13.03.1928
Neðri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Það verða nú ekki margar till. háttv. þm., sem jeg minnist sjerstaklega á. Mjer finst, að um margar þeirra megi segja hið fornkveðna: „Sumt var gaman, sumt var þarft, — en sumt vjer ekki um tölum“. Jeg álít, að í raun og veru megi vorkenna hv. þm. þetta sem hverja aðra þraut eða böl, sem þeir máske óhjákvæmilega verða að bera, að koma fram með allar þessar till., sem þeir sjálfsagt vildu fegnir vera lausir við, sumar hverjar. Það er nú sjálfsagt margt, sem veldur því, að þeir verða að bera þessar tillögur fram, t. d. vinátta eða kunnugleiki við þá menn, er eiga að njóta góðs af till., utanaðkomandi áhrif og þá sjálfsagt í sumum tilfellum sannfæring um það, að till. eigi rjett á sjer. Eins og jeg gat um áður, skal jeg þó ekki tala um margar brtt. nú, enda fer endanlega afgreiðslan ekki fram nú. Mun enn gefast tækifæri til að taka til máls um þær, þar sem Ed. á eftir að fara með þetta mál.

Að svo mæltu skal jeg snúa máli mínu til háttv. þm. Dal. (SE). Mjer skildist hann vera mjög hneykslaður af þeirri óhæfumeðferð, er hann taldi Jóhannes L. L. Jóhannsson hafa orðið fyrir frá stjórnarinnar hálfu, er hún samdi fjárlagafrv. sitt. Jeg veit, að þessi hv. þm. hlýtur að hafa mjög stórt og viðkvæmt hjarta, eftir þessa lýsingu hans á meðferðinni á Jóhannesi, og beindi hann sínum þungu ásökunum til mín. En jeg veit ekki, hvort hann hefir gert sjer grein fyrir því, er hann var að segja, þegar hann talaði um, að verið væri að bera þennan mann út á kaldan klaka. Jeg held, að þetta sje öfugmæli hjá háttv. þm. Mjer finst rjettara að bera þetta saman við eftirlaun annara starfsmanna ríkisins, sem int hafa af hendi langa og dygga þjónustu. Það hefði hv. þm. átt að gera, áður en hann fór að koma með þessar háfleygu hugleiðingar sínar um órjett þann, er hann taldi hjer sýndan. Þegar þetta er borið saman við kjör þau, er ýmsir aðrir sjötugir menn verða við að búa, sem eins og þessi maður eru orðnir lítt færir til starfa og verða annaðhvort að sjá um sig sjálfir eða fá lítinn eftirlaunastyrk sjer til lífsframfæris, þá er ekki hægt að segja, að illa sje farið með þennan mann. Jeg hygg, að hv. þm. hafi ekki athugað það, að auk þess, sem þessi maður fær sín embættiseftirlaun sem aðrir, þá ber stjórnin fram till. um það, að hann fái aukaeftirlaun, 1000 kr. með dýrtíðaruppbót. Þegar hv. þm. athugar þetta, þá hygg jeg, að hann sjái það, að við erum ekki eins mikil illmenni og hann hjelt. Um till. hv. 1. þm. Skagf. (MG) vil jeg segja það, að jeg skil ekki í, að það komi til nokkurra mála, að hún verði samþykt. Um till. frá hv. 2. þm. Reykv. (HjV) má segja það, að hún er sanni nær, en þó hygg jeg, að till. stj. sje eðlilegust og rjettust afgreiðsla á þessu máli. Jeg mun þá ekki tala frekar um þetta, en leggja það undir úrskurð deildarinnar.

