13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (2122)

150. mál, rán erlendra fiskimann í varplöndum og selverum

Flm. (Þorleifur Jónsson*):

Jeg hefi leyft mjer að bera fram till. til þál. um, að ýms þau hlunnindi, sem landsbúar eiga einir, sjeu betur vernduð fyrir ásælni og ránskap útlendra fiskimanna en verið hefir. Í greinargerðinni hefi jeg minst lítillega á framferði útlendinga á undanförnum árum í Austur-Skaftafellssýslu, sjerstaklega Færeyinga síðastl. ár. Og líka sögu munu fleiri hafa að segja. Heyrst hefir um ýms spjöll á Langanesi og þar í kring. Og í þáltill. frá hv. 2. þm. Árn. (MT) er talað um spjöll í Selvogi.

Jeg held, að tími sje til þess kominn, að eitthvað verulega sje hafist handa til að hindra það, að erlendir fiskimenn geti farið hershöndum um æðarvarp, selalátur, bjargfugl o. fl. hlunnindí, sem landsbúar eiga.

Fyrri liður till. hljóðar um það, að stjórnin láti hafa nánar gætur á þessu eftirleiðis. Mín meining er, að lagt sje fyrir varðskipaforingjana að koma við og við, sjerstaklega að vorinu, á þær stöðvar, sem útlendir fiskimenn hafa sjerstaklega lagt í vana sinn að ræna. Jeg er viss um, að úti fyrir ströndum Austur-Skaftafellssýslu er mikil þörf á meiri landhelgisvörn en enn þá hefir verið framkvæmd þar. Þar er vanalega fult af togurum á vertíðinni, bæði innan og utan landhelgi, og þyrfti því meira eftirlit þar en nú er. En svo þyrfti að halda áfram eftirliti þar fram eftir vorinu, einmitt vegna egg- og selvera, sem þar eru fram með ströndinni. Mjer finst það skylda okkar að sýna þann manndóm, að varðar sjeu eignir og rjettindi landsbúa gegn útlendum yfirgangsmönnum.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að seinni lið till. og skýra það mál nokkru nánar en gert er í greinargerðinni. Fer jeg þar eftir skjölum og skilríkjum, sem liggja í stjórnarráðinu og jeg hefi fengið að kynna mjer.

Hinn 8. maí í fyrra sást úr Lóni skip skamt frá eyjunni Vigur, og lagði bátur frá skipinu til eyjarinnar. Undir eins og þessa varð vart, símaði hreppstjórinn í Lóni til Hornafjarðar og fekk vjelbátinn Björgvin til að fara til Vigrar og athuga, hvaða skip þetta væri. Báturinn lagði undir eins af stað, og voru 5 menn í bátnum, og þegar hann kom á móts við Vigur, sá hann skútu sigla til hafs. Hann elti svo skútuna og náði henni loks. Hjet hún Heimdal T. G. 338 frá Færeyjum. Bátsmenn tóku skipverja tali og báru á þá, að þeir hefðu verið að ræna í Vigur. En skipverjar neituðu því með öllu og sögðust bara hafa verið að skjóta fugl og sýndu máf nýskotinn. Fóru þeir sína leið og hægðu ekki neitt á sjer, og vjelbáturinn aftur til lands.

Þetta var nú fyrsta heimsókn Færeyinga í Vigur í vor leið. En svo líður ekki nema rúmur mánuður þar til skip sjest enn við Vigur. Það var 10. júní. Þá er enn símað til Hornafjarðar og sami vjelbátur fenginn til þess að athuga um þetta skip. Sýslumaður Skaftafellssýslu hjelt próf yfir bátshöfninni á m/b. Björgvin 28. júní 1927. Formaður bátsins heitir Sigurður Ólafsson, og er bókað eftir honum við rjettarhaldið eins og hjer segir:

„Þann 10. þ. m. (júní) var kallað vitnið frá Bygðarholti í Lóni og honum tilkynt um færeyska ránsmenn við Vigur, og var báturinn beðinn að fara á vit við þá og elta. Fóru þeir þegar austur, og er þeir komu þar eða austur að Fjarðarskerjum, sáu þeir færeyska skútu skamt undan Vigur, og var þar ekkert annað færeyskt skip. Siglir skútan þá hið hraðasta á burt og til hafs, enda byr á. Elti vjelbáturinn, en náði ekki lengi vel, alt að 3 klt. Er þeir áttu skamt að skútunni, sáu þeir á floti sekk fullan og fyrirbundinn, var hann þurr að ofan og sýnilegt, að skútumenn voru nýbúnir að kasta hon- um í sjóinn;þetta var hálftunnusekkur, og á fyrirbandinu var merkismiði,dýpkaði á pokanum og sökk hann brátt, svo að þeir náðu ekki, þótt rjett væru komnir að. En svo var pokinn lengi að sökkva, að líklegt er, að í honum hafi verið fugl (eða jafnvel egg, ef unguð væru). Komst vjelbáturinn þannig á hlið við skútuna, en nafnið aftan á henni var svo ógreinilegt, að þeir sán ekki, hvað það var. Einkennisstafir og númer voru greinileg í segli T. G. 358. Kveðst mættur hafa ávarpað Færeyingana reiður og kallað, að þeir hefðu verið að ræna, en þeir virtust hypja sig frá og svöruðu engu. Sigldi skútan áfram, en þar skildi með henni og bátnum, er hjelt heim“.

