14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg skal nú ekki vera margorður, því umr. hjer í deildinni eru nú þegar orðnar svo langar, að tæplega er við þær bætandi.

Mjer finst svipað ástatt fyrir fjvn. og bónda, sem er að heimta fje sitt af fjalli að hausti til og þarf nú að ákveða, hvað hann ætlar að setja á og hverju hann ætlar að slátra. Hann lítur yfir hópinn, fallegan og hvítan og hugsar sem svo, að gaman væri nú að setja hann allan á. En heybirgðirnar og heimilisástæður hans leyfa það ekki, og áður en hann veit af er hann byrjaður að skera og orðinn blóðugur upp á axlir.

Þeim, er fyrst sest í fjvn., er líkt farið og bóndanum. Fyrir framan hann liggur fjöldi styrkbeiðna til allskonar menningarmála og nauðsynjafyrirtækja, og hið bljúga hjarta hans segir, að gaman væri að styrkja þetta alt saman. En þá kemur nauðsynin til skjalanna og leggur honum lífsreglurnar, — og hann er farinn að skera niður áður en hann veit af.

Jeg læt mjer nægja þessa skýringu fyrir till. fjvn. og skal ekki deila um það við hv. þdm., hvað talist getur þarft. En ástæðurnar leyfa ekki meira og einhversstaðar verða takmörkin að vera. Býst jeg við, að dómar hv. þdm. um till. okkar verði misjafnir, en við munum standa saman um okkar till. og láta skeika að sköpuðu. Hinsvegar bið jeg hv. þdm. að taka ekki undirtektir okkar við einstakar till. svo, sem það sje nokkur dómur um rjettmæti eða órjettmæti þeirra. Það er aðeins nauðsynin, sem þar ræður okkar dauðadómum.

Hækkanir fjvn. og stjórnar á báðum köflum fjárlaganna nema 365 þús. kr. Eru það fjárveitingar til vega og síma og annara hluta, sem þykja nauðsynlegir. Þar af nema hækkunartill. hæstv. atvmrh. 225 þús. kr., sem gerð hefir verið grein fyrir, að stafar af áætluðum útgjaldaauka ríkissjóðs vegna frv., sem ýmist þegar hafa verið samþ. eða víst má telja, að gangi gegnum þingið.

Það þótti því sjálfsagt að taka þessa tillögu líka til greina.

Í þriðja lagi kem jeg þá að hækkunartill. frá einstökum þm. Þær nema alls 260 þús. kr. Af þeirri upphæð leggur nefndin til, að samþyktar sjeu um 30 þús. Öllum öðrum brtt. legst hún á móti, a. m. k. meiri hluti hennar. Að vísu er hún ekki með öllu óklofin, og hafa einstakir nefndarmenn óbundið atkv. um sumar till.

Skal jeg þá stuttlega geta tillagna nefndarinnar um einstaka liði og byrja á till. á þskj. 435. Jeg ætla að taka í einu lagi námsstyrkina alla, XXI.–XXIX. brtt. Nefndinni var ljóst, að annaðhvort varð hún að leggja til að samþykkja þá alla eða engan. Hins treystir hún sjer alls ekki til, enda hefir hún engin skilyrði til þess, að gera upp á milli þessara námsmanna. Skortir hana til þess kunnugleika á hæfileikum þeirra og fjárhagsástæðum. Yrðu styrkirnir allir samþ., næmu þeir 11 þús. kr., og þar sem sá skilningur er orðinn ríkjandi, að styrkveitingar til háskólanáms, sem teknar eru upp í fjárlög á annað borð, eigi að gilda í 4 ár, og þingið hjeldi áfram að veita álíka marga styrki í hverjum fjárlögum, yrðu þeir að 4 árum liðnum komnir yfir 40 þús. kr. Er það ekki alllítið fje, enda hefir nefndin sjeð þann kost vænstan að leggjast móti öllum þessum brtt. Þó er hún skift um sumar þeirra. En um það er nefndin öll sammála, að verði á annað borð nokkuð samþykt af þeim, eigi styrkurinn til Árna Friðrikssonar, XXI. brtt., að ganga fyrir. Á. Fr. nemur fiskifræði, og mundi því verða heppilegur eftirmaður Bjarna Sæmundssonar. Við höfum nú þegar vatnafiskifræðing, en hlutverk þessa manns ætti að vera að rannsaka fiskalífið í sjónum, og er nauðsynlegt að eiga sjerfræðing í þeirri grein. Ennfremur telur nefndin, að halda beri áfram að styrkja þá menn, sem einu sinni hafa verið teknir upp í fjárlögin. Ella mætti segja, að þingið hefði gefið þeim tyllivonir, og verður því að telja, að það hafi nokkrar skyldur við þá.

