fram á þskj. 656. En ekki verður því neitað, að nefndin er hikandi um það, hvað eigi að gera í þessu efni. Það virðist, að menn líti svo á, að hjer sje gengið inn á varhugaverða braut með því að gefa eftir þá lögmæltu skatta, og er það rjett. En nefndin lítur svo á, að hjer standi alveg sjerstaklega á. Það hefir verið gerð grein fyrir því frá hálfu þeirra, sem stóðu fyrir sendingu síldarinnar, að þeir hafi ekki fengið það verð fyrir hana, sem þeir þurftu fyrir kostnaði. En nefndin lítur fyrst og fremst á það, að hjer er um verulega tilraun að ræða til öflunar nýs markaðs, sem sjerstaklega sje vert að taka tillit til. Þess vegna hygg jeg, að allir hv. meðnefndarmenn mínir muni mæla með því, að þessi þáltill. verði samþ. Þó skal jeg geta þess um tvo þeirra, að annar skrifaði undir með fyrirvara, og þeir greiddu í raun og veru ekki atkv. með þessu úr nefndinni. Var það sjerstaklega vegna þess, að þeir álitu, að þeir ættu sinna sjerhagsmuna að gæta; annar átti t. d. nokkurn hlut í sendingunni. En jeg held, að jeg hafi skilið þá rjett, að þeir vilji þó ekki ganga á móti þessari till., en geti fallist á, að hún nái fram að ganga.

Niðurstaða nefndarinnar er því, eins og sjá má í nál., að hún leggur frekar til, að till. sje samþykt.