Jeg skal þá, að gefnu tilefni frá hv. þm. Borgf. (PO), minnast á till. um, að Árnesingum verði gefið eftir lán, sem þeir fengu til að endurbyggja þjóðveginn austur. Þetta sýnist hafa hneykslað ýmsa hv. þm. En jeg hygg, að líkt sje ástatt um þetta og það, sem jeg ræddi áðan við hv. þm. Dal., að það sje af því, að þeir hafi ekki gert sjer málið ljóst. En þegar það er athugað, að Árnessýsla hefir lagt meira fje fram en nokkur önnur sýsla til að byggja þá vegi, sem annars er venjulegt og eðlilegt, að ríkið byggi eitt. Jeg get tekið það fram sem mína skoðun, að þegar viðhaldi veganna var velt af ríkissjóði yfir á sýslurnar, þá var það smásálarleg viðleitni til þess að ljetta á ríkissjóði. Og þá óraði menn ekki fyrir þeim breytingum, sem síðan hafa orðið á þessu. Í Árnessýslu hefir verið lögð fram meira en fjórföld upphæð við það, sem þekst hefir í öðrum sýslum og sem þó hafa borið sig illa undan þessu. Þótt Rangárvallasýsla, Mýrasýsla, Borgarfjarðarsýsla og Gullbringu- og Kjósarsýsla sjeu allar teknar og framlag þeirra lagt saman, þá hafa þær þó ekki til samans lagt eins mikið fje fram til viðhalds akbrauta eins og Árnessýsla ein hefir gert. Jeg álít því, að stjórnin hafi gert rjett í því að bera þetta fram og bæta þar með úr því misrjetti að nokkru, er orðið hefir. Jeg geri því ráð fyrir því að leggja til, að sú till., að gefa aðeins eftir helming þessarar upphæðar, verði feld. En máske má nú álíta, að það sje óvenjulegt og naumast samboðið minni stöðu að leggja slíkt til. En þá er þó stór munur, að hjer er um þjóðvegi að ræða og það er ríkissjóður, sem á að borga kostnaðinn við byggingu þeirra. Og jeg álít því, að stjórnin hafi borið hjer fram algerlega rjett mál og er reiðubúinn að verja það hvar sem er og hvenær sem er.

Um till., er fer fram á eftirgjöf til Rangæinga, er það að segja, að hún hefir að nokkru leyti við sömu rök að styðjast. En þó tel jeg minni ástæðu til að veita þessa eftirgjöf. Í fyrsta lagi er um miklu minni fjárframlög frá þessari sýslu að ræða. Og í öðru lagi er miklu minni áhugi fyrir þessu innan sýslunnar. Jeg held helst, að þm. þessa kjördæmis hafi tekið það upp hjá sjálfum sjer að fara fram á þessa eftirgjöf. Jeg álít því, að þetta mál eigi þá fyrst rjett á sjer að vera athugað hjer, þegar það hefir fengið undirbúning hjá sýslunefnd Rangárvallasýslu. En hana tel jeg hinn eina og rjetta aðilja í þessu máli. En jeg viðurkenni það þó, að jeg hygg, að þessi krafa eigi nokkurn rjett á sjer, þótt jeg hinsvegar vilji ekki taka afstöðu til þess, fyr en það er hæfilega undirbúið.