Þá kem jeg að XXX. brtt., um skólagjöld. Nefndin hefir ekki getað fallist á hana, sjerstaklega af því, að hún hefir fengið yfirlýsingu frá hæstv. stjórn um það, að hún muni beita sjer fyrir því, að fátækum nemendum verði gefin eftir gjöldin, þegar sanngirni mælir með.

XXXII. brtt. er frá hv. 1. þm. Árn. (JörB), 3000 kr. styrkur til Sigurðar Greipssonar í Haukadal, til þess að koma upp íþróttaskóla — og 2500 kr. til vara. Nefndin leggur á móti hærri upphæðinni, en hefir óbundnar hendur um þá lægri.

XXXIII. brtt., um 1000 kr. til aukningar á bókasafni Hvítárbakkaskólans, er tekin aftur og yfirfærð á brtt. frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um samskonar efni.

XXXIV. brtt. er frá hv. þm. Dal. (SE) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), viðvíkjandi Staðarfellsskólanum. Meiri hl. nefndarinnar getur ekki fallist á till. í heilu lagi og mælir með b-liðnum, en leggur til, að hinir verði feldir.

XXXIV. brtt. er frá hv. þm. V.-Sk. (LH), um að veita 2500 kr. til húsmæðrafræðslu í Vík í Mýrdal. Nefndin legst í móti þessari till. og telur upphæðina a. m. k. of háa, þó að ef til vill væri vert að styrkja þessa húsmæðrafræðslu að einhverju leyti.

Næst kem jeg að XXXVII. brtt. Hún er frá hv. þm. V.-Húnv. (HJ) og hv. 1. þm. Skagf. (MG), um 2500 kr. aukastyrk til Reykjalaugar og Steinstaðalaugar, er skiftist í hlutf. við framlagt fje til þeirra. Nefndin mælir með þessari till. Að fengnum upplýsingum lítur hún svo á, að það sje rjett, að þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið við þessar 2 laugar, standi á mótum hins gamla og nýja styrkfyrirkomulags og ekki geti skapast hjer hættulegt fordæmi, með því að framlög hjeraðanna til þessara lauga eru meiri en annarsstaðar. Jeg skal nota tækifærið til að svara fyrirspurn hv. þm. N.-Ísf. um það, hvort nefndin ætlist til, að fje því, sem veitt er til lauga, verði m. a. varið til laugarinnar í Bolungarvík. Þessu er því að svara, að nefndin hefir ekki ráðstafað þessu fje, en jeg geri ráð fyrir, að laug sú, er hv. þm. nefndi, njóti sama rjettar og aðrar laugar.

Þá er XXXVIII. brtt., frá hv. þm. V.-Ísf., um 500 kr. til Ólafs Kristjánssonar, til þess að halda uppi kenslu í esperanto. Meiri hl. nefndarinnar mælir móti þessari till.

XL. brtt. er frá hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Ísaf.: Aukastyrkur til bókasafnsins á Ísafirði, að því tilskildu, að Guðmundur G. Hagalín rithöfundur hafi þar bókavörslu með a. m. k. 2000 kr. launum auk verðstuðulsuppbótar — 3 þús. kr. — Meiri hl. fellst ekki á þessa till., en nefndarmenn hafa óbundnar hendur um hana.

XLII. brtt. er frá sjálfum mjer ásamt 3 öðrum hv. þm., 2400 kr. til Guðmundar Kambans skálds. Nefndin hefir óbundnar hendur um þessa till. Meiri hl. hefir lagst á móti henni. Það er raunaleg staðreynd, hve örðugt skáld okkar og listamenn eiga uppdráttar, og veldur auðvitað fjárhagslegt getuleysi miklu um það. Jeg mun fyrir mitt leyti greiða till. atkv., en afdrif hennar eru vitanlega á valdi hv. deildar.

XLIII. brtt., frá hv. þm. Dal., er um 2000 kr. styrk til Stefáns skálds frá Hvítadal. Nefndin mælir í móti þessum styrk. Hefir Stefán fengið 1000 kr. árlega, og má gera ráð fyrir, að hann fái þær áfram, af fje því, sem veitt er skáldum og listamönnum.