Þetta er aðalinntakið af því, sem kom fram við rjettarprófið yfir bátshöfninni á Björgvin.

Hinn 29. júní hjelt sýslumaður próf yfir mönnum í Lóni, er sáu aðfarir skipsins. Öll skjöl viðvíkjandi þessum Vigrarránum sendi sýslumaður til stjórnarinnar með brjefi 19. júlí, og 6. ágúst sendir hann reikninga yfir beinan kostnað við málið eystra: Reikning frá vjelbátnum fyrir þessar 2 ferðir, rjettargjöld o. fl., samtals kr. 524.85, ásamt skaðabótakröfu frá Sigurði Jónssyni í Stafafelli, sem er eigandi Vigrar, hljóðandi upp á 1000 kr.

Síðan sendir stjórnin hjer öll skjöl málsins til sendiherrans íslenska í Kaupmannahöfn með beiðni um, að málið verði rannsakað í Færeyjum. Sendiráð okkar beinir málinu til dómsmálaráðuneytisins í Kaupmanna. höfn. Eru síðan skjölin send til Færeyja og skorað á amtið að rannsaka málið.

Hinn 19. okt. var próf haldið yfír skipshöfninni af „Heimdal“. Þeir skýra svo frá, að þeir hafi verið á leið frá Faxaflóa og hafi komið að eyjunum í Lónvíkinni 8. maí og 7 af þeim hafi farið á báti að eyjunum, og þar hafi þeir skotið 2 seli, 9 máfa, 1 langvíu og 2 álkur. Þeir hafa sjer til afsökunar, að þeim hafi verið bráðnauðsynlegt að ná í nýmeti. Þeir hafi verið vesælir af vondu fæði o. s. frv. Bjóðast þeir til að greiða einhverjar bætur fyrir selina, en að öðru leyti ekki neitt.

Hinn 13. okt síðastl. var löreglurjettur settur í Færeyjum og skipshöfnin af „Sunbeam“ kölluð fyrir rjett. Þeir sigldu frá Færeyjum beina leið upp undir Lón og komu til Vigrar 10. júní. Skipstjóri segir, að nokkrir hásetar hafi stungið upp á því að fara upp í eyjarnar Vigur og Böðvarssker (skamt frá Vigur), og ljet skipstjóri leiðast til þess. Þeir mönnuðu út bát, og á honum fór skipstjóri við 10. mann upp í eyjuna: höfðu þeir með sjerr 4 byssur, og kváðust þeir hafa ætlað að skjóta sel. Þegar þeir komu að landi, skutu þeir strax einn sel, sem lá uppi og annan á sundi. Svo gengu þeir í æðarvarpið og tóku mikið af eggjum. Skipstjóri slumpaði til, að þeir myndu hafa tekið um 100 egg hver eða 1000 egg alls, en dún kváðust þeir ekki hafa tekið.

Þetta er samhljóða játning þeirra 10 skipverja af „Sunbeam“, sem prófaðir voru.

Þessi rjettarpróf eru síðan send til Kaupmannahafnar og málsskjölin þar í umsögn danskra stjórnarvalda, afhent sendiherra Íslands. Hann sendir svo öll plöggin til dómsmálaráðuneytisins hjer ásamt brjefi, dags. 20. des. f. á., og skal jeg leyfa mjer að tilfæra dálítinn kafla úr því:

„Eins og skjöl þessi bera með sjer, hafa nú farið fram lögreglupróf í Færeyjum yfir skipstjóranum og skipshöfn tveggja færeyskra fiskiskipa, „Heimdals“ og Sunbeams“. Hafa þeir játað á sig brot, sem nánar er lýst í prófunum, og virðast vera sömu brotin sem sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu á við.

Hefir skipstjórinn á „Sumbeam“ boðist til að greiða 100 kr. sekt fyrir brotið og 100 kr. í skaðabætur, en skipstjórinn á „Heimdal“ að greiða bætur fyrir tvo skotna seli.

Lögreglustjórinn í Færeyjum telur ekki hægt að höfða mál þar í landi fyrir íslensk lögreglubrot, og dómsmálaráðuneytið hjer felst á þá skoðun.

Er því varla um annað að ræða en annaðhvort að taka boði hinna seku um sekt og bætur, eða bíða tækifæris að hafa hendur í hári þeirra, ef þeir koma til Íslands, svo tímanlega að hægt sje“.

Og þannig stendur þá málið nú. Og það er sennilegt, að við megum hafa þetta sem annað hundsbit, ef ekkert er meira að gert. Það getur orðið bið á því, að skipshafnirnar, sem voru í fyrra á „Heimdal“ og „Sunbeam“, fari svona að gamni sínu að spássera í hendur lögreglunnar hjer.

