14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Ólafsson:

Á þskj. 435 á jeg nokkrar brtt., ýmist einsamall eða með öðrum. Það hefir nú viljað svo til, að hv. frsm. og hv. nefnd hafa lagt móti þeim flestum. Það eru að vísu svo margar brtt., að það kann að vera rjett, að vandi sje að velja þar á milli.

Jeg ætla að minnast lítillega á brtt., sem við hv. 1. þm. Reykv. flytjum, um lítilsháttar bætur á halla þeirra manna og stofnana, sem unnið hafa að hinu mikla og þjóðnýta fyrirtæki, orðabók Sigfúsar Blöndals. Jeg vona, að hv. þm. láti ekki það ámæli á sjer liggja, að vilja ekki líta sanngjörnum augum á það erfiði, sem þeir hafa á sig lagt. Jeg geri ráð fyrir, að menn segi, að t. d. Jón Ófeigsson hefði getað hætt við verkið, er hann sá, hvað mikið það var, eða krafist kauphækkunar. En þeir, sem þekkja hann, skilja vel, að kappgirni hans og samviskusemi leyfðu honum ekki að skiljast svo við þetta mál, að það máske biði við það óbætanlegan hnekki, eða jafnvel, eins og margir, sem til þekkja, álíta, hefði hleypt verkinu í algert strand um óákveðinn tíma. Endirinn varð því sá, að hann hjelt verkinu áfram, þótt hann sæi, að svona lítið væri að hafa upp úr því. Hann hefir að sjálfsögðu hugsað sem svo: Ef jeg vinn verkið vel, þá verður litið á það af sanngirni og mjer bætt þetta upp að einhverju leyti. Fram á þetta förum við einmitt í till. okkar. Sama máli gegnir um prentsmiðjuna. Þeir gerðu samning um prentunina; en er þeir tóku að vinna verkið, sáu þeir brátt, að þeir lengju ekki unnið það fyrir það verð, er þar var tiltekið. Því eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram, þá hafði verkið breytst svo í meðförunum, að það hafði vaxið um helming. Það gat enginn vitað í byrjun, hvað verkið yrði mikið, og var því gengið að samningunum í blindni. Eftir að það varð augljóst, að verkið myndi dýrara en búist var við, var skipuð nefnd til að meta þær bætur, sem prentsmiðjunni bæri að fá. Komst hún að þeirri niðurstöðu, að 20 þús. kr. væri hæfilegt, en prentsmiðjan hafði farið fram á 35 þús. kr. Eins er það með verk Jóns Ófeigssonar. Þetta var feiknaverk, eins og mörgum mun kunnugt, sem litið hafa bókina, sem þó ekki ber með sjer allar þær breytingar, sem því fylgja að eiga að koma niður á tiltekið blað ákveðnum orðafjölda.

Að loknu þessu verki mátti segja, að heilsan væri og þrotin; mjög tíð aðsvif ásóttu hann og varð hann að lokum að sigla til útlanda sjer til heilsubótar út af öllu saman. Ef hv. Alþingi lítur ekki á þetta sem verðugt launa, þá veit jeg ekki, á hvað það vill líta með velvilja.