Jeg vil þá snúa mjer að þeim brtt., sem eru bæði margar og nema talsverðri upphæð, er fara fram á að veita lán úr viðlagasjóði og um ábyrgð ríkissjóðs vegna ýmsra fyrirtækja. Jeg verð að játa það, að þessar till. eiga mikinn rjett á sjer og að það er fullkomin nauðsyn að verða við þeim öllum. En þó verður að taka það til athugunar, að það þýðir ekki að hrúga í fjárlögin heimildum fyrir lánum svo hundruðum þúsunda skiftir, ef svo ekki er hægt að veita þau af þeirri ástæðu, að fje er ekki fyrir hendi. Það getur meira að segja verið hreinn ógreiði að gefa slíkar vonir og getur skaðað nauðsynleg fyriræki, þegar ekki er hægt að verða við þessum fjárbeiðnum. Þetta ber ekki að skilja svo, að jeg sje að leggja á móti þessum lánsheimildum, en jeg vildi einungis benda á ástandið eins og það er og jafnframt, að leita verður nýrra úrræða, ef hægt á að vera að verða við þessum lánbeiðnum, og er þá þingsins að gera ráðstafanir til þess að hægt sje að veita þetta. Í fjárlagafrv. eins og það er eftir 2. umr. er gert ráð fyrir því að veita 152 þús. kr. lán úr viðlagasjóði. Er það sem næst þeirri upphæð; sem sjóðurinn hefir yfir að ráða árlega til útlána. Í brtt. þeim, er hjer liggja fyrir, er farið fram á 220 þús. kr. lán til viðbótar, eða fram yfir það fje, sem hægt er að veita. Ennfremur er till. á ferðinni um að veita 200 þús. kr. lán til frystihúsa. Er það nauðsynjamál og ilt að verða að neita um lán til þessara fyrirtækja, þegar búið er að leggja í þann mikla kostnað að byggja kæliskip. Það má næstum segja, að skylda beri til að sjá svo um, að þetta komi að fullum notum. — Þá eru ennfremur umsóknir um lán til að stofna tvö mjólkurbú. Jeg skal ekki fullyrða um upphæðina, en sennilega er hún ekki minni en 200–300 þús. kr. Eru þá fram komnar till. um alt að miljón króna lán úr viðlagasjóði. En eins og jeg gat um áður, þá hefir hann yfir 150 þús. eða mest 200 þús. að ráða, — Hvernig er þá hægt að ráða fram úr þessu? Jú, ein leið er fær, en um það, hvort hv. þm. vilja fara hana, fullyrði jeg ekki. En hún er sú, að aðrir sjóðir, sem til eru og kynnu að geta lánað þetta fje sjer að meinalausu, væru látnir gera það. Þeir sjóðir, sem líklegastir væru til að geta gert þetta, eru bjargráðasjóðurinn og landhelgisjóðurinn. Það er ekki óhugsandi, að þeir gætu veitt slík lán til bráðabirgða. Jeg bendi á þetta af því að jeg tel fyrirtæki þessi svo þörf, að þau megi ekki stranda á getuleysi viðlagasjóðs.

Þá eru hjer till. um ábyrgð fyrir lánum. Mjer sýnist, að þingið eigi einna hægast með að verða við þeim beiðnum til styrktar fyrirtækjum, sem ekki verða framkvæmd á annan hátt en þann að fá þessa ábyrgð, einkum þar sem þessi fyrirtæki virðast vera nauðsynleg og þola enga bið.

Meðal þessara umsókna er ein frá Siglufirði, ábyrgð fyrir 250 þús. kr. til nauðsynlegra hafnarbóta. Kunnugir vita það vel, að það er ekki vansalaust, að þær umbætur hafa ekki verið gerðar fyrir löngu. En nú munu þær verða gerðar á næsta sumri, ef Alþingi bregst vel við þessari málaleitun, sem jeg tel í raun og veru sjálfsagt, því að hjer er ekki um annað að ræða en endurveitingu. Að minsta kosti liggja fyrir í lögum og fjárl. ýms vilyrði til Siglufjarðar um styrk, lán og jafnvel ábyrgð fyrir lánum, og sje jeg því ekki, að um þetta þurfi að tala. Jeg sje ekki annað en að það sje alveg sjálfsagður hlutur, að ríkið taki á sig þá ábyrgð, sem hjer er um að ræða.

Þá skal jeg næst minnast á ábyrgðina fyrir „Samvinnufjelag Ísfirðinga“, og hefir áður verið svo ítarleg grein gerð fyrir því máli hjer í deildinni, að jeg þarf litlu við að bæta. Jeg álít þetta eitthvert hið merkilegasta fyrirtæki, sem stofnað hefir verið til hjer á landi, og ef þingið bregður nú ekki vel við, þá tel jeg, að það þekki ekki sinn vitjunartíma.

Eins og kunnugt er, hafa þeir atburðir gerst þar vestra á síðustu tímum, að furðu gegnir, að fólkið skuli hafa haft þrautseigju til að haldast þar við, þar sem kipt var burtu atvinnufyrirtækjunum fyrirvaralaust, svo að búast mátti við landauðn.

En fólkið hefir átt eitthvað eftir af hinni fornu víkingslund. Það hefir haft viðleitni til að berjast við örðugleikana og yfirstíga þá.

