16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2173)

137. mál, veðurspár

Pjetur Ottesen:

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem áður hefir verið sagt um málið, eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. (TrÞ). En jeg óska, að þessi rannsókn megi fara fram sem fyrst, því að víst er, að hjer hafa hræðileg mistök átt sjer stað, eins og kemur fram í kvörtunum þeim, sem borist hafa yfir veðurspánum í vetur. Þar sem menn hafa reitt sig á veðurspárnar, eins og jeg veit að menn á Akranesi gerðu, hefir tjónið af óáreiðanleik þeirra numið mörgum tugum þúsunda króna. Mörg hundruð skippund af fiski hafa tapast, veiðarfæri eyðilagst og menn komist í beinan lífsháska tvisvar sinnum. Jeg vona því, að þessi mistök verði tekin sem fyrst til athugunar, og ef þá sannast, að þau liggi í því, hvernig starfskraftarnir í veðurstofunni eru notaðir, eins og maður hefir fullan grun um, þá sjeu fundin ráð við því.

Hæstv. forsrh. (TrÞ) sagði, að sjútvn. hefði ráðið starfskrafta til veðurstofunnar. Það er að vissu leyti rjett, að hún rjeð Þorkel Þorkelsson yfirmann stofnunarinnar, enda þótt áhrifa hans um veðurspárnar gæti ekki nú sem skyldi og vera ætti samkvæmt stöðu hans við stofnunina.