11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (2249)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Magnús Guðmundsson:

Jeg skil vel, að hæstv. dómsmrh. (JJ) vilji, að við Íhaldsmenn förum að yrðast innbyrðis, til þess að hann verði laus sjálfur. En jeg býst við, að það verði heldur lítið úr því, og jeg hygg, að þeir verði ekki margir, sem vilji nota þetta lokaráð hans. Það er ekki nema eðlilegt, að hann vilji beina athygli manna frá sjer, en þáltill. sú, sem hjer liggur fyrir til umræðu, snýst um hann og ekki aðra. Annars var hæstv. dómsmrh. mjög hógvær, miklu hógværari en jeg hafði búist við, og er því ekki ástæða til þess að fara í hart við hann að þessu sinni. Jeg vil þó nota tækifærið til þess að leiðrjetta nokkur atriði, sem hann skýrði hlutdrægt frá, en ekki sökum þess, að hann kæmi þar fram með nokkuð nýtt, því að alt, sem hann sagði, hefir verið hrakið áður, en úr því að hann segir það enn á ný, þá tel jeg ekki eftir mjer að hrekja það enn einu sinni.

Ræða hæstv. ráðh. snerist minst um það mál, sem hjer liggur fyrir til umr. Mestur hluti hennar gekk til þess að segja sögu varðskipamálsins hjer á landi, en sú saga var hvorki rjett nje hlutdrægnislaus. Hæstv. ráðh. talaði um bygginguna á „Óðni“ og taldi hana hafa tekist mjög illa. En það hefir þegar áður verið upplýst, að þeir gallar, sem á henni voru, voru að kenna skipasmíðastöðinni, enda hefir hún nú viðurkent það með því að bæta gallana á sinn kostnað. Og meira verður ekki heimtað af nokkurri stjórn en að hún geri svo góða samninga, að skipasmíðastöðin verði að bæta gallana, ef smíðin mishepnast. Og það var gert hjer.

Hæstv. ráðh. sagði, að togaraeigendur hefðu ráðið laginu á „Óðni“. Þetta er auðvitað rangt. Það var vitanlega skipasmíðastöðin, sem rjeð lagi skipsins. Engin skipasmíðastöð tekur aðrar teikningar gildar en þær, sem hún sjálf býr til, eða búnar eru til undir hennar umsjón. Og auðvitað er það einnig rangt, að Þjóðverjar hafi ekki treyst sjer til að byggja slíkt skip, en hitt er annað mál, að þeir treystu sjer ekki til að gera það fyrir sama verð og samið var um.

Þá mintist hæstv. ráðh. (JJ) á „Þór“, og mjer skildist, að hann væri að álasa fyrv. stjórn fyrir að kaupa hann. En það var þingið, sem samþykti að kaupa, og verðið var 80 þús. kr. Nú gaf hæstv. dómsmrh. (JJ) þær upplýsingar, að „Þór hefði tekið 10 togara á 8 vikum. Líklega hafa þessir togarar ekki verið sektaðir um minna fje en 120–130 þús. kr. alls, og hefir því skipið meira en borgað sig á þessum 8 vikum. Hæstv. ráðh. ætti því ekki að lasta þessi kaup.

Næst kom hæstv. ráðh. að efni varðskipalaganna og sagði, að óhæfilegt væri að festa með æfilöngum samningi fjölda manna á skipunum. Taldi hann þetta hættulegt fyrir fjárhag ríkisins. En hjer fer hæstv. ráðh. rangt með staðreyndir. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir, að þessir menn sjeu fastari í sessi en aðrir starfsmenn ríkisins. Um alla embættismenn og starfsmenn ríkisins, sem skipaðir eru eftir 1. jan. 1920, gildir sú regla, að sjeu embætti þeirra eða sýslan lögð niður, verða þeir að fara frá án þess að eiga kröfu til biðlauna. Ef hætt hefði verið að gera út skipin, hefðu þessir menn orðið að sætta sig við að láta af starfi, samkv. lögunum. Auk þess er ákvæði í lögunum um 5 mánaða uppsagnarfrest gagnvart flestum starfsmönnum skipanna. En nú hefir þessu síst verið breytt til batnaðar, þar sem samningar eiga að vera bundnir við 6 ár og af hvorugum aðila uppsegjanlegir. Færi nú svo, að hætt yrði útgerð skipanna, verður að greiða starfsmönnum þeirra full laun í 6 ár frá því að þeir voru ráðnir, þó að þeir leysi ekkert verk af hendi. Að þessu leyti verður nýja fyrirkomulagið ríkinu óhagstæðara en hið gamla. Væri varlegra fyrir hæstv. dómsmrh. (JJ) að tala sem minst um frv. sitt um varðskipin, því að samkvæmt því, eins og það liggur nú fyrir, verður starfsmannahald á varðskipunum miklu dýrara en eftir lögunum frá í fyrra. Alt sparnaðartal um frv. er því beinlínis rangt.

