16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2160)

147. mál, berklavarnalög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson*) Jeg hjelt, að þessi hv. þm. (HG), sem a. m. k. 1–2 undanfarin ár hefir gert sjer sjerstakt far um að kynnast gjöldum landsins, gæti ekki efast um, að berklavarnalögin hafa verið misnotuð óskaplega.

Það mun vera rjett hjá hv. þm., að í lögunum sje talað um „mikið“ tjón, — jeg hafði ekki Stjórnartíðindin við höndina, — en hver er kominn til að segja um það fyrirfram, hvort einhver líður mikið tjón eða ekki? Auk þess er það altaf matsatriði, og framkvæmd laganna bendir á, að það mat sje ríkissjóði ekki altaf sem hagstæðast. Jeg hirði ekki að nefna einstök dæmi um það, að lögin hafi verið misnotuð, enda á það varla við á þessum stað. En jeg hygg, að enginn, sem hefir kynt sjer málið, geti efast um, að misnotkun hafi átt sjer stað. Jafnvel þessi hv. þm., sem þó hefir sjerstaka tilhneigingu til að halda uppi skildinum fyrir berklavarnalögin, viðurkendi, að þau hefðu verið misnotuð á a. m. k. einu sviði.

(* Ræðuhndr. óyfirlesið.)