11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (2106)

98. mál, ríkisforlag

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og greinargerðin ber með sjer, er tilefni þessarar till. tvær greinar, sem út hafa komið í tímaritum, önnur í „Skírni“ eftir Sigurð próf. Nordal, um þýðingar. hin í „Vöku“ eftir Kristján Albertsson ritstj.: „Andlegt líf á Íslandi“. Jeg vil einnig benda á þriðja tilefnið, frv. til laga um menningarsjóð, sem nú hefir verið afgreitt sem lög frá Alþingi. Bókaútgáfa menningarsjóðsins er sjálfsagður stofn og upphaf ríkisforlagsins. Stjfrv. tvö um menningarsjóð og mentamálaráð eru einhver hin merkustu, sem afgreidd hafa verið frá þessu þingi, og er þetta í fyrsta sinn, sem fá á mentamálaráðinu verkefni við þess hæfi, en það er rannsókn ríkisforlags.

Það er engin furða, þó till. komi fram um, að ríkið hafi frekari afskifti af bókaútgáfu en það hingað til hefir haft. Afskifti ríkisvaldsins af bókmentum hafa hingað til verið fólgin í styrk veitingum, ýmist til einstakra manna eða fjelaga. Einnig hafa ýmsar listgreinar, t. d. leiklistin, notið ríflegs styrks úr ríkissjóði. Leiklistin hefir notið styrks vegna samkepninnar við kvikmyndahúsin, sem reynst hefir erfið. Jeg hygg, að líkt sje ástatt um bókmentirnar. Sígild verk, sem seint borga útgáfukostnað, eiga ilt með að keppa við dægurflugur. Svo er nú komið hag bókmenta vorra.

Við flm. teljum, að með ríkisafskiftum megi koma betra skipulagi á margt það, er lýtur að bókaútgáfu. Við þurfum að eignast fjölskrúðugar bókmentir og þýðingar. Um mörg af helstu viðfangsefnum nútímaþjóðfjelags hefir ekki verið skrifað til neinnar hlítar á íslensku. Eitt af því, sem mest háir skólastarfsemi hjer og sjálfsmentun, er það, hvað bókakostur er fáskrúðugur, á móts við það, sem er með öðrum menningarþjóðum. Þá eru og oft ágætisrit, sem þrotin eru, ófáanleg í bókaverslunum svo árum skiftir. Slíkt má ekki viðgangast. Víða með stærri þjóðum eru gerðar ráðstafanir til þess, að aldrei skorti ódýrar útgáfur við alþýðu hæfi af klassískum ritum. Á Frakklandi til dæmis hefir franska akademíið umsjón með, að út sjeu gefin frægustu bókverk þjóðarinnar, svo að þau sjeu jafnan aðgengileg hverjum, sem vill eignast þau. Engar slíkar ráðstafanir eru gerðar hjer, og er það eit: af höfuðtilefnunum til þessarar tillögu. Það er mörgum mikið áhyggjuefni, að sumar bestu bækurnar eru ófáanlegar, en hinsvegar er gefið út mikið af dægurritum, sem borga sig fljótt. Það er líkt ástatt um þessi sígildu rit og leiklistina, sem er styrkt ríkulega. Jeg er þess fullviss, þó að jeg geri ekki ítarlega grein fyrir því nú, að það má mikið vinna með betra og fastara skipulagi um bókaútgáfu en hingað til hefir verið. Það þarf að myndast ríkisútgáfa, sem sje menningarmiðstöð í landinu, bókaháskóli, eins og Sigurður Nordal kemst að orði í sinni merku grein, fyrir allan landslýð. Slíkur háskóli mundi ekki verða ofvaxta.

Um styrk til þessa fyrirtækis má á hverjum tíma fara eftir því, sem þingið vill. Sje þingið fastheldið á fje, má gera meiri kröfur um, að fyrirtækið beri sig, en sje þingið ört á fj , verður meiri árangur af útbreiðslu hinna ágætu rita.

Þó að menn aðhyllist öflugt ríkisforlag, þarf ekki að ákveða, að verja eigi miklu fje af toll- og skattpeningum fólks til þess. Það er ákvörðun, sem hægt er að taka á hverjum tíma. En jeg vil ekki segja, að við flm. sjeum öllum atriðum samdóma þeim tveim ágætu greinum, sem jeg hefi nefnt. Jeg skal segja það fyrir mitt leyti, að jeg er talsvert vantrúaður á það, að heppilegt sje, að ríkið taki alment að sjer fyrstu útgáfu innlendra bóka. Það er mín trú, að ríkisstyrkur sje ekki sem heppilegastur við sjálfa uppsprettu lífsgæðanna. Um bækur held jeg, að affarasælast sje að bíða þess tíma, að dómar almennings sjeu orðnir fastir. En þá kemur til kasta ríkisins að sjá fyrir því, að engir þegnar ríkisins þurfi að fara á mis við þessi gæði. Tillagan er af okkur fram borin í þeirri trú, að aukin afskifti ríkisvaldsins af bókmentum þjóðarinnar hljóti að leiða til góðs. En það þarf ekki sterka trú til, því að ekki er úr háum söðli að detta.

Hjer er líka um tilvalið verkefni að ræða fyrir hið unga mentamálaráð, til þess að leysa úr á fyrsta starfsári sínu. Slíkri rannsókn, sem tillagan ræðir um, ættu allir að geta fylgt, bæði þeir, sem hafa trú á gagnsemi þessa fyrirtækis, og eins hinir, sem eru vantrúaðir á aukin afskifti ríkisvaldsins af þessu máli. Fullnaðarúrskurð ætti enginn þm. að kveða upp fyr en það álit er fengið, sem ætlast er til að mentamálaráðið skili.

Jeg vil að lokum fyrir hönd okkar flm. óska þess, að tillaga okkar fái góðar viðtökur. Það skyldi gleðja okkur, ef þetta mikla verkefni væri látið vígja þá miklu og vænlegu stofnun, sem mentamálaráðið er.