XLIV. brtt. er frá hv. þm. Ísaf., um 1200 kr. styrk til Eggerts Guðmundssonar, til listnáms í Danmörku. Nefndin er öll á móti henni, að flm. undanteknum. Sama er að segja um brtt. þessa hv. þm., sem er II. liður á þskj. 454, 2000 kr. til Maríu Markan — og til vara 1200 — til söngnáms í Þýskalandi.

Um XLV. brtt. á þskj. 435, frá hv. 1. þm. Skagf., um að sr. Jóhannes L. L. Jóhannsson haldi styrk sínum til orðabókarstarfsemi, hefir nefndin óbundnar hendur.

XLVI. brtt. er frá hv. 1. þm. S.-M., um 1500 kr. styrk til bókaútgáfunnar „Lýðmentunar“ á Akureyri. Meiri hl. nefndarinnar er á móti henni.

Um XLVII. brtt., styrkinn til Björns Þórólfssonar, hefir nefndin óbundnar hendur.

XLIX. og L. brtt. ætla jeg að taka í einu lagi. Þær eru báðar fluttar af hv. þm. Reykv. Nefndin, eða meiri hl. hennar, mælir á móti þeim. Þó skal jeg geta þess, að hún telur fremur koma til mála að veita fyrri styrkinn, því að henni skilst, að hann eigi að nota til undirbúnings hátíðahöldunum 1930. Hina till. sjer nefndin miklu síður ástæðu til að samþykkja. Þó að gott sjé að fá lof erlendis, er hitt þó meira vert, að duga vel heima fyrir. Og satt að segja held jeg, að þessar ágætu stúlkur sjeu þegar búnar að fá svo mikið lof, að það ætti að nægja þeim fyrst um sinn, eftir þeim plöggum að dæma, sem hv. 1. þm. Reykv. (MJ) las upp fyrir þessari hv. deild. (MJ: Þær eru sómi landsins). Já, en það eru þær sjálfsagt líka heima fyrir.

Um LI. brtt., frá hv. 2. þm. G.-K., er það að segja, að nefndin fellst á fyrri lið hennar, að fyrir 3500 kr. komi 4000 kr., en vill fella síðari liðinn. Hv. flm. gerði þá grein fyrir breytingunni á aths., að safnið væri svo lítið sótt, að 2 tímar mundu nægja. Nefndin álítur, að breyta mætti um á þá leið, að hafa safnið opið 3 tíma á sunnudögum og 1 tíma í miðri viku. En það getur hinsvegar verið mjög óþægilegt fyrir ferðamenn, sem vilja skoða það, að geta ekki fengið þar aðgang nema einu sinni í viku.

Um styrkinn til Björns Björnssonar gullsmiðs, í LIII. brtt., hefir nefndin óbundnar hendur.

LIV. brtt. er frá hv. þm. V.-Ísf., um 1000 kr. námsstyrk til Guðlaugs Rósinkranssonar. Nefndin mælir á móti henni.

LV. brtt. er frá hv. 1. og hv. 3. þm. Reykv. Er þar gamall kunningi á ferðinni, uppbót á greiðslu til Jóns kennara Ófeigssonar og prentsmiðjunnar Gutenbergs vegna orðabókar Sigfúsar Blöndals. Þessi till. var flutt við 2. umr., en fór þar aðeins fram á hærri upphæðir. Nefndin var á móti henni þá og hefir ekki skift um skoðun síðan. Er hún því einnig andvíg smáskömtunum í þessari tillögu.

LVI. brtt. er frá hv. þingmönnum Rang., um að hækka framlag til sandgræðslu um 10 þús. kr. og verja þeim til sandgræðslu í Gunnarsholti. Nefndin viðurkennir, að fyrirtækið sje þarft og gott, en getur ekki fallist á að veita fje til þess í þessum fjárlögum.

Þá kemur LVII. brtt., frá hæstv. atvmrh., um 15 þús. kr. framlag til búfjártryggingasjóðs, 200 1W s. til byggingar- og landnámssjóðs og 10 þús. kr. vegna ráðstafana um tilbúinn áburð. Nefndin mælir með þessari till., enda er hún nauðsynleg vegna laga, sem þingið væntanlega samþykkir.

Nefndin er á móti till. hv. 1. þm. Árn. (II. á þskj. 450) um að hækka kaup aðstoðarmannsins við efnarannsóknastofuna upp í 6000 kr., en hefir óbundnar hendur um varatill.

