04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2277)

67. mál, endurskoðun fátækralaganna

Hjeðinn Valdemarsson:

„Fátæka hafið þjer ætíð hjá yður“, segir gömul setning, sem við könnumst allir við. En við höfum ekki altaf haft fátækralög. Upphaflega hafa slík lög komið af því, að þjóðfjelagið vildi verja sig gagnvart þeim, sem voru svo fátækir, að þeir gátu ekki dregið fram lífið, verjast því, að þeir betluðu og góðgerðir til þeirra lentu þannig mjög misjafnlega niður á einstökum mönnum. Síðar á tímum hafa menn farið að skoða fátækralög frá öðru sjónarmiði, sem vernd hinna fátæku, og þá um leið farið að athuga, af hvaða ástæðum menn voru yfirleitt fátækir. Nú skiftast menn í flokka um álit sitt um það, hvers vegna mikill hluti þjóðarinnar er fátækur, en lítill hluti hennar ríkur. Jeg ætla ekki að fara út í það hjer. Kenningar jafnaðarmanna um það eru svo kunnar. En hitt skiftir ekki flokkum, af hvaða á stæðum nokkur hluti af þjóðinni á hverjum tíma er svo fátækur, að hann getur ekki dregið fram lífið án hjálpar annara. Meðal annars hafa verið teknar skýrslur um það í Reykjavík, af hvaða ástæðum menn þiggja af bænum. Jeg hefi ekki þessa skýrslu við höndina, en í þeim sjest, að í flestöllum tilfellum er það sjúkdómur eða ómegð, sem þessu valda, stundum atvinnuleysi. En um mjög fáa af hundraði verður sagt, að það sje af leti eða ómensku.

Þegar nú þannig kemur greinilega fram af skýrslum, að það eru óviðráðanleg óhöpp, sem valda því, að allur fjöldinn af þurfalingum þiggur af sveit, þá er eðlilegt, að farið sje að líta á þá hlið, að það eigi að fara með þessa menn á sama hátt og aðra menn, eða að þjóðfjelagið eigi að gera sitt til þess að fara ekki illa með þá.

Þegar fyrv. stjórn lagði frv. til fátækralaga fram á þingi í fyrravetur, bjuggust margir menn við því, að hún mundi sjá svo vítt, að hún reyndi að athuga eitthvað grundvöll fátækralaganna, en ekki láta sjer nægja að snerta við einni eða tveimur greinum. En það kom á daginn, að meiri hl. frv. var uppprentun eldri laga. Minni hl. í þinginu, Framsóknarmenn, sjálfstæðismaðurinn og Jafnaðarmenn, vildu yfirleitt ganga töluvert lengra en þáverandi stjórn í því að bæta fátækralögin. En það var barið fram af Íhaldsflokknum að koma þessum lögum sem minst breyttum gegnum þingið.

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) gat þess, að það hefði áður ekki verið fundið að öðru en því, að menn mistu rjettindi við að þiggja af sveit, og það hefði verið lagfært á þann hátt, að sveitin gæti ráðið um það sjálf. Nú veit hv. þm. vel, að um þetta var mikið deilt á síðasta þingi, og minni hl., sem þá var, vildi fara aðra leið en meiri hl. Minni hl. vildi undanþiggja menn skilyrðislaust rjettindamissi. Svo að á þessu atriði út af fyrir sig hefði mátt búast við breytingu. En það eru mörg önnur atriði þessa máls, sem bæði voru snert þá í umræðunum og oft hafa verið rædd á mannfundum og ennfremur ritað um í blöðum og tímaritum. Eins og hv. frsm. meiri hl. (BSt) mintist á, og einnig stendur í till., þá er skifting fátækraútgjalda eitt af hinum stóru atriðum, því að á sama hátt og það er óverðskuldað óhapp fyrir mann að lenda á sveit, er það einnig óverðskuldað óhapp fyrir sveitina að verða fyrir miklum fátækraþyngslum. Víðast eru framfærsluhjeruðin hjer á landi svo lítil, að það munar um, hvort eitt eða tvö þung heimili bætast við. Maður skyldi hafa haldið, að fyrv. stj. hefði tekið til athugunar, hvernig hægt væri að jafna þessa byrði. En það var ekki aðeins, að hún ljeti það vera áður en frv. kom fram, heldur neitaði hún algerlega að taka á þinginu minsta tillit til þess.

Hv. þm. gat þess, að fram hefði komið till. um að gera landið að einu framfærsluhjeraði. Jeg fyrir mitt leyti álít nú, að það væri besta lausnin á þessu máli. En sú till. kom ekki fram á síðasta þingi, heldur kom till. um það aðeins frá mjer, að einskonar samábyrgð væri milli allra sveitarfjelaga um fátækraframfærsluna, þannig að sveitarþyngslum yrði jafnað niður eftir ákveðnum reglum eftir á; en sveitirnar yrðu eftir sem áður sá aðilinn, sem annaðist framfærsluna. Þetta er auðvitað dálítið annað en ef landið væri eitt framfærsluhjerað með einni framfærslustjórn. En kostirnir við slíkt breytt fyrirkomulag eru fleiri en jöfnuður milli framfærsluhjeraða. Ef því á einhvern hátt væri komið til leiðar, að meiri jöfnuður — eða alger jöfnuður — yrði á fátækrakostnaðinum, þá hyrfi m. a. algerlega spurningin um fátækraflutning. Andstaðan gegn því að leggja niður fátækraflutning er einmitt vegna kostnaðar, sem ýms sveitahjeruð hefðu af því að ala þurfamenn sína í bæjum. En ef þeim kostnaði væri jafnað niður á aðrar sveitir, þá hyrfi auðvitað hvötin hjá hlutaðeigandi hjeruðum til að heimta til sín þurfalingana.

Jeg vil þá aðeins benda á eitt atriði í viðbót, sem hefir töluvert mikla þýðingu í þessum fátækramálum, en það er allur sá kostaður, sem verður af framkvæmd fátækralaganna. Það segja þeir menn, sem mest hafa við framkvæmd þeirra fengist, eins og t. d. borgarstjórinn í Reykjavík, að það mætti gera á miklu einfaldari hátt. Sjerstaklega er hann — sem annars er Íhaldsmaður — meðmæltur því, að landið yrði á einhvern hátt eitt framfærsluhjerað. Mjer er þetta kunnugt, af því að hann hefir haldið því fram í bæjarstjórn. Það er oft ekki lítil vinna og kostnaður í sambandi við deilur hreppa um sveitfesti, brjefaskriftir langan tíma, og loks er öllu vísað í stjórnarráðið til frekari brjefaskrifta og úrskurðar. Mætti áreiðanlega taka til greina við rannsókn fátækralaganna, hversu mikill kostnaður mundi sparast við það að hafa þau einfaldari en nú er. Það er alveg augsýnilegt, að fátækralöggjöf okkar er sniðin eftir öðrum tíma, enda er hún sniðin eftir þeim tíma, er samgöngur voru sama sem engar og hver sveit ríki út af fyrir sig. Nú er öldin önnur, samgöngur orðnar það miklar og flutningur fólks milli sveita, að menn sitja langt um síður rótfastir alla æfi á sama stað. Eftir slíkri breytingu á þjóðarhögum þarf að endurbæta fátækralöggjöfina, sníða sjer stakk eftir vexti.