05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2078)

115. mál, hagskýrslur

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Það er gott að heyra orð hv. 3. landsk. (JÞ), að þetta, sem jeg hermdi upp á hann, hljóti að stafa af misskilningi. En jeg hygg ekki um neinn misskilning að ræða frá minni hálfu, og því vænti jeg þess, að hv. þm. (JÞ) leiðrjetti þessi ummæli sín, er hann tekur sér penna í hönd næst til að skrifa í þetta blað.

Út af kröfum sýslumanna vil jeg geta þess, að sumir þeirra hafa kvartað sáran yfir því, hvað illa hafi verið með sig farið. Þeir segja margir, að þessi fyrirhöfn þeirra hafi ekki verið greidd eftir þeirra eigin reikningi, en fyrv. fjmrh. (JÞ) hafi skapað þeim þóknun eftir eigin geðþótta og sje hún svo lág, að engri átt nái. Þeir segja, að þessu hafi verið slett í sig — jeg vil ekki segja eins og hvað — já, eins og einhverri smánarþóknun, sem þeir telja sjer mjög misboðið með, og hafa því sent reikninga. Brjef ráðherrans minnist að vísu aðeins á þóknun fyrir fyrsta árið. En þó þeir hafi eftir því máske ekki fylsta kröfurjett næsta ár, þá er þó ekki hægt að neita því, að þeir hafi sanngirniskröfu, ef ekki hefir verið tekið tillit til þessa á annan hátt, nema þetta hafi verið gert að skylduvinnu, án sjerstakrar þóknunar. En hafi verið rjett að launa þetta fyrsta árið, þá sýnist og vera rjett að greiða þóknun fyrir það áfram. Það má vera rjett, að ekki sje hægt að fara eftir þeim reikning. um, er koma, að öllu leyti, því þeir eru æðimisjafnar. En einhverja reglu verður þó upp að taka um þetta, og væri gott að heyra frá hv. 3. landsk., hvaða reglu fyrv. stjórn hefir hugsað sjer að taka upp í þessu efni.