14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Sigurðsson:

Það eru aðeins nokkur orð, sem jeg vil segja út af orðaskiftum okkar hæstv. forsrh. Hann vildi vjefengja það, að enginn eðlismunur væri á till. okkar. Jeg held fast við það, að fjárveitingar til verklegra framkvæmda í fjárlögum eru ekki annað en heimild fyrir stj., en engin skylda. Enda hefir stj. hagað sjer eftir því. Árið 1923 taldi stj. sjer heimilt að hætta öllum verklegum framkvæmdum, og var það ekki átalið eins og á stóð. Það stendur því fast, sem jeg hefi sagt, að þetta eru ekki annað en heimildir, sem stj. reynir að framkvæma eftir bestu getu.

Þá sagði hæstv. forsrh. að lokum, að hann vildi ekki trúa, að fyrirvari okkar hv. þm. Borgf. væri runninn undan okkar hjartarótum, og vitnaði þar til sinnar fyrri viðkynningar við okkur í fjvn. Jeg verð að segja, að mjer kemur þetta einkennilega fyrir. Jeg þykist hafa sýnt fulla einurð á því undanfarið, ekki síður en nú, að krefjast þess, að hlutur sveitanna hvað samgöngubætur og aðrar framkvæmdir snertir sje ekki fyrir borð borinn. Jeg þykist þess vegna vera í fullu samræmi við sjálfan mig og mína stefnu á undanförnum þingum.