31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2140)

148. mál, milliþinganefnd í tolla- og skattalöggjöf

Flm. (Ingvar Pálmason):

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið. Það má segja, að fyrri ástæða hv. 3. landsk. (JÞ), óvissan um verðgildi íslenskra peninga, geti verið frambærileg í þessu efni, en þó tel jeg hana alls ekki geta verið fullgilda ástæðu á móti þessari breytingu, því að ringulreiðin, sem nú er komin á tolla- og skattalöggjöf landsins, er orðin svo mikil, að það er beinlínis knýjandi þörf að koma henni á fastan grundvöll.

Um það geta vitanlega verið deildar skoðanir, hvaða leiðir eigi að fara, og því virðist mjer rjett, að milliþinganefnd taki málið í heild sinni til athugunar, því að það getur vitanlega verið um fleiri leiðir að ræða en þær, sem bent er á í till.

Síðari mótbáru hv. 3. landsk. (JÞ) verð jeg því að telja lítilsvirði, nema þá því aðeins, að hann telji heppilegast að altaf sje verið að hringla með skattalöggjöfina, eins og gert hefir verið að undanförnu. En jeg býst ekki við, að sú stefna hafi mikið fylgi meðal almennings, því að slíkt fyrirkomulag er óhentugt bæði fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur.

Jeg leyfi mjer því að vænta þess, að hv. deild samþ. þessa till., því að jeg tel hana nauðsynlega, og kostnaður af henni getur aldrei orðið mikill.