Þá kemur LIX. brtt. á þskj. 435, frá hv. þm. N.-Ísf., um 17500 kr. lokastyrk til brimbrjótsins í Bolungarvík. Nefndin hefir athugað málið eftir því, sem kostur var á, og að fengnum upplýsingum eindregið fallist á að mæla með till. Álítur hún áhættu að fresta því að fullkomna verkið og að búast megi við, að ef ekkert er aðhafst á næstunni, verði alt, sem hingað til hefir verið unnið að brimbrjótnum, til einskis. En hún vill leggja sjerstaka áherslu á, að hæstv. stj. greiði ekki styrkinn, nema hún hafi tryggingu fyrir því, að verkið verði vel unnið og treysti forystumönnum þess.

LXI. brtt., um styrkinn til Dýraverndunarfjelagsins, hefir ekki fundið náð fyrir augum nefndarinnar.

LXIII. brtt. er um styrkinn til fjelagsins Landnáms. Nefndin felst ekki á þá till. Álítur hún ekki þörf á henni, þar sem nú er verið að samþ. lög um byggingar- og landnámssjóð. Verður að ætla honum og Búnaðarfjelagi Íslands að vinna það verk, sem fjelagið Landnám ætlar að nota styrkinn til.

Einnig er nefndin andvíg því að veita Sveinbirni Sveinssyni styrk til að efla laxveiði í sjó. Kom jafnvel fram sú skoðun í nefndinni, að laxveiði í sjó væri varhugaverð og ætti að banna hana, en um það ræði jeg ekki frekar.

LXVI. brtt. er frá hv. 1. þm. N.-M.: Til Gunnars Jónssonar, Fossvöllum, styrkur til húsabóta, til að geta veitt ferðamönnum gistingu, 5000 kr. Þessi styrkur er samskonar og styrkurinn til Páls á Ásólfsstöðum, og hefir nefndin lagst á móti honum. Telur hún, að ríkið geti naumast gengið inn á þá braut að styrkja einstaka menn til húsabygginga, en hinsvegar sje rjett að ætla nokkra upphæð í fjárlögum til lána í þessu skyni.

Þá er LXVII. brtt., frá hv. þm. Dal., um 300 kr. í viðurkenningarskyni til Jóns Klemenssonar í Hundadal. Nefndin getur ekki fallist á þessa till., þó að hv. þm. hafi mælt rækilega fyrir henni.

LXVIII. brtt. telur nefndin, a. m. k. meiri hl. hennar, sjer ekki fært að samþykkja. Sjer hún ekki, hvers vegna ætti að styrkja hafnsögumanninn í Stykkishólmi til bátskaupa fremur en aðra hafnsögumenn, og mundu margar beiðnir eftir fara, ef þessi væri veitt.

LXIX. brtt. er frá hv. þm. Borgf., um að veita 2000 kr. til að koma upp rafmagnsstöð í Reykholti, með afli úr hvernum Skriflu, enda verði stöðin eign staðarins. Nefndin álítur þetta merkilegt mál, en ekki nægilega rannsakað, og mælir því gegn till.

LXX. brtt. er frá hv. þingmönnum Reykv., um framlag til Sjúkrasamlags Reykjavíkur til að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga á landinu og stofna ný. Nefndin mælir á móti aðaltill., en hefir óbundnar hendur um varatill.

LXXI. brtt. er frá hv. 4. þm. Reykv. o. fl., um 10 þús. kr. styrk til Slysavarnafjelags Íslands. Nefndin hefir komið sjer saman um að mæla með brtt. frá hæstv. atvmrh. á þskj. 460, en hún fer í sömu átt.

Till. háttv. þm. Ísaf. um styrk til gamalmennahælisins á Ísafirði getur nefndin ekki samþykt og telur hjer um bæjarmál Ísafjarðar að ræða fremur en landsmál.

Þá á hv. þm. Barð. till. um hækkun á eftirlaunum Sigurðar Magnússonar læknis. Nefndin getur ekki fallist á þessa till., og er það þó hvorki af smásálarskap eða öðrum ódygðum, sem hv. þm. talaði um, heldur hinu, að verið er að reyna að koma þessum manni í embætti, og er sú betri lausn málsins.