Þá talaði hæstv. ráðh. (JJ) um, hvernig lögin hefðu verið samþykt á þinginu í fyrra. Jeg hefi nú athugað það efni nokkuð. Við þá athugun sá jeg, að í Ed. höfðu þau verið samþ. að viðhöfðu nafnakalli með 12:2 atkv. Má af þeirri atkvgr. glögt sjá, að það var ekki flokksmál. Í neðri deild var það samþ. með 19:3 atkv. Sýnir þetta, að báðir aðalflokkarnir hafa í fyrra verið sammála um þetta mál. En hitt er satt, að hæstv. dómsmrh. barðist á móti því, en ekki þarf að kenna flokki hans um þá andstöðu. Framsóknarflokkurinn var yfirleitt með lögunum í fyrra.

Hæstv. dómsmrh. þótti mikill munur á launum yfirmanna og undirmanna á skipunum og sagðist vilja jafna þau. En jeg held, að nokkuð langt hafi verið gengið í þeirri jöfnun, eftir því sem upplýst er, að vjelstjórarnir hafi hærri laun en yfirmenn skipanna. Ef til vill ætlast hæstv. ráðh. til, að undirmenn hafi yfirleitt hærri laun en yfirmenn. Annars er það um þessi laun að segja, að þau voru greidd eins og ákveðið var af þinginu í fyrra. Um skipstjórana var sjerstöku máli að gegna. Þeir voru teknir frá einkafjelagi og höfðu það 12 þús. kr. árslaun. Var vitanlega ekki hægt að taka þá þaðan, nema greiða þeim sömu laun, enda þóttu þeir þess maklegir. Þess er og að gæta, að þingið í fyrra samþykti þetta með sjerstöku ákvæði um laun skipstjóranna.

Þá kvartaði hæstv. dómsmrh. um, að „agiterað“ hefði verið við atkvgr. í dag — mjer skildist í flokksmönnum hans sjálfs. Honum svíður auðvitað, að frv. hans skuli hafa verið gerbreytt eins og gert var hjer í deildinni í dag. sje frv. nú borið saman við lögin í fyrra, er ekki næsta mikill munur á kaupi starfsmannanna, nema launum skipstjóranna. Þau eru nú heldur lægri. Önnur laun eru yfirleitt hærri. En nú er ríkið bundið við 6 ára samning, í stað þess, að áður mátti segja starfsmönnum á skipunum upp, eins og öðrum embættismönnum.

Hæstv. dómsmrh. sagði, áð jeg hefði mátt vita það, að svo gæti farið vegna kosninganna, að lögin yrðu ekki framkvæmd. Mjer datt satt að segja aldrei í hug, að nokkur ráðherra mundi leyfa sjer að fara í bága við gildandi lög. Og jeg bar meira að segja svo mikið traust til núverandi hæstv. dómsmrh., að jeg hefði ekki trúað honum til að gera þetta. Það er því misskilningur, að jeg hafi búist við breytingum á framkvæmdunum, eftir að þær voru byrjaðar, og það því síður, sem lögin höfðu verið samþykt með þeim atkvæðum, sem jeg gat um áðan.

