11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (2255)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Ólafur Thors:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að taka til máls í þessu máli, en hæstv. dómsmrh. hefir neytt mig til þess með óskammfeilni sinni. Hæstv. ráðh. hefir sagt, að hann bæri strandvarnamálin mjög fyrir brjósti, en nú fjandskapast hann gegn þeim eftir bestu getu. Hann hefir hugsað sjer, að úr því að honum tókst ekki að standa á móti fjölgun varðskipanna, þá skyldi hann þó draga úr gildi þeirra hvers um sig, eftir því sem hann frekast gæti, og hefir því fundið upp það ráð, að reyna að koma í veg fyrir, að hæfir menn fengjust á skipin. Á þá sveifina hefir hann svo lagst af öllum sínum þunga, og hefir hæstv. ráðh. gengið þar svo langt, að hann hefir ekki vílað fyrir sjer að brigða loforð, sem Alþingi var búið að gefa skipstjórunum, m. a. með því að miða ekki þjónustutíma þeirra á varðskipunum við þann tíma, sem þeir rjeðust til Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Hafði þeim þó skýlaust verið lofað því, og jafnframt að þeir skyldu hafa áfram sömu launakjör og þeir höfðu, þegar þeir fyrst rjeðust á skipin. Þessu hafði Alþingi lofað, en hæstv. ráðh. kinnokar sjer ekki við að svíkja þessi loforð þingsins.

Það hefir áður verið sýnt fram á það hjer á Alþingi, hver áhrif það gæti haft á strandvarnirnar, ef rýrð væru launakjör skipherranna á varðskipunum, og skal jeg því ekki fara mikið út í það nú. En eins og tekið hefir verið fram, rjettlætir það ekkert launalækkunina, þó að hæstv. dómsmrh. vitni í laun annara embættismanna, sem hafa svo og svo miklar aukatekjur, sem skipherrunum er með öllu varnað að hafa. Ef bera á laun þeirra saman við laun annara manna, þá á að bera þau saman við laun manna í sömu stjett og í hliðstæðum embættum.

Jeg ætti ekki að þurfa að sýna hæstv. dómsmrh. fram á það nú, hverjar afleiðingar það gæti haft, ef liðljettingar veldust til þessara starfa. Jeg hefi gert það áður. En vel má jeg benda honum á það enn, að það væri eitthvað það hættulegasta, sem fyrir þjóð okkar gæti komið, ef liðljettingar veldust til starfans eða menn, sem ekki færu hóflega að verkum sínum, því að það er ekkert mál jafnvel fallið eins og þetta til þess að gefa erlendu valdi ástæðu til þess að fara að blanda sjer í mál okkar. Eins og kunnugt er, bera erlendu lögbrjótarnir, sem hjer eru dæmdir, íslensku varðskipunum illa söguna. Þeir gera alt, sem þeir geta, til þess að afflytja skipherra þeirra erlendis, en sem betur fer, hefir það aldrei komið að sök enn þá, því að það hefir altaf sannast, að þeir einir hafa sætt sektum, sem til þeirra hafa unnið. Við megum því varast að gefa höggstað á okkur í þessum efnum, en ekkert gæti frekar orðið til þess en ef svo reyndist, að íslenska lögreglan á sjónum yrði ber að hlutdrægni eða vankunnáttu í starfi sínu.

Jafnframt því sem hæstv. dómsmrh. hefir lagst á móti þessu þjóðheillamáli með því að lækka laun skipherranna, hefir hann jafnframt borið fram frv., sem aðeins er til þess að sýnast, og notað það til árása á pólitíska andstæðinga sína. Á jeg þar við hið vanhugsaða frv. um notkun loftskeyta, frv., sem var svo vanhugsað, að hinn hygni svokallaði flm. þess sá þann kostinn vænstan að skila seint nál. um það og láta það svo ekki koma á dagskrá, (SvÓ: Það hefir tvisvar verið á dagskrá), til þess að það kæmi ekki til umræðu.

Þá tók jeg eftir því, þegar hæstv. ráðh. var að tala um laun skipherranna í dag, að hann teldi ástæðulaust, að laun þeirra væru hærri en stýrimannanna. Út af þessum ummælum hæstv. ráðh. vil jeg spyrja, hvaða rjettlæti sje t. d. í því, að hann, hæstv. ráðh., hafi hærri laun en skrifstofustj. hans, sem þó er eldri embættismaður og mentaðri maður. Og alveg með sama rjetti má spyrja, hvaða rjettlæti hafi verið í því, að hann, hæstv. ráðh., hafði hærri laun en samkennarar hans, þegar hann var skólastjóri.

Það er alveg óþarft af mjer að fara að rökstyðja það frekar en gert hefir verið, að hæstv. ráðh. hafi brotið varðskipalögin frá síðasta þingi og fleiri lög, því að það hefir enginn gerst svo óskammfeilinn að standa upp og mótmæla því, nema hann sjálfur. Og það sjá allir heilvita menn, að það er alt annað að skjóta framkvæmd laga á frest dálítinn tíma, meðan verið er að gera nauðsynlegan undirbúning undir framkvæmdina, heldur en beinlínis að virða þau að vettugi. Það var eitt í ræðu ráðherrans, sem hrygði mig, og það var það, að hann sagðist hafa vitað, að hann hefði getað náð tilgangi sínum með því að setja menn í stöðurnar þangað til þingið væri búið að breyta lögunum, en ekki viljað gera það. Jeg hjelt sem sje, að ráðh. hefði ekki vitað þetta, — hjelt, að hann hefði ekki þekt aðra leið út úr þessu en að brjóta lögin. Ef til vill hefðu góðgjarnir menn þá reynt að afsaka ráðh. með þessu. En nú, er hann sjálfur upplýsir, að svo lítils virði hann lög landsins, að hann hikar ekki við að brjóta þau og fótumtroða, enda þótt honum væri frá upphafi ljóst, að önnur lögleg leið lá að sama marki, sýnist mjer fokið í öll skjól.

Jeg skil vel, að flokksbræður hæstv. ráðh. vilja hlífa honum við ábyrgð út af máli þessu, en þess leyfi jeg mjer þó að vænta, að svo margir rjettlátir finnist í þeirra hóp, að þeir sjái, að hjer ríður á virðingu þingsins að samþykkja þáltill. þá, sem hjer liggur fyrir, því að það mega þeir vita, að vanvirða ráðherrans hvorki eykst nje minkar við þá atkvgr., því að hún hefir þegar náð hámarki sínu. Atkvgr. sker aðeins úr því, hverjir það eru sem vilja vinna það fyrir flokksfylgi að neita að bera hönd fyrir höfuð Alþingis og sóma þess. Jeg ætla til lengstra laga að bera þá von í brjósti, að þeir verði ekki margir.