11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (2251)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Sveinn Ólafsson:

Gamalt orðtæki segir, að sjaldan verði mikið úr því högginu, sem hátt er reitt. Og þetta byggist á því, að því hærra sem reitt er, því hættara er við, að geigi.

Það má segja, að með till. þeirri, sem hjer liggur fyrir, sje reitt djarft og hátt til höggs, svo hátt, að það hittir jafnvel þá, að baki vegenda, sem ekki var ætlast til að yrðu fyrir högginu; það hittir fyrv. dómsmrh., hv. 1. þm. Skagf. (MG), engu síður en þann, sem högginu er stefnt að — ef þá verður nokkuð úr því.

Jeg hefi nú um stund hlustað á umr. út af þessari till. og gefið mig lítið að þeim, enda hafa þær að miklu leyti farið utan við efnið og snúist um ýmsar væringar milli hæstv. stjórnar og flm. till. Jeg tel ekki ástæðu fyrir mig að blanda mjer í þær, en að því er efni till. snertir, þá er hún kænleg tilraun til þess að koma fram einskonar vantrausti á hæstv. dómsmrh. Eins og bent hefir verið á, er það bersýnilegt, að einmitt sama ásökun hlýtur að ganga yfir fyrv. dómsmrh., og þó frekar yfir hann, sem var upphafsmaður frestunarinnar. Báðir hafa þeir lagt í að fresta framkvæmd þessara laga, þótt ólíkar kunni að hafa verið ástæður þeirra. Það er ekki með þessu sagt, að þetta sje óþekt eða hættulegt fyrirbæri. Eins og búið er að nefna, hefir það oft komið fyrir undanfarið, að framkvæmd laga væri frestað, þegar þótt hefir varhugavert að framkvæma þau strax, eða einhver brýn ástæða mælti með frestun. Þetta skeði 1925 með búnaðarlánadeildina, svo að jeg nefni eitt dæmi af mörgum. Þessir tveir dómsmrh. hafa hafst nákvæmlega það sama að, báðir frestað framkvæmd laganna. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) lætur sem hann hafi ekki flætt á þessu skeri, heldur hafi tímaskortur hamlað því, að hann skipaði í embættin. Út af því skal á það minst, að lögin um varðskipin höfðu verið í gildi um það 2½ mánuð, er hann fór úr stjórninni, en lögin um laun skipverja að minsta kosti 1 mánuð. Það getur nú hver sem vill trúað því, að tímaskortur hafi verið orsök þess, að framkvæmd laganna var frestað af fyrv. ráðh., en jeg trúi því ekki.

Jeg ætla ekki að fara út í það að vega eða meta, hvort þetta tiltæki hafi í sjálfu sjer verið skaðlegt eða vítavert. Þar kemur tilgangurinn fyrst og fremst til greina. En hafi þetta tilfelli skapað stærra fordæmi, þá má segja það sama um það, þegar frestað var að framkvæma lögin um búnaðarlánadeildina 1925. Nú var það fyrirfram vitanlegt, að hvortveggja lögin um varðskipin frá í fyrra voru afgreidd svo, að stór minni hl. var á móti þeim og taldi afgreiðsluna mjög athugaverða. Það lá því mjög nærri, að þeim yrði breytt nú á þessu þingi, eins og þegar hefir gert verið, þar sem sá minni hluti var nú orðinn að meiri hluta.

Jeg vil nú ekki — svona rjett um miðnættið — verða til þess að lengja umræður, og mun jeg því leiða hjá mjer að svara því, sem að ófyrirsynju hefir komið fram og rangfært er um meðferð þessa máls, frá ýmsum hv. þm. Jeg vildi aðeins með þessum orðum gefa skýringu á því, af hvaða ástæðum jeg leyfi mjer að koma hjer fram með rökstudda dagskrá, sem jeg álít að hæfi til þess, eins og nú er komið, að málið fái skaplega og sómasamlega afgreiðslu. Hún byggir á staðreyndum, sem fram voru komnar í málinu, og hljóðar hún á þessa leið:

Með því að fyrverandi stjórn framfylgdi ekki varðskipalögunum, meðan hún fór með völd, hefir hvorki fyrverandi stjórnarformaður nje samherjar hans ástæðu til þess að áfella núverandi stjórn fyrir þann drátt á framkvæmd laganna, sem fyrverandi stjórn lagði drögin til, og með því ennfremur að núverandi stjórn hefir beitt sjer fyrir mikilsverðum breytingum á nefndum lögum, sem nú hafa gengið, gegnum 3 umræður í hvorri deild þingsins, og ætla má að afgreidd verði bráðlega, þá telur Alþingi ekki ástæðu til þess að áfella núverandi stjórn vegna framkvæmdar laganna og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Skv. þingvenju geri jeg nú ráð fyrir að dagskrá þessi verði rædd frekar, en jeg ætla ekki að ræða meira um þetta efni að sinni. Síðar mun jeg fá færi á að taka til máls, ef tilefni gefst, og leyfi jeg mjer hjer með að afhenda hæstv. forseta dagskrána.