LXXIV. brtt. vill nefndin fella, af því að hún er á móti orðabókarstyrknum til sr. Jóhannesar L. L. Jóhannssonar.

Hv. 1. þm. Reykv. hefir enn borið fram till. um hækkun á eftirlaunum Þorleifs Jónssonar póstmeistara, lítið eitt lægri en við 2. umr. Nefndin hefir ekki breytt ákvörðun og legst í móti þessari till. Sömuleiðis mælir hún í móti brtt. hv. þm. N.-Þ. um 150 kr. hækkun til Friðriks Jónssonar pósts og sjer enga ástæðu til að gera honum hærra undir höfði en öðrum póstum.

LXXVIII. brtt. er frá hv. þm. V.–Ísf., um 25 þús. kr. lán til rafveitu á Flateyri. Nefndin mælir einhuga með þeirri tillögu.

Þá kemur LXXIX. brtt., frá hv. 1. þm. Árn. og 2 öðrum hv. þm., um 10 þús. kr. lán til Páls á Ásólfsstöðum. Nefndin mælir með þessu láni, og hefi jeg áður gert grein fyrir afstöðu hennar til þess.

Um brtt. mína, LXXX. á þskj. 435, hefir nefndin óbundnar hendur. Nefndin hefir ekki fallist á till. hv. þm. Vestm. (LXXXII) um lánin Vestmannaeyjakaupstaðar, og ekki heldur till. hv. 2. þm. Eyf. um 40 þús. kr. lán til tunnuverksmiðju á Siglufirði.

Þá kem jeg að brtt. hv. þm. Borgf. (LXXXIV) Viðvíkjandi uppgjöf á Flóavegarláni. Um hana hefir nefndin óbundnar hendur. En jeg vil nota tækifærið til að svara fyrirspurn, sem hv. 1. þm. Skagf. beindi til nefndarinnar og hæstv. stjórnar um það, hvort við hugsuðum okkur, að eftirgjafir lána úr viðlagasjóði ætti að færa til gjalda í fjárlögunum. Jeg hygg mjer óhætt að svara fyrir mína hönd og meðnefndarmanna minna, að við viljum láta gera þetta, enda mun viðlagasjóði ekki veita af sínu.

Þá er það brtt. frá hv. 2. þm. Reykv., um að gefa eftir viðlagasjóðslán til þeirra Brynjólfs Bjarnasonar og Finns Jónssonar málara. Nefndin hefir ekki getað fallist á þessa brtt., og er það þó ekki af því, að hún álíti þetta trygga peninga. Það er að ræða um 19 pilta, sem fengið hafa samskonar lán og þessir, og mun lánsupphæðin nema eitthvað um 6000 kr. Sumir þeirra munu nú vera orðnir embættismenn með allgóðum launum. Ef á að fara að hreyfa við einhverjum þessara, er sjálfsagt að taka afstöðu til allra og fara að semja um greiðslu. Ef farið verður að gefa sumum upp, þá stöndum við illa að vígi, þegar aðrir koma og beiðast þess sama. Nefndin telur rjett, að stjórnin gangi úr skugga um, hvað hægt er að gera í þessu efni, og vindi bráðan bug að því að semja við þá, sem geta borgað, og leggi það síðan fyrir næsta þing. Það er kominn tími til, að þeir fari að greiða, sem það geta.

LXXVI. brtt. er frá hv. þm. Barð., um að stjórninni sje heimilt að gefa Suðurfjarðahreppi eftir viðlagasjóðslán til rafmagnsveitu í Bíldudal, 25 þús. kr. Nefndin leggur á móti þessari till., og skal jeg ekki orðlengja um það; en það er skoðun hennar, að varhugavert sje að gleypa við öllum eftirgjafabeiðnum hjeraða, og verður þess sjerstaklega að gæta, þegar jafnmörgum beiðnum rignir yfir og nú. Má þá fara að ganga að því sem gefnu, að meira eða minna af því fje, sem lánað er úr viðlagasjóði, sje tapað.

Um brtt. hv. 2. þm. Árn. viðvíkjandi Miklavatnsmýraráveitu hefir nefndin óbundnar hendur.

Brtt hv. 2. þm. G.-K., um að stjórninni sje heimilt að veita Sveini bónda Gíslasyni í Leirvogstungu 10 þús. kr. eftirgjöf af 30 þús. kr. kaupverði jarðarinnar Leirvogstungu í Mosfellssveit, leggur nefndin eindregið á móti, að undanskildum mjer. Skal jeg gera greinargerð fyrir þeim ágreiningi. Það er um tvent að ræða fyrir hið opinbera með jarðeignir sínar, annaðhvort að selja þær eða byggja. En ef þær eru seldar, þá á ríkið ekki að fara að feta í fótspor braskara og skrúfa verðið upp úr öllu valdi. Hið háa jarðaverð er einn örðugasti þátturinn í búskap bænda. Ef jarðir ríkissjóðs eru seldar, þá verður að láta þær með svo vægum kjörum, að bændur geti komist út af greiðslunum. Mun jeg því greiða atkv. með þessari brtt., þó hinir nefndarmenn verði á móti.