Þá hefi jeg borið fram, eins og á síðasta þingi, till. um að veita fjelaginu Landnám 2000 kr. styrk. Jeg geri ekki ráð fyrir, að nokkur sá, sem komið hefir inn fyrir bæinn og litið á, hvað þar hefir verið gert, geti vjefengt það, að fjelagið hafi unnið gott verk og þarflegt. Það lá við borð, að þau lönd væru tekin og ráðstafað á annan hátt, þannig að bærinn ljeti rækta þau og reka þar búskap fyrir sinn reikning. En nú sýna þar verkin merkin um starf fjelagsins. Að vísu er því ekki að neita, að Búnaðarfjelag Íslands lagði styrk til þessa fyrirtækis með mælingum og þvílíku, og skal þess minst með þakklæti. En ef fjelagið hefði ekki unnið að þessu, þá væri þessu hagað öðruvísi og verkið ekki komið á eins góðan rekspöl. En mest blöskra mjer þau mótmæli hv. frsm., að með lögunum um byggingar- og landnámssjóð sje greiðlega sjeð fyrir þess háttar starfi. Þetta er rangt; sá sjóður getur ekki sint þessu starfi nema að litlu leyti. Það þarf ekki annað en líta á 1. mgr. 4. gr. í þeim lögum til að sjá, að byggingar á jörðum, sem þegar eru í ábúð, skuli ganga fyrir. En byggingar á mörgum jörðum eru svo slæmar, að ætla má, að ekki verði mikið fje afgangs fyrst í stað. Ennfremur má búast við, að með aukinni ræktun verði jörðum skift í fleiri býli. Liggur því þar næst fyrir sjóðnum að hjálpa til að koma upp byggingum á þeim býlum, sem þannig hefir verið skift úr jörðum. Sýnir þetta ljóslega, að ekki er hægt að búast við, að bæirnir njóti mikils af fje þess sjóðs. Er þó ekki vanþörf á, að bæjunum sje sint eitthvað í þessu efni. Álit mitt er það, að starfsemi svona fjelags til að vekja menn og hvetja sje meira virði heldur en sá litli styrkur, sem farið er fram á, að því sje veittur. Nú er búið að afgreiða jarðræktarlögin, með þeirri breytingu, að stofna skuli verkfærasjóð. Er tilgangurinn að fá menn til að vinna meira með verkfærum en orðið er, með því að veita verkfæralán og styrk að ½, ef um hestaverkfæri er að ræða. Þar fá bændur ekki litla þóknun fyrir hvert dagsverk, sem unnið er með verkfærum, sem verkfærasjóður veitir fje til að kaupa. Jeg sje ekki betur en komið sje svo vel á veg með að hvetja bændur til jarðræktar, að ekki sje hægt að komast öllu lengra að svo stöddu. En ef litið er á það, sem gert er fyrir kaupstaðina í þessu efni, þá verður að kannast við, að þótt þeir sjeu ekki útilokaðir, þá hafa þeir ekki eins greiðan aðgang að þessum hlunnindum og bændur hafa, heldur er sneitt hjá þeim, sem í bæjum búa. Það er ekki hætta á, að verkfærasjóðurinn lendi hjá bæjunum, en að vísu eru þeir betur settir en bændur úti á landsbygðinni vegna aðstöðumunar. En mjer gremst það, að oft kemur fram hjá þingbændum of mikil smámunasemi og þröngsýni í garð kaupstaðanna, og það kemur einmitt í ljós í þessu máli.

Þá á jeg brtt. ásamt hv. 1. þm. N.-M., um að veita Sveinbirni Sveinssyni styrk til leiðbeininga og tilrauna um laxveiði í sjó. Þó till. sje nú orðuð svo, þá er það engan veginn eingöngu laxveiði, sem höfð er fyrir augum, því þetta veiðarfæri, laxnótin, er fyrir allan fisk. Jeg geri ráð fyrir, að fáir þekki þetta veiðarfæri, og skal því lýsa því nokkuð. Þegar búið er að leggja það einu sinni, getur það altaf legið, og inn í það kemur allmikið af fiski, sel og hnýsum og öðru Sjófangi. Áhald þetta er kostnaðarlítið; þegar búið er að leggja það, þarf ekki annað en líta í það við og við, eftir hentugleikum. Það er ekki hætta á, að fiskurinn eyðileggist, þótt ekki sje vitjað lengi um; hann lifir og bíður. Þetta er því tiltölulega fyrirhafnarlítið veiðarfæri og getur gefið allmiklar tekjur, ef farið er með það af þekkingu. Það kostar um 300 kr., og er það ekki ægileg upphæð.

Það er líkt á komið með þetta og þegar klaktilraunirnar voru gerðar. Þegar Þórður Flóventsson fjekk styrk til þeirra, kom hann miklu til vegar með áhuga og dugnaði, þótt hann skorti ef til vill fullkomna þekkingu. Svo er og með þennan mann; hann vill gjarnan verða landsmönnum að liði, láta þá njóta áhuga síns og reynslu í þessu efni og kenna þeim að fara með þetta veiðarfæri, svo þeir geti haft þess not.

Jeg vil geta þess, að Fiskiþingið sá nauðsynina á þessu og veitti 500 kr. Jeg er sannfærður um, að þó að þetta nái ekki fram að ganga nú, hlýtur að fara svo fyr eða síðar, að það verði samþykt. Enda er þetta mál þess vert, að eitthvað verði gert fyrir það í framtíðinni.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt., nje heldur fara að skifta mjer af brtt. annara þm. Þó vil jeg minnast ofurlítið á þá brtt. sjútvn., sem fer fram á styrk til Árna Friðrikssonar. Það er leitt, að fjvn. skuli ekki vera á eitt sátt um hana, þó að hún leggi heldur með henni. Það stendur öðruvísi á um þennan unga mann en flesta aðra námsmenn, sem beiðast styrktar. Hann er að ljúka námi, er þegar orðinn nokkur vísindamaður og er líklegur til mikils í framtíðinni. Það sýnir best, hvers álits hann nýtur, að honum hefir þegar verið boðið að taka þátt í vísindalegum leiðangri til Indlands. Jeg vænti þess fastlega, að þessi brtt. nái fram að ganga.