14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg skal aðeins víkja örfáum orðum að því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði síðast. Hann vildi halda því fram, að enginn eðlismunur væri á þeim till., er jeg hefði borið fram, og þeim, er hann ásamt hv. þm. Borgf. hefði ráðgert að bera fram. Jeg veit nú, að ef hv. þm. (JS) hugsar sig vel um, þá sjer hann, að það er stór eðlismunur á því tvennu, að veita stjórninni heimild til framkvæmda, og hinu, að fella þessar framkvæmdir inn í fasta liði fjárlaganna. Þess eru mörg dæmi, að slíkar heimildir, sem stjórninni hafa verið veittar, hafa aldrei verið framkvæmdar, t. d. stofnun húsmæðraskóla á Akureyri. Þetta hefi jeg áður tekið fram, og mínar till. eru aðeins heimildartill., sem ekki verða notaðar nema fje verði fyrir hendi. Hitt hefir ekki komið fyrir nema einu sinni, að stöðvaðar hafa verið verklegar framkvæmdir, sem teknar höfðu verið inn í fjárlögin; það var 1923. Jeg þarf ekki að fara frekar út í þetta, þar sem hv. þm. stilti orðum sínum mjög í hóf. En út af þeim orðum hv. þm., að stjórnin hefði ekki frá upphafi þurft að vera í neinum vafa um það, að hún fengi tekjuaukafrv. sín samþykt, þá má minna á það, að „villur fer sá, er geta skal“, því þessi ályktun hans er ekki rjett. Stjórnin hafði enga vissu um það fyr en alveg nú nýlega, eða milli 2. og 3. umr. fjárlagafrv. hjer í Nd. — En það er nú gott, að þetta horfir alt til friðar. Till. eru nú komnar fram og verða líklega samþyktar. Annars er það mín persónulega skoðun, að þessi ummæli þessara tveggja hv. þm. (JS og PO) hafi ekki verið runnar undan hjartarótum þeirra. Jeg þykist þekkja svo vel þessa tvo gömlu samverkamenn mína frá fjárveitinganefnd, að jeg er viss um, að þeir hafa aldrei tekið þetta upp af eigin hvötum, að stofna til framkvæmda fyrir tekjuhalla, heldur hygg jeg, að utanaðkomandi áhrif hafi verið þess valdandi, að þeir leiddust til að gera þetta.