16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2188)

146. mál, vátrygging sveitabæja

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það eru aðeins fáein orð til hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Það er rjett, að tryggingarsjóðir sveitanna voru upphaflega settir til að æfa mönnum kost á ódýrum vátryggingum. Út frá þeim skilningi var eðlilegt að fara ekki hart af stað. En nú, þegar komin er í ljós nauðsyn frekari trygginga, m. a. vegna aukinnar lánsfjárnotkunar bænda, þá er hart að standa þeim í vegi, sem vilja tryggja eignir sínar að fullu. Þessi till. á að miða að því að gefa mönnum kost á að tryggja eignir sínar að fullu án þess að þurfa að flýja frá sjóðunum. Í lögunum um byggingar- og landnámssjóð er svo ákveðið, að ekki megi lána úr þeim sjóði út á húseignir, nema vátrygðar sjeu að fullu. Verður því ekki hægt að tryggja þær húseignir í þessum sjóðum, nema ákvæðum laganna sje breytt. — Þá má og benda á, að svipuð ákvæði giltu til skamms tíma um samábyrgð bátaeigenda, en hafa reynst þar svo, að þau eru nú úr lögum numin.

Þá hjelt hv. þm. (JAJ) því fram að menn litu betur eftir, ef þeir ættu eitthvað í húfi sjálfir, ef brynni hjá þeim. En jafnvel þó allir fjármunir þeirra væru vátrygðir, þá bíða menn samt svo mikil óþægindi, ef brennur, að það ætti að vera nægilegt til þess, að hver forðist eins og hann getur brunatjón.

Hv. þm. (JAJ) mintist á það, að hrepparnir vildu helst ekki taka hin dýrari húsin til vátryggingar. Þetta er eðlilegt, meðan fyrirkomulag sjóðanna er eins og það er nú, þar sem sveitarfjelögin eru að hálfu leyti brunabótaskyld. En með því að sameina sjóði sveitanna við endurtryggingarsjóðinn, dreifist áhættan út og verður því minni fyrir einstök fjelög.

Hitt var misskilningur hjá hv. þm. (JAJ), að jeg vildi blanda saman brunabótasjóðum sveitanna og Brunabótasjóði Íslands. Jeg átti við endurtryggingarsjóðinn.