14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer þykir nú sannast hið fornkveðna, að svíður sárt brendan, því hv. 2. þm. Skagf. (JS) hefir nú talað af miklum móði út af því, sem jeg sagði um hann og hv. þm. Borgf. (PO), samnefndarmann hans, í Ed. Þykir mjer það ekki koma vonum fyr. En það var enginn ódrengskapur, þó jeg ljeti þessi umræddu orð falla í Ed. fyrir nokkru, því til þess var alveg sjerstakt tilefni gefið. Það var annarsvegar framkoma fyrv. fjmrh. og formanns Íhaldsflokksins og hinsvegar framkoma fulltrúa íhaldsins í fjvn. Nd. Hv. þm. hefir þá aðstöðu að geta hvenær sem er fundið að við mig, og jeg neita því harðlega, að nokkur ódrengskapur væri í því fólginn, þó jeg „konstateraði“ það, sem búið er að segja í prentuðu þskj. Hv. þm. ætti að venja sig af því að vera svona viðkvæmur. Hann sagði, að það væri nýstárlegt, að hann og hv. þm. Borgf. væru bendlaðir við ábyrgðarleysi. Það er aukaatriði, en hitt skiftir mestu, hvort það er satt eða ekki. Hv. þm. hefir sagt, að hann ætlaði að bera fram till. til útgjaldaauka, þó það yrði til þess, að tekjuhalli yrði á fjárlögunum. (JS: Reikningslegur tekjuhalli) Þetta kalla jeg ábyrgðarleysi. Og það er óvenjulegt blygðunarleysi að lýsa því yfir fyrir þjóðinni, að hafa svona fjármálastefnu. Og jeg verð að segja það, að mjer kom það mjög einkennilega fyrir að heyra slíka yfirlýsingu frá þessum þm., eftir að hafa starfað með honum undanfarin 4 ár í fjvn., því þá hafði hann alt aðra skoðun á slíku. Jeg get því ekki fundið aðra ástæðu fyrir þessum skoðanaskiftum hans en þá, að nú er hann andstæðingur stjórnarinnar. Hvað lá þá beinna við en að feta í fótspor foringja síns, er sagt hafði áður við þá stjórn, er hann var í andstöðu við, að hún ætti ekki skilið að fá tekjuhallalaus fjárlög? Og sje þetta alt tekið til athugunar, er ómögulegt að segja annað um það en að það beri vott um alt of mikið ábyrgðarleysi.

Það er sá stórkostlegi munur á framkomu meiri og minni hl. fjvn., að meiri hl. vill vinna að því ásamt stjórninni, að afgreidd verði tekjuhallalaus fjárlög, en minni hl. kveðst munu koma með hækkunartillögur, þó að af því leiði tekjuhalla. Stjórnin og meiri hl. fjvn. vissu, að sá tekjuauki, sem þarf til þeirra framkvæmda, sem gert er ráð fyrir, mundi fást, þó hv. þm. vissi það ekki. Hann er nú einu sinni ekki stærri en það, að það gerist hjer ýmislegt, sem hann veit ekki um. Jeg get því ekki tekið á móti neinum ákúrum frá honum og held fast við það, sem jeg hefi sagt, að fulltrúar Íhaldsflokksins í fjvn. Nd. hafi sýnt alt of mikið ábyrgðarleysi í þessu, og þeir hafá meira að segja gengið svo langt, að þeir hafa látið prenta þetta í nál. fjvn.