14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Torfason:

Það er nú í fimta sinn, sem hv. þm. Borgf. stendur upp til að andmæla þessari eftirgjöf og til þess að andmæla því, að Miklavatnsmýraráveitan fái rjettan sinn hlut.

Jeg þarf ekki miklu að svara af því, sem hv. þm. sagði hjer. Það dregur ekkert úr því, sem jeg hefi sagt, þó að póstur sje fluttur með þessum báti, jeg býst hvort sem er ekki við, að það yrði farið að hafa gufuskip til að flytja póstinn uppeftir, því að eftir því, sem mjer skilst, mundi ekki þurfa að borga nema nokkrar krónur fyrir flutninginn í hvert skifti, eftir því sem annarsstaðar er gert. En hvað sem þessu líður, þá hefir Borgarfjarðarsýsla hag af þessu, og er enginn efi á, að hagur hennar er miklu blómlegri fyrir það.

Þá hjelt hv. þm. áfram eftirtölum sínum, og komst svo langt að fara að telja eftir snjóbílinn. En það er sannarlega ekki Árnessýsla, sem bað um hann; það var landsverkfræðingurinn, sem stakk upp á því; það er hans hugmynd. En hvernig hefir svo þessi snjóbíll reynst? Þegar jeg fór suður núna, þá báðu Árnesingar mig fyrir hvern mun að reyna að sjá til þess, að hann yrði látinn hætta, og það er vegna þess, að hann býr til geilar í snjóinn, svo að ómögulegt er að komast áfram með vagna eftir veginum, en þar sem mjög skeflir á veginum eru þeir, sem um fara, vanir að gera braut út af veginum, þar sem hægt er að komast með vagnana. En þetta er nú eitt af því viturlega, sem ríkið verður að borga og gjalda fyrir að ekki hefir tekist eins vel og vera ber. Menn hafa hreint og beint haft skaða af þessum snjóbíl, svo að ekki er hægt að reikna Árnesingum það til útgjalda.

Þá var hv. þm. að núa sýslubúum því um nasir, að þeir hefðu ekki enn fengið hjeraðsskóla. En hvað það snertir, þá er þess að geta, að þá hefir ríkissjóður ekki þurft að standa straum af útgjöldum til hans, en annars væri þessi skóli líka fyrir löngu kominn, ef vegakostnaðurinn hefði ekki ætlað að gera út af við okkur. Það var stungið upp á því fyrir 14 árum að leggja nokkuð til hans á hverju ári, en það var ekki hægt vegna vegakostnaðarins. Þegar jeg kom til sýslunnar, voru sýslugjöldin 21 þús. kr. á ári, en jeg hefi hækkað þau um 50%. Maður getur áætlað, að þá hafi orðið að reka 1200 dilka í kaupstaðinn til þess að fá upp í gjöldin til sýslusjóðs, en nú þarf 2000 dilka til þess.

Þá var hv. þm. (PO) eitthvað að bera víurnar í þær upphæðir, sem jeg fjekk frá skrifstofunni, en það er ekki hægt að tala við hv. þm., ef hann fer að rengja tölur úr embættisskýrslum. Jeg skýrði líka frá því, að lagðar hefðu verið 10 þús. kr. í viðhald Flóavegarins meðan stóð á endurbyggingu hans, og honum hefir svo verið viðhaldið að öðru leyti; og meira að segja árið 1924, þegar vitað var með vissu, að viðhaldi vegarins yrði ljett af sýslunni, þá urðum við að leggja yfir 800 krónur í hann, til þess að geta komist yfir sýsluna.

Jeg sagði aldrei, að það væri um lögbrot að ræða hvað áveituathugasemdina snerti; jeg sagðist aðeins vekja athygli á því, að hjer gæti verið um lögbrot að ræða. Þessu máli er skipað með lögum, og jeg mótmæli því, að Alþingi hafi nokkra heimild til að setja frekari skilyrði um þetta. Flóaáveitufjelagið hefir ekki kvartað yfir viðskiftum sínum við sýslunefnd hingað til, og mun ekki gera það.

Þá vildi hv. þm. snúa sig út úr þeirri mótsögn, sem hann var kominn í, með því að segjast vera á móti Árnesingum, en með Rangæingum, og með því að tillagan hefði fallið með jöfnum atkvæðum seinast, þá hefði hann orðið að vera á móti Árnesinga tillögu á eftir. En hvað mig snertir, þá lýsti jeg þá þegar yfir því, að ef tillagan væri lækkuð, þá myndi jeg vera með henni.

Þá sagði hv. þm., að skuld sýslunnar við ríkissjóð væri 12 þús. kr. hærri en hjer er sagt; en hún er ekki nærri því svo há. Jeg fjekk upphæðina hjá ríkisfjehirði við 2. umr., en hefi því miður týnt miðanum, sem jeg skrifaði á hjá mjer upphæðina, svo að jeg get ekki sagt hana nákvæmlega, en mig minnir, að hún væri eitthvað á 10. þús. kr.; jeg man það ekki nákvæmlega, en það gerir líka minst til í þessu máli. En hvað sanngirni kröfunnar snertir, þá skýrði jeg frá því, að það væru aðeins 5 hreppar í Árnessýslu, sem notuðu veginn, en allir Rangæingar fara um hann, þegar þeir fara til Reykjavíkur, og við verðum altaf að halda við veginum fyrir þá. En þegar jeg nú við þessa umr. tók undir það að vera með tillögu Rangæinga, þá hjelt jeg, að hv. þm. hefði getað tekið sína tillögu aftur, ef hann hefði viljað vera sjálfum sjer samkvæmur.

Þá var hv. þm. að hnýta í Árnesinga út af hjeraðsskólanum og þeim litlu búvísindum, sem þeir sýndu með því; jeg veit nú ekki til, að þeir hafi gert hv. þm. nokkurn skapaðan hlut, og jeg hefi heldur ekki heyrt það, að bændur legðu í vana sinn að hnýta í stjettarbræður sína úti um land, og ekki held jeg, að einn og sami þingmaður hafi nokkru sinni áður haldið fimm ræður til þess eins að spilla fyrir stjettarbræðrum sínum; og rjett í þessu kvaddi hv. þm. sjer hljóðs, svo að það verður þá sjötta ræðan hans til að spilla fyrir stjett sinni.

Jeg hefi ekki haft neitt á móti tillögum hv. þm.; jeg hefi ekki haft neitt á móti Hvítárbrúnni, sem þó er miklu minni ástæða til að byggja heldur en margar aðrar brýr, bæði í mínu kjördæmi og annarsstaðar, þar sem kauptún eru sitthvoru megin við Hvítá, og þangað eru fluttar vörur, svo að segja heim í tún til þeirra, sem þar búa, en á meðan Borgfirðingar eru að melta þetta, gætu þeir látið aðra vera í friði.

Hvað búvísindin snertir, þá get jeg bent á það, að jarðabótaskýrslur síðustu 35 ára sýna, að jarðabætur voru helmingi hærri hjá Árnesingum en í nokkurri annari sýslu, og jafnframt því vil jeg segja það, að mjer þykir hv. þm. gera lítið úr Hvanneyrarskólanum, ef sama er, hvort menn verða að sækja hann um langan veg í annað hjerað eða hafa hann heima hjá sjer. En í einu standa sjálfsagt Árnesingar að baki Borgfirðingum, í því að taka ekki ofan af húsum sínum og nota það til að refta yfir hlandforir. Þetta eru áreiðanlega búvísindi, sem Árnesingar kunna ekki, og má líklega búast við, að þeir hafi lært það á Hvanneyrarskólanum.