21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2073)

115. mál, hagskýrslur

Flm. (Jón Þorláksson):

Af því að nú er svo liðið á fundartímann, skal jeg reyna að vera stuttorður.

Það mun öllum hv. þm. kunnugt, að útgáfa hagskýrslnanna hefir verið allmörgum árum á eftir tímanum að því er ýmsar mikilsverðar skýrslur snertir. T. d. ætla jeg, að verslunarskýrslur fyrir árið 1920 hafi ekki komið út fyr en árið 1925, og enn þá er það svo, að síðustu ársskýrslur, sem út eru komnar, eru fyrir árið 1925.

Það hefir á síðustu árum unnist nokkuð á hjá hagstofunni, þannig að hún er nú ekki eins langt á eftir tímanum eins og fyrir fjórum árum, en það vantar þó enn þá mikið á, að hún sje búin að ná sjer eða að vinna úr því, sem hefir safnast fyrir, þannig að kominn sje eðlilegur gangur á þessi störf hennar.

Það, sem jeg fer fram á í þessari till., er að ríkisstjórnin hlutist til um, að þessu verði kipt í lag, en til þess þarf nokkuð aukin útgjöld. Nú er í fjárlögunum fjárveiting til hagstofunnar, sem miðuð er við útgáfu fjögra hefta á ári. Nú eru gefnar út þrjár skýrslur árlega, um búnað, fiskveiðar og verslun, og svo 1 hefti um önnur efni, sem á að ná yfir fleiri ára bil. Til þess að koma lagi á útgáfuna þarf að auka við starfskraftana í hagstofunni og kosta meiru til útgáfunnar í bili, því að fleiri skýrslur þurfa að koma út á ári.

Jeg ber þessa till. fram í því skyni að ýta undir hæstv. stjórn að gera þetta og til þess að þingið láti jafnframt vilja sinn í ljós um það, að heimiluð sje sú umframgreiðsla til hagstofunnar, sem nauðsynleg er. Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en óska, að till. fái að ganga til síðari umr. og fjn.