11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2109)

98. mál, ríkisforlag

Magnús Jónsson:

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talaði um tvennar öfgar. Mjer skildist hann vera á móti báðum, og með því er fengin hans viðurkenning fyrir því, að einokun á bókum sje óheppileg. Jeg þarf þá ekki annað en að sýna fram á, að ríkisforlag leiði til einokunar, til þess að sannfæra hann og hv. meðflm. hans um, að þeir sjeu hjer að leggja út á hættulega braut.

Hv. þm. hrakti ekki ótta minn, nema með einni setningu, sem hann hafði eftir mjer: Ef ríkisforlagið veldi svo leiðinlegar bækur, að enginn vildi lesa þær, er ekki hætt við einokun. En ef forlagið velur skemtilegar bækur. stendur það óhrakið, sem jeg sagði. Mjer dettur ekki í hug að halda því fram, að annar eins ágætismaður og jeg verð að gera ráð fyrir að forstjóri forlagsins yrði, myndi velja tómar leiðinlegar bækur. En þær litlu tilraunir; sem hafa verið gerðar til þess að gefa út alþýðubækur, benda á, að þessháttar forráðamönnum sje ekki að fullu treystandi til að finna, hvað fólkið vill lesa.

Jeg efast ekki um, að mikið yrði gefið út af góðum bókum, en jeg er hræddur um, að áskrifendur forlagsins keyptu ekki aðrar bækur, af því að þessar yrðu svo ódýrar. Þær mundu draga svo úr markaðinum, að það mundi ekki borga sig að gefa út aðrar bækur, nema um hreinustu undantekningar væri að ræða.

Hv. flm. vildi sýna fram á, að jeg fylgdi annari öfgastefnunni í þessu máli, en hann sannaði jafnframt, að svo væri ekki, þar sem jeg hefði barist fyrir því, að ríkið styrkti eitt mikið bókmentafyrirtæki. Það sýnir einmitt, að jeg fylgi ekki þessari öfgastefnu. Það er ekki nema sjálfsagt, að ríkið styrki útgáfu góðra bóka. En þegar það mikla bákn er komið á laggirnar, sem farið er fram á með þessari till., þá er komið út í öfgarnar.

Jeg skal ekki breiða yfir neinar misfellur eða segja, að alt sje með feldu eins og er; bækur eru bæði of dýrar til þess að verða alment keyptar og bókamarkaðurinn of fáskrúðugur. En jeg er viss um, að jafnt eftir sem áður væru ýmsar bækur, sem kæmust ekki út. Annmarkar núverandi skipulags á bókaútgáfunni eru á annan bóginn fátækt og getuleysi almennings til bókakaupa, og úr því verður ekki bætt með ríkisforlagi, og á hinn bóginn hræðsla bókaútgefenda við að gefa út bækur, sem ætla má að gangi lítt út. En það er yfirstíganlegur örðugleiki. Bækur verða svo að segja að berjast til sigurs; einhver forleggjari verður að sannfærast um, að bók, sem á að gefa út, eigi skilið að komast út og að hún fái lesendur.

En nú á bókavalið að byggjast á persónulegum skoðunum þeirra fáu manna, sem ráða fyrir ríkisforlaginu, en það verður sennilega mentamálaráðið hið nýja. Seinni villan er því skipulagsbundin, en það er hin ekki. Ákveðnar skoðanir vissra manna eiga að ráða því, hvaða bækur koma út og hverjar ekki. Sú villan er að því leyti lakari hinni fyrri, að hún er skipulagsbundin og verður því aldrei yfirunnin. Ýmsar bækur og rit hafa átt örðugt uppdráttar í fyrstu, þótt þær ættu það ekki skilið, en þær hafa yfirunnið mótspyrnuna, af því að hún var ekki skipulagsbundin. Ýmsar slíkar bækur hefðu aldrei komist út að öðrum kosti. Því er ekki að leyna, að upp á síðkastið hafa komið út nokkrar bækur, sem deilt hefir verið um, hvort ættu það skilið, og jeg er viss um, að ríkisforlag, ef til hefði verið, hefði haldið niðri, en jeg teldi skaða, að hefðu ekki komið út.

Hv. flm. (ÁÁ) sagði, að væri það rjett, að ríkisforlaginu væri ætlað að tyggja bókakostinn í fólkið; þá mætti eins segja, að nú væri tuggið í almenning af bókaútgefendum og ritstjórum tímarita. En þetta er ekki nema hálfur sannleikur. Í raun og veru er það fólkið sjálft, sem velur. Bókaútgefandinn og ritstjórinn hefir sömu aðstöðu gagnvart lesendunum og kaupmaðurinn gagnvart viðskiftamönnum sínum. Því slyngari sem kaupmaðurinn er að geta í huga manna, hvað þeim kemur vel, því hæfari er hann til síns starfs. Alveg eins er með útgefendur bóka, blaða og tímarita. Jeg er ekki með þessu að segja, að það eigi eingöngu að leika við smekk fólks í þessu efni. En þetta, er þó mikilvægt atriði, og það stendur fast, að það er fólkið sjálft, sem velur, en nú á að fara að velja fyrir það.