Hæstv. ráðh. (JJ) hjelt því fram, að jeg hefði ekki framkvæmt lögin. Þessa staðhæfingu byggir hann á því, að mennirnir voru ekki skipaðir. En það er alt annað en að neita að framkvæma lögin. Eins og hann tók sjálfur fram, var hægt að framkvæma þau með því að setja mennina. Og þeir voru einmitt settir. En þá aðferð segist hann ekki hafa viljað nota. Áður en jeg fór úr stjórninni var farið að greiða út laun samkvæmt lögunum. Það er því misskilningur hjá hæstv. ráðh., ef hann heldur, að lögin hafi ekki verið framkvæmd. Alt tal hans um, hvað valdi því, að skipun hafði eigi farið fram, er bygt á misskilningi. Jeg get sagt honum, hvernig á þessu stóð. Og hann veit það sjálfur, því að jeg þykist þess fullviss, að skrifstofustjóri hans hafi skýrt honum frá því. Auk þess hefi jeg sagt honum það sjálfur. Það var af því, að ekki var búið að hreinrita veitinguna á skrifstofunni, þegar stjórnarskiftin urðu. Hæstv. ráðh. fór í grafgötur að leita að ástæðum fyrir þessu, og hann þóttist finna þrjá möguleika. Í fyrsta lagi gat hann þess til, að fyrv. stjórn hefði þótt lögin vond. Það er útilokaður möguleiki, þar sem hún bar sjálf fram frv. um þau og fekk það samþykt með litlum breytingum. Þá nefndi hann dugleysi, en fjell þó frá þeirri ástæðu, af því að hann taldi mig svo duglegan mann. Hvað sem dugnaði mínum líður, skil jeg ekki í öðru en að jeg hefði komið því í verk að skrifa nafn mitt undir þessi brjef, ef jeg hefði talið þörf á að leggja áherslu á það. En svo kom síðasta tilgátan, og upp úr henni lagði hæstv. ráðh. mest. Og hún var um þennan óþægilega arf, sem jeg hefði ætlað að skilja honum eftir. Þetta er misskilningur. Jeg hafði ekki í hyggju að eftirláta honum neinn óþægilegan arf. En jeg get vel skilið, að honum finnist arfurinn óþægilegur nú, en um það má hann kenna sjálfum sjer.

Tal hæstv. ráðh. um landsdóm yfir okkur báðum er á misskilningi bygt, eins og jeg hefi áður sýnt fram á. En jeg tók eftir því, að hann sagði, að ef jeg yrði dæmdur, skyldi hann taka út hegninguna ásamt mjer. Hæstv. ráðh. lofar litlu með þessu, því að hann veit fullvel, að jeg verð ekki dæmdur af landsdómi, og því getur aldrei komið röðin að honum.

Jeg sýndi fram á það áðan, að munurinn á lögunum og frv. er orðinn næsta lítill eftir þær breytingar, sem fylgismenn hæstv. ráðh. hafa gert á því. En hæstv. ráðh. gerði risnu skipstjóranna að umtalsefni og vildi láta líta svo út, að hún hefði verið fyrirskipuð. En svo var ekki. Skipstjórarnir rjeðu því sjálfir, hvort þeir höfðu risnu. Þeir fengu ekkert sjerstakt fje til þess. En þeir voru vitanlega sjálfráðir um það að halda uppi risnu fyrir eigið fje. Það var ekki hægt að fyrirbjóða þeim. En nú er eins og hæstv. ráðh. vilji gefa í skyn, að þeir megi ekki bjóða til sín gestum. Annars held jeg, að hæstv. ráðh. sje alveg eins veislukær og við hinir. Þegar við höfum verið saman í veislum, hefi jeg ekki annað sjeð en að honum liði þar ágætlega og að hann smakkaði Spánarvínin rjett eins og aðrir. Er þetta heldur ekkert undarlegt, þar sem hann hefir sjálfur sagt, að Íslendingar væru ekki samkvæmis hæfir, nema þeir „fengju sjer neðan í því“

Hæstv. ráðh. hefir nefnt það áður á þessu þingi, að jeg hafi brotið siglingalögin. Skrítið er, að hann skuli ekki hafa minst á þetta á undanförnum þingum. Nógu oft höfum við talast við til þess, að hann hefði getað komið þessu að fyr, og skil jeg ekki, hvers vegna hann hefir hlíft mjer þangað til í vetur. Af því að þetta kemur ekki við því máli, sem nú er til umr., skal jeg ekki fara nánar út í það, en hygg, að hægt sje að sýna fram á það, að samskonar undanþágur og jeg veitti hafi verið veittar í stjórnarráðinu frá því fyrsta, og ekki talið athugavert. Annars vænti jeg, að hæstv. ráðh. (JJ) svari máli mínu. En undarlegt er, að hann skuli fara úr deildinni meðan ræðu hans er andmælt. Annaðhvort hlýtur hann að halda, að ekki sje hægt að svara orðum sínum, eða hann treystir sjer ekki til að hlusta á svarið. En undir öllum kringumstæðum ber það vott um ragmensku að hlaupast á brott frá umræðunum.