En jeg verð að álíta, að vegna mikils tjóns, sem íslenskur ríkisborgari hefir orðið fyrir af völdum þessara manna, og vegna sóma landsins, þá megi ekki hjer við sitja, ef annað er unt.

Það er sannað með játningu sjálfra sökudólganna, að þeir hafi farið í æðarvarp og tekið grúa af eggjum. Sjálfir segja þeir 1000, en hver veit, hve mikið það var. Það er líka sannað, að þeir hafi drepið sel og fugla. Þetta eru stórfeld brot á lögunum um friðun æðarfugls og öðrum friðunarlögum. Rænt er með þessu eigum manna, og þótt það sje kanske ekki brot á hegningarlögunum, þá eru það stórfeld brot á veiðiog friðunarlögum. Og viss er jeg þess, að sá íslenskur borgari, sem staðinn hefði verið að slíku, hann hefði ekki sloppið með lítilfjörlega sekt.

En þarna eru danskir þegnar að verki. Þessir menn hafa samkv. 6. gr. sambandslaganna rjett til að veiða í landhelgi Íslands, en þau gefa engan rjett til að ræna hlunnindum landsbúa og brjóta öll friðunarlög, og það, sem er rarast, er það, að þeim, þessum jafnrjettismönnum okkar í landhelginni, er skotið undir það, að ekki sje hægt að dæma þá eftir íslenskum lögum, fyrst þeir gátu sloppið hier úr greipum yfirvaldanna. Íslendingar geta enga rjetting fengið mála sinna, þótt slíkt og þvílíkt komi fyrir aftur og aftur. Ef þeir seku ná að sleppa á haf út og heim til ssín, þá er ekki hægt að fá þá dæmda.

En hvað myndi sambandsþjóð vor segja, ef íslenskir fiskimenn eða aðrir hjerlendir menn höguðu sjer eitthvað svipað í Danmörku, ef þeir skemdu einhverja þá gagnsmuni, sem landsmenn einir eiga? Mjer þætti von til, að þeir krefðust bóta fyrir.

Eins og þetta mál er alt í pottinn búið, þá vildi jeg leyfa mjer að óska, að hæstv. Stjórn færi fram á það við dönska stjórnina, að bætur komi fyrir þessi skemdarverk.

Eigandi eyjarinnar Vigrar fer fram á 1000 kr. bætur; tel jeg víst, að það sje eigi of mikið. Það má nærri geta. hvernig varpið fer, þegar 10 menn, sem aðeins hafa það í huga að ná sjer í sem mest af eggjum, ösla um varplandið aftur á bak og áfram. Varpið var athugað strax á eftir, og fundust þá dauðir fuglar, og varpið að öðra leyti stórskemt, eins og nærri má geta. Og búast má við, að varpið bíði þess ekki bætur næstu árin. Auk þessara skaðabóta, sem farið er fram á, þá mun stjórnin hafa greitt fyrir kostnað við málið í Skaftafellssýslu kr. 524.85, og ætti það að greiðast einnig af hinum erlendu ránsmönnum.

Jeg þykist nú vita, að Danastjórn muni bregðast vel við og vilji sljetta yfir þessi brot, en verði á mót von minni tregða á því, þá teldi jeg reynandi að vísa máli þessu til aðgerða millilandanefndarinnar, og kröfum um bætur haldið þar fram af okkar mönnum. Mætti þá og minna á það um leið, að samkv. 8. grein sambandslaganna er svo fyrir mælt, að Danir skuli hafa á hendi landhelgisvörn hjer, og mætti þá sjerstaklega minna á, að þá um leið hvílir nokkur skylda á þeim að líta eftir því, að danskir þegnar geri ekki óskunda og skemdir á hlunnindum landsbúa.

Alt það, sem jeg hefi skýrt frá hjer að framan um Vigrarránið, er tekið eftir rjettarprófum þeim, sem haldin voru í Austur-Skaftafellssýslu á síðastliðnu sumri, og jafnframt eftir rjettarprófunum í Færeyjum, þar sem hinir seku játuðu verknaðina á sig. Það er því ekki gripið úr lausu lofti, því að það styðst alt við opinberar skýrslur, sem eru fyrir hendi, og allir geta sjeð og sannfærst um, hvort ekki er rjett með farið. Það er því ekki til að dreifa neinni óvissu um þessi mál.

Aftur á móti skal jeg geta þess, til að fyrirbyggja misskilning, að jeg held að ekki hafi sannast beint, hvaða útlendingar það voru, sem rændu selverin í Austur-Skaftafellssýslu 1924. Ekki náðist í númer eða nöfn skipanna, en sterkur grunur ljek á því, að það hefðu verið Færeyingar

Jeg hefi þá í fám orðum reifað þetta mál nokkuð og vænti þess, að það þyki ekki tíðindum sæta, þótt farið sje með það inn í þingið. Vænti jeg þess ennfremur, að hv. deild samþykki till. og hæstv. stjórn geri það sem unt er til þess að framfylgja henni.

Jeg tel það miklu skifta, að landsbúar með í fá að hafa hlunnindi sín í friði.

(* Ræðuhandr. óyfirlesið.)