XC. brtt., frá hv. þm. Barð., um að kaupa húseign Einars fyrv. sýslumanns Jónassonar á Patreksfirði, er nefndin á móti. Eftir þeim upplýsingum, sem fram eru komnar, mun stjórnin hafa aðgang til að ráðstafa þeirri eign eftir öðrum vegum en þeim, er hjer ræðir um. Er því brtt. óþörf.

Þá er það brtt. XCI., frá báðum hv. þm. Rang. og hv. 3. þm. Reykv., um að gefa eftir og endurgreiða Rangárvallasýslu kr. 36811,61, sem er nokkur hluti af 1/3 kostnaðar við endurbyggingu þá á Holtaveginum, sem gerð var á árunum 1922–'24. Vegamálastjóri hefir lagt til, að sýslunni væri endurgreitt þetta fje. Nefndin hefir óbundnar hendur um þessa brtt., en óklofin mun hún ekki vera.

Hv. 1. þm. S.-M. á brtt. um að ábyrgjast 80 þús. kr. rafveitulán fyrir Búðahrepp. Þessi lánsheimild hefir þegar verið veitt áður, og er þetta því að nokkru leyti endurveiting, og leggur meiri hluti nefndarinnar til, að hún verði samþykt.

Síðasta brtt. á þskj. 435 hefir verið tekin aftur, eftir að hæstv. atvmrh. hafði komið með brtt. við þá brtt. Meiri hluti nefndarinnar hefir fallist á tillögu hæstv. atvmrh. í þessu máli. Brtt. þessi hefir þegar verið nokkuð rædd, og mun þeim umræðum hvergi nærri lokið. Jeg skal ekki orðlengja um hana að sinni; gefst ef til vill tækifæri til að ræða um hana seinna.

Þá eru enn nokkrar brtt., sem komið hafa fram síðar.

Á þskj. 450 er brtt. frá hv. þm. Rang. og hv. 3. þm. Reykv. um styrk til vegar yfir Hvolsvöll. Nefndin hefir óbundnar hendur um þá till. Sama er að segja um II. brtt. á sama þskj., frá hv. 1. þm. Árn., um hækkaðan styrk til efnarannsóknastofunnar. Mun þó meiri hluti nefndarinnar hallast að varatillögunni.

Brtt. á þskj. 458 er nefndin mótfallin, bæði þeirri fyrri, frá hv. þm. Rang., um sandgræðslu í Gunnarsholti, og eins þeirri frá hv. þm. Barð., viðvíkjandi viðlagasjóðsláni Suðurfjarðahrepps. Nefndin hefir ekki fallist á þær.

Nokkrar brtt. frá hæstv. atvmrh. eru á þskj. 460. Um fyrstu till., um Vesturlandsveginn, hefir nefndin óbundnar hendur. II. brtt. getur nefndin að vísu fallist á, en leggur þó áherslu á, að því fje sje varið í þeim sama tilgangi og hún lagði til. En ef nauðsyn verður á að verja einhverju fje til flugferða, þá má ekki taka það af þessum lið, heldur verður að fá það á annan hátt.

I. brtt. á þskj. 468, um að veita Magnúsi bónda Þorlákssyni á Blikastöðum styrk til búnaðarkenslu, hefir hv. 2. þm. Skagf. gert grein fyrir. Skal jeg engu bæta við það, en nefndin hefir óbundnar hendur í því máli.

II. brtt. er frá hv. þm. V.-Ísf., um að veita 2000 kr. styrk til bókasafna við unglingaskóla. Við hv. þm. Borgf. höfum tekið aftur till. okkar um fjárveitingu til bókasafns Hvítárbakkaskólans og höllumst að þessari till., og eins nefndin í heild. — Síðustu till. á þessu þskj., um styrk til síra Jóhannesar L. L. Jóhannssonar, er meiri hluti nefndarinnar á móti.

Læt jeg svo staðar numið að sinni, en hafi jeg eitthvað eftirskilið, eða ef einhver kann að óska frekari skýringar, þá mun mjer gefast kostur á að gera þess grein síðar.