14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

Út af ræðu hæstv. forsrh. þarf jeg að segja nokkur orð. Jeg er þakklátur hv. fjvn. fyrir að hafa tekið upp 5 þús. kr. fjárveitingu til væntanlegs flugnáms og skal geta þess, að Eggert Briem hefir átt tal við samgmn. og farið þess á leit, að hann fengi 10 þús. kr. styrk til þess að ljúka námi, en það kostar um 12 þús. Þetta er því ekki nema helmingurinn af þeirri upphæð, sem hann þarf, og má alls ekki skerða það. Jeg hefi hjer brjef frá Luft-Hansa, þar sem skýrt er frá því, að ekki geti komið til mála, að Eggert verði hjer við flugferðir í sumar, þar sem hann hafi ekki próf, því „assurancinn“ yrði þá alt of dýr. Hann sneri sjer svo til dr. Alexanders Jóhannessonar, sem tók á sig að ábyrgjast að tryggja honum alt að 10 þús. kr. Ef Eggert fær nú ekki þennan styrk, býst hann við að verða að fara til Ameríku, því þar býðst honum atvinna, en það má ekki koma fyrir, að sleppa hjeðan efnilegum flugmanni, eins og ástatt er hjer á landi, að flugferðir eru að hefjast.

Mjer er óhætt að lýsa því yfir fyrir hönd samgmn., að hún er því eindregið samþykk, að þessum 5 þús. kr. sje varið til þess að styrkja Eggert Briem til flugnáms. En hinsvegar leggur nefndin líka til, að veittar verði 2 þús. kr. til þeirra flugtilrauna, er væntanlega fara fram hjer í sumar, og skora jeg á hæstv. atvmrh. að taka þær tillögur til greina.