17.04.1928
Neðri deild: 74. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2208)

157. mál, vísindarannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg þakka hv. 1. þm. Reykv. (MJ) góðar undirtektir undir þessa till. Hann sagði, að það væri vafasamt, hvort heppilegra væri að stofna eitt embætti, eða að fá mörgum mönnum sjerstök efni til rannsókna. Hvorttveggja hefir vitanlega sína kosti, og ef ganga á ötullega fram í þessum rannsóknum, þá er ólíklegt, að einn maður gæti komist yfir þær allar. En þessi störf geta ekki orðið hlaupastörf fyrir þann, sem á að stjórna þeim. Það tekur áreiðanlega mörg ár að komast að niðurstöðu í þeim efnum, sem aðallega vakir fyrir okkur flm. þessarar till. að verði rannsökuð. Nauðsynlegt er og, að hæfir menn fáist til þessara rannsókna, en hætt er við, að þeir fáist ekki nema því aðeins, að þeir hafi tryggingu fyrir föstu starfi við þær. Ef á þessum sviðum kæmi t. d. fram maður, sem væri þar jafnviðurkendur og Bjarni Sæmundsson er á sínu sviði, þá er sjálfsagt, að hann fái fast embætti, til þess að hann geti notið sín.