17.04.1928
Neðri deild: 74. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2206)

157. mál, vísindarannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og öllum er kunnugt, stöndum við Íslendingar langt að baki flestum menningarþjóðum í rekstri atvinnuvega okkar, nema ef vera skyldi að því er snertir nokkrar hliðar á rekstri sjávarútvegsins. Við höfum þó undanfarin ár verið að vakna smátt og smátt, eins og maður, sem hefir sofið í þúsund ár, og við höfum orðið þess varir, að meðan við sváfum hefir öðrum þjóðum fleygt svo stórkostlega fram, að við stöndum þeim nú langt að baki í flestu. Stórfeldar umbætur í samgöngum, bæði í lofti, á láði og legi, hafa fært þjóðirnar saman og stytt fjarlægðirnar milli þeirra. Áður en við vitum af erum við komnir út í harða baráttu um tilveru okkar í návígi við stórþjóðirnar. Að ætla sjer að mæta þeim í samkepninni, með okkar úreltu atvinnuháttum, er eins óhyggilegt eins og að ætla sjer að mæta þeim í hernaði nú með atgeirnum Gunnars og öxinni Rimmugýgi, þótt slík vopn væru góð talin á sínum tíma.

Aðalvopn okkar og það eina, sem dugir í þeirri samkepni tíl þess að halda hinni innlendu framleiðslu til jafns við þá erlendu, er sú þekking á undirstöðu atvinnulífsins, sem aðrar þjóðir hafa aflað sjer og byggja á allar umbætur á rekstri atvinnuveganna. Það er viðurkent af öllum, að þær þjóðir, sem eru undirlægjur annara þjóða í atvinnulífinu, eru það líka á öðrum sviðum, því að það er grundvöllurinn, sem öll velmegun og velgengni þjóðanna byggist á.

Sá hugsunarháttur er mjög almennur, að best sje að kaupa alt frá útlöndum, sem í bili virðist ódýrara, og leggja minni áherslu á að framleiða það í landinu sjálfu. Það er þó víst, að ef verslunin er sett ofar framleiðslunni, þá dregur hún smátt og smátt þróttinn úr þjóðinni og verður að mjaltakonu, sem ekki mjólkar aðeins mjólkina, heldur líka blóðið.

Það, sem mest hefir hjálpað þjóðunum áfram, er það, að þær hafa tekið vísindin í þjónustu atvinnuveganna. Vil jeg í því sambandi benda á sambandsþjóð okkar, Dani. Þeir hafa á öllum sviðum tekið niðurstöður vísindanna sjer til leiðbeiningar og lagt þær upp í hendur atvinnurekendanna með skýrslum og handbókum. Að því er okkur sjálfa snertir, vil jeg aðeins benda á eitt atriði, og það er, hversu fálmandi okkar bændur eru í öllum fóðurmálefnum.

Jeg held, að þeir bændur sjeu teljandi, sem vita, hvernig þeir eigi að blanda fóðrið, svo að það komi að sem bestum notum fyrir skepnuna. Víða er til dæmis gefið ljett hey með beit, þó að það sje vitanlega sama og að gefa vatn með vatni.

Það hefir iðulega komið fyrir, að alvarlegur fellir hefir orðið á skepnum, þrátt fyrir það, að nóg hey væri til. Þetta stafar af því, að einhver efni vantar í fóðrið, en menn vita ekki, hvaða efni það eru. Þessi fellishætta er svo kunn, að meira að segja nú á síðastliðnu vori fjell margt fje eftir ágætan vetur, eingöngu af því, að einhver nauðsynleg efni vantaði í heyið.

Annað atriði vil jeg líka benda á í sambandi við þetta. Það er notkun fjörunnar og þaragróðursins. Það er að sumu leyti ágætt fóður, en er mjög óholt fyrir fóstur fjenaðarins. Og það kveður svo ramt að þessum galla, að sumstaðar, þar sem menn geta beitt í fjöru, kjósa menn heldur að gefa ám inni kanske hálfan veturinn. Hjer er vafalaust um einhverja vöntun á efnum að ræða, og ef tækist að leiða það í ljós með rannsókn, hvaða efni það eru, þá væri með því aukið að miklum mun gagnið af þessu fóðri.

Það, sem jeg vildi segja með þessari þáltill., er að stjórnin vildi láta rannsaka það nákvæmlega, hvernig okkur mundi hentast að haga vísindastarfsemi til þess að leiða það í ljós, sem við þurfum að vita í öllum þessum efnum. Það er vitanlegt, að við þurfum líffræðirannsóknir og efnafræðirannsóknir, og síðast en ekki síst bætiefna- eða fjörvirannsóknir (vitaminrannsóknir).

Nú á síðari tímum hefir það altaf verið að koma betur í ljós, hve afarþýðingarmikil hin svokölluðu bætiefni eru, og hve margir kvillar stafa af vöntun þeirra í fóðurefnin. Og ef hægt er að fá fullkomna þekkingu á íslenskum fóðurtegundum með tilliti tii bætiefna og annara mikilsverðra efnasambanda fóðursins í sambandi við fóðrun búpeningsins, þá skal jeg fullyrða, að með því er fundið það, sem meira virði er en nokkur gullnáma, fyrir íslenskan landbúnað.

Jeg skal geta þess, að Danir hafa um mörg ár haft slíkar rannsóknir með höndum og fundið margar nýungar, sem hafa verið ómetanlega mikils virði fyrir landbúnað þeirra. Jeg skal ekki fara frekar út í þetta nú, og jeg treysti mjer, því miður, ekki til þess að tala ítarlega um þá hlið þessa máls, sem snýr að sjávarútveginum. Jeg skal aðeins benda á eitt dæmi. Við háskóla Dana hafa á undanförnum árum farið fram rannsóknir á bætiefnum, og sá maður, sem hefir haft þær með höndum, skýrði mjer frá því síðastliðið haust, að íslenska lýsið væri bætiefnasnauðasta lýsið af öllum tegundum, sem rannsakaðar hefðu verið. Ef þessi vitneskja yrði kunn, þar sem lýsi okkar er selt, þá mundi það hafa afar miklar og skaðlegar afleiðingar fyrir okkur. Jeg hygg, að þetta muni stafa af því, hvernig lýsisbræðslunni er hagað hjer hjá okkur, og ef hægt er að finna það með rannsóknum, hvernig hægt er að koma henni fyrir, svo að lýsið tapi sem minstu af bætiefnunum, þá væri með því afarmikið unnið fyrir íslenskan sjávarútveg. Þannig er vafalaust margt í þeirri grein líka, sem rannsaka þarf á þennan hátt.

Þá er það atriði, hvernig best er að koma þessum rannsóknum fyrir. Okkur flm. þessarar þáltill. hefir dottið í hug, að það verði gert í sambandi við háskólann. Þessu verður að koma á fór. á einhvern hátt, og sje jeg þá ekki aðra leið heppilegri en að þessi starfsemi verði falin háskólanum. Sá misskilningur verður að hverfa, að hlutverk háskólans sje það eitt, að undirbúa menn í þau fáu embætti, sem hjer eru. Hann á að skapa grundvöll fyrir vísindastarfsemi okkar í öllum greinum, ekki síst verklegum, en rannsókna í þeim efnum þurfum við því frekar við, sem við stöndum þar flestum öðrum þjóðum að baki. Í þessu sambandi skal jeg að öðru leyti vísa til ræðu, sem Guðmundur prófessor Hannesson hjelt við setningu háskólans fyrir nokkrum árum.

Jeg get látið þessi fáu orð nægja sem framsögu fyrir þessari till. Jeg vona, að hv. deild taki henni með velvild og hæstv. stjórn láti fara fram rannsókn í málinu fyrir næsta þing, og þá getum við ráðið ráðum okkar um það, hvernig þessu verði komið fyrir svo haganlegast sje.