Jeg álít, að þessi fjelagsskapur sje svo mikilsverður, að þinginu beri skylda til að styðja hann, og jeg efast ekki um, að hann muni bera góðan árangur, ekki einungis fyrir hlutaðeigendur, sern fá þarna atvinnu og ánægju af að starfa í fjelagsskap, heldur líka til mikilla hagsbóta fyrir ríkissjóðinn, svo að hann uppskeri margfalt við það, sem hann sáir. Jeg tel það líka útlátalítið að verða við þessari ábyrgðarbeiðni, þar sem óhætt er að segja, að full trygging komi á móti.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Jeg gríp aðeins á þeim atriðum, sem jeg tel mestu máli skifta. Ef jeg ætlaði að eltast við hverja smátill., þá yrði það of langt mál.

Hv. þm. Borgf. (PO) kom fram með fyrirspurn til mín um, hvernig stæði á því, að upphæð sú, sem farið væri fram á að Arnessýslu yrði gefin eftir, væri alt önnur en sú raunverulega. Sá munur, sem hjer er um að ræða, stafar auðvitað af því, að það er ekki farið fram á eftirgjöf á öðru en því, sem lánað var. Það, sem fram yfir er, eru vextir af þessu láni, sem þegar var sýnt, að ekki var með sanngirni hægt að endurkrefja. Um vextina getur auðvitað ekki verið að ræða sem skuld, úr því að talið er sanngjarnt að gefa eftir höfuðstólinn. Þá eru vextirnir þar með fallnir.

Hv. 1. þm. Skagf. hafði beint fyrirspurn til stjórnarinnar í gær. Jeg var þá ekki viðstaddur, en mjer er sagt, að hún hafi verið á þá leið, hvort stj. hefði gert sjer það ljóst, ef úr því yrði, að lán yrðu gefin eftir, hvor ætti að bera hallann, viðlagasjóður eða ríkissjóður. Það er nú raunar svo, með því að viðlagasjóður er ekki annað en ein deild af ríkissjóðnum, að þetta skiftir ekki miklu máli. En jeg hygg, að í sjálfu sjer geti ekki verið mikill skoðanamunur um það, að ef á annað borð er talið rjett að gefa þessi lán eftir, þá sje það augljóst, að ríkissjóður eigi að bera tapið, ef tap skyldi kalla. Eðlilegast virðist mjer að framkvæma þetta á þann hátt, að innborguð væri í viðlagasjóð árlega jafnhá upphæð og vextir og afborganir mundu hafa numið, ef lánin hefðu staðið áfram. Þannig fær viðlagasjóður sitt uppborið smátt og smátt á sama hátt og annars hefði orðið á jafnmörgum árum og lánin áttu að standa. Vitanlega mætti taka þessa upphæð í fjárl. árlega, en hjer er í rauninni um svo lítið að ræða, að ekki virðist skifta miklu, hvort forminu er fylgt út í æsar eða þetta er framkvæmt á eðlilegan hátt, því að þetta er auðvitað ekki annað en að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni.

Aðalefni þessa máls átti að vera það, að mæla með ábyrgðarheimildunum fyrir Siglufjörð, Samvinnufjelag Ísfirðinga og Búðahrepp. Þó var það ekki síður tilætlun mín að reyna að gera það ljóst fyrir deildinni, hvernig víkur við með viðlagasjóðslánin. Þörfin á þessum lánum verður því brýnni, sem menn finna betur og betur, hversu mjög mikið er ógert hjá okkur á öllum sviðum og þörfin á framkvæmdum er nauðsynleg, ekki síst til atvinnubóta, og það litla fje, sem sjóðurinn hefir yfir að ráða, er ekki nema eins og dropi í hafinu í samanburði við það, sem með þarf til að fullnægja þörfinni. Það virðist því næstum óhjákvæmilegt að taka ákvörðun um, að taka megi úr öðrum sjóðum til þessa. Jeg álít nefnilega, að ekki sje fram komin ein einasta lánbeiðni, sem ekki sje þess verð, að henni væri sint